18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

135. mál, skólakostnaður

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja hér máls á þessum vanda. Mér finnst það hins vegar verulegt alvörumál sem hér kom fram í máli hæstv. ráðh. Það er ekki annað að sjá en að mál eins og skólakostnaður og þar með öll skipulagning og stefnumörkun framhaldsmenntunar í landinu séu í algerri upplausn. Ég vil einnig minna á tónlistarkennslu í landinu sem er í sama vandanum vegna þessa skorts á ákvarðanatöku um hver eigi að greiða kostnaðinn. Ég held það sé með því verra sem komið getur fyrir þjóð, á tímum eins og við lifum á þegar öll þróun er mjög hröð, að menntakerfi landsins sé í slíku uppnámi. Ég held það sé eitt hið brýnasta sem hið háa Alþingi á nú fyrir hendi að marka mennta- og menningarmálastefnu í landinu. Mér fannst á máli hæstv. ráðh. að þar ríkti nær algjört ráðleysi af þessari venjulegu ástæðu að engir peningar séu til. Það virðist vera sama hvar borið er niður, hvort það er þróunaraðstoð, sjúkrahúsakerfið, menntamálin í landinu, flest það sem mestu máli skiptir, þá eru ekki til peningar. Við hljótum öll að spyrja: Hvert fara allir þeir peningar sem aflað er af þessari þjóð?

Við skulum ekki gleyma því að við erum meðal tekjuhæstu þjóða í heimi. Ef við höfum ekki efni á að halda hér uppi markvissri menntastefnu, þá veit ég ekki til hvers við erum hér. Ég vil lýsa áhyggjum mínum af þessum svörum hæstv. ráðh.