17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa furðu minni á meðferð máls hér nú á fyrri fundi. Fyrir er lagt frv. sem er afgreitt ágreiningslaust úr fyrri deild. Þingið hefur mikið á sig lagt á undanförnum dögum til að greiða fyrir þeim málum sem stærri eru og það skýtur skökku við að í sama mund og menn lýsa því yfir að þeir gleðjist yfir því að fá tækifæri til að ræða um málefni Háskólans og vilji sinna málum hans rísi þeir upp til þess að stöðva framgang máls við 1. umr.

Meðferð mála í n. er til þess ætluð að mönnum gefist tækifæri til að grandskoða málin, til þess er nefndarstarfið, en að ekki sé hægt að hleypa máli, sem er afgreitt í gegnum fyrri deild ágreiningslaust, í gegnum 1. umr. og að hæstv. forseti skuli samþykkja það fyrst að fresta málinu og setja svo nýjan fund til að koma áfram málum en byrja fundinn á því að taka allt annað dagskrármál fyrir, það virðist mér fela í sér vísbendingu um það að hæstv. forseta finnist eðlilegt að fresta 1. umr. málsins á þessu stigi. Ég verð að mótmæla þessari málsmeðferð. Ég veit ekki til að slíkri aðferð hafi verið beitt við eitt einasta þingmál í vetur og hafa þau mörg verið stærri en þetta og meiri ágreiningsmál. Nefndir hafa látið sig hafa það að taka við þeim og skoða þau.

Mér finnst þetta hins vegar lýsa því hver hugur fylgir máli þegar menn þykjast hafa áhuga á málefnum Háskólans, að vilja stöðva 1. umr. málsins í þeim tilgangi að lesa nál. úr Ed. í nótt. Ég held að nál. sé einar fjórar, fimm línur og frá því sé skýrt að rektor Háskólans kom til fundar við n. sem fjallaði um málið og að breytingin sem gerð var í Ed. var gerð í samráði við Háskólann sem áður hafði haft samráð við háskólaráð. Ég hygg því að þarna sé um mjög grandskoðað mál að ræða.

Þegar spurt er um hvernig fjármagna eigi það sem hér er verið að ræða um bendi ég á að hér er talað um heimild, það er ekki verið að tala um að búa til nýja háskólastofnun sem eigi að fá fjármagn á fjárlögum. Það er verið að tala um heimild til þess að taka þátt í vissri atvinnustarfsemi eða jafnvel til að selja atvinnulífinu verkefni fyrir fé til að fjármagna Háskólann. Það er einmitt verið að gera Háskólanum kleift að fá fjármagn til þess að byggja upp sína starfsemi. (SvG: Er þetta um þingsköp?) Þetta er um þingsköp, hv. 3. þm. Reykv. Það er verið að útskýra það að eðlilegt sé að halda áfram 1. umr. málsins. (SvG: Málið er ekki á dagskrá.) Og þykir mér náttúrlega skjóta skökku við að hv. 3. þm. Reykv., helst allra manna, skuli spyrja hvort þetta sé um þingsköp. Hann hefur nokkrum sinnum rætt um þingsköp með ýmsum hætti á ýmsum fundum hér í dag. En ég játa það, herra forseti, að mér hætti e.t.v. til að fara nokkrum orðum um visst efnisatriði um leið og ég nefndi hér þá ástæðu sem hlyti að vera fyrir því að hv. þm. óskaði eftir frestun þessa máls. En ég ítreka það að mér finnst hér afar sérkennilega að ákvörðun hæstv. forseta staðið, ef þetta er rétt skilið, sem mér sýnist, að hér beri raunverulega að fresta málinu.