18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 262 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um hugsanlega móttöku á dagskrá norska sjónvarpsins um gervihnött hér á landi. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hefur menntmrh. í nafni ríkisstj. hafið samningaviðræður við norsk stjórnvöld um móttöku hér á landi á sendingu norska sjónvarpsins frá gervihnettinum ECS 2?

2. Liggur fyrir hvern kostnað það mundi hafa í för með sér fyrir Íslendinga ef hafin yrði móttaka og dreifing á dagskrá norska sjónvarpsins hér á landi?“

Því er við þetta að bæta, herra forseti, að frá því að ég lagði þessa fsp. fram fyrir nokkru, hefur í sjónvarpi m.a. verið frá því sagt að menntmrh. mundi á næstunni fela Ríkisútvarpinu að hefja samningaviðræður eða könnunarviðræður við Norðmenn um þetta efni. Nú er hér um býsna stórt mál að ræða og viðamikið. Skal það strax fram tekið að ég er áhugamaður um norræna samvinnu, áhugamaður um norræna sjónvarpssamvinnu, sem fram til þessa í öllum umr. og á þeim mörgu fundum, sem um þau mál hafa verið haldnir, hefur miðast við það og verið gengið út frá því að menn gætu séð dagskrár hver frá öðrum nokkurn veginn hindrunarlaust. Við yrðum kannske ekki með í því samstarfi í fyrstunni af tæknilegum örðugleikum. En þetta dagskrárefni yrði jafnframt sýnt þýtt á mál hvers lands, ýmist með rituðum texta á mynd eða með töluðu máli. Þetta hafa verið forsendur.

Nú er þetta í sjálfu sér áhugavert efni. En ég verð að játa það að því lengur sem ég hugsa um þetta mál, því meira renna á mig tvær grímur ef um dreifikerfi íslenska sjónvarpsins á að senda að hluta til dagskrá norska sjónvarpsins óþýdda, ótextaða. Ég verð að játa að ég hef um það nokkrar efasemdir. Ég held að áður en samningaviðræður hefjast um það mál væri rétt að um það færi fram nokkur umr. hér á hinu háa Alþingi þannig að a.m.k. hæstv. menntmrh. viti hug þingsins og þingviljann í málinu áður en hún leggur út í þessar viðræður.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vænti svara hæstv. menntmrh. með nokkurri eftirvæntingu.