17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

214. mál, söluskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni um lista yfir forgangsmál ríkisstj., þá var það svo að það var sýndur listi. Á honum voru ýmis mál sem menn sáu fljótlega að mundi vera torvelt að koma hér inn fyrir áramót, svo sem eins og lánsfjárlög. Það var því nokkuð ljóst að þetta var ekki forgangslisti, heldur var þetta bara samsafn af málum sem óskhyggja ráðh. réði að fóru á þennan lista. Það var augljóst að ómögulegt var að þessi mál yrðu öll afgreidd. Það ákveðna mál sem hér er til umr., breyting á lögum um Háskóla Íslands, var raunar á þessum lista, en hafði þó ekki verið sýnt í Alþingi þegar listinn var birtur.