18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrri liður fsp. hv. 5. landsk. þm. hljóðar svo: „Hefur menntmrh. í nafni ríkisstj. hafið samningaviðræður við norsk stjórnvöld um móttöku hér á landi á sendingum norska sjónvarpsins frá gervihnettinum ECS 2?“ Svarið er nei. Hins vegar hafa farið fram óformlegar viðræður um þetta. Þegar norrænir menntmrh. hafa hist á fundum hefur þetta atriði borist í tal. Norski menntmrh., Lars Roar Langslet, sem hefur haft forgöngu um þetta mál, að ECS-sjónvarpshnötturinn var notaður til þess að senda dagskrárefni norður til Svalbarða með dagskrá norska sjónvarpsins, hefur látið það koma fram að hans rn. mundi vilja greiða fyrir því að Íslendingar gætu tekið á móti þessu efni ef þeim sýndist svo, að sjálfsögðu á þann veg að móttökubúnaður hér á landi yrði kostaður af Íslendingum, það segir sig sjálft. Það sem um er að ræða þarna er það að að svo miklu leyti sem til kæmu greiðslur sem kröfur risu um í Noregi, vildi rn. fyrir sitt leyti, svo og norska ríkisútvarpið greiða fyrir því að þetta gæti orðið með hagstæðum hætti fyrir Íslendinga. Þetta kemur fram í þáltill. sem norska ríkisstj. lagði fram á þinginu í Osló hinn 16. nóv. s.l. um þessar sendingar þar sem lagt er til við norska þingið að fé verði veitt til þessarar starfsemi norska útvarpsins.

Í þessari till. kemur það fram sem ég sagði áðan og sem ég vil tilfæra úr þessari þáltill.: „Flutningur dagskrár norska ríkisútvarpsins um ECS-hnöttinn mun gera það mögulegt að taka á móti dagskránni á Íslandi og Færeyjum. Ef ósk um móttöku og dreifingu á norska sjónvarpsefninu á Íslandi og Færeyjum skyldi koma fram, þá mun hvorki norska ríkisútvarpið né rn. hafa nokkuð við það að athuga.“

Til viðbótar má svo geta þess að stjórn norska ríkisútvarpsins hefur gert ályktun um það að fyrir efni, sem unnið er í þeirri stofnun af starfsmönnum hennar, mundi ekki verða gerð nein greiðslukrafa. Hins vegar er það tekið fram að ef fram kæmu kröfur um höfundarréttargreiðslur frá öðrum höfundum færi það vitanlega eftir almennum reglum og yrði samningsatriði við þá eins og almennt gildir.

Hitt er svo annað mál að um langt árabil hafa t.d. nágrannar Norðmanna, Svíar, tekið á móti þeirra dagskrárefni án þess að til hafi komið höfundarréttargreiðslur. Það munu standa fyrir dyrum samningar um þetta efni. Það má auðvitað ætla að því er okkur varðar að þarna yrði ekki um mjög miklar ef nokkrar raunverulegar kröfur að ræða. Það álit norska rn. liggur líka fyrir með óformlegum hætti að það væri þá frekar um að ræða eins konar táknrænar greiðslur, enda um tilraunafyrirkomulag að ræða.

Nú er mér það kunnugt að heildarsamningur rétthafa við norska útvarpið eða eftir atvikum rn. gæti í sjálfu sér gert okkar hlut auðveldari að þessu leyti. En ég held að ef við viljum vera raunsæ sé þetta í raun og veru ákaflega lítill hluti málsins. Ég á ekki von á því að þarna yrði um neitt sem verulegu máli skiptir að ræða og það þá þess heldur að ef sú tilhögun, sem komið hefur til tals með óformlegum hætti að nota í þessu sambandi, verður viðhöfð stendur svo á um það dagskrárefni, sem flutt er að morgninum og að degi til í norska útvarpinu, að það er efni sem er unnið af starfsmönnum útvarpsins þar í landi að stærri hluta en það efni sem flutt er að kvöldinu en drjúgan hluta kvöldefnisins mundum við ekki sjá hér á okkar skermum með því fyrirkomulagi sem aðeins hefur verið orðað að komið gæti til greina. Og þá skal ég koma að því hvaða fyrirkomulag það er. Það er talin geta verið mjög ódýr lausn þegar allt kemur til skoðunar að nota það dreifikerfi sem ekki er notað hér hjá okkur nema lítinn hluta sólarhringsins. Ódýrasta leiðin væri sú að heimila Ríkisútvarpinu að reisa og eiga móttökustöð og dreifa svo því efni, sem það tæki inn um þessa stöð, eftir sínu kerfi á þeim tíma sem íslenska dagskráin er ekki. Það efni, sem hér væri helst um að ræða, er oft og tíðum, a.m.k. sumt af því, sérstaklega ætlað öldruðum, og sumt af því eru fræðsluþættir. Síðdegis á hverjum degi eru barnatímar og fréttir auk annars efnis sem við mundum ná beint. Þetta er vegna tímamunarins á Íslandi og Noregi, eins klukkutíma munar á veturna og tveggja á sumrin.

Ég hygg að efni eins og þetta, þó ekki sé hugsað nema um barnaefnið, mundi einungis með þessu móti, þótt óþýtt og ótextað sé eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, skapa verulegt mótvægi við því vídeóefni sem er ákaflega víða á sjónvarpsskermum landsmanna og aðallega er á öðrum tungumálum en norrænum. Ég sé ekki annað en það væri til góðs að hafa aukna fjölbreytni í því efni. Ég tel líka að heimasetufólk, þeir sem annaðhvort eru bundnir heima yfir verkefnum eða þá eru heima vegna æsku, elli, einhvers konar örorku eða sjúkdóma, geti haft veruleg not af svona dagskrá. Þjónustan við þetta fólk mundi aukast. Ég held aftur á móti að það yrði mjög dýrt fyrirtæki, án þess að ég hafi látið kanna það sérstaklega, að þýða og texta allt slíkt efni, enda veit ég ekki til að það tíðkist nokkurs staðar þar sem menn horfa á efni annarra landa, eins og er t.d. víða á meginlandi Evrópu, að lagt sé í að þýða og texta dagskrár annarra landa. Mér er sem ég sæi upplitið á Fransmönnum ef þeir ættu að þýða allar þýsku dagskrárnar á frönsku eða Þjóðverjar færu að setja þýska texta á allt franska efnið, hvað þá með Belgíumenn sem af öllum Evrópuþjóðum geta valið um flestar dagskrár. (Forseti hringir.)

Því miður, herra forseti, hafði ég ekki svarað í einstökum atriðum síðari hluta fyrirspurnarinnar. Það liggja að vísu fyrir nokkrar áætlunartölur, sem eru afar lauslegar, um kostnaðinn, en um það var síðari hluti fyrirspurnarinnar. En þar eru þættir sem eru algjört samningsatriði. Ég hygg aftur á móti að það sé alveg ljóst að þessi leið, sem hér hefur verið nefnd, væri ódýrasta aðferðin til að gefa Íslendingum kost á að sjá erlenda dagskrá og þar væri um að ræða verðmæta aðferð til þess að fá sýnishorn með ódýrum hætti af því sem koma skal ef af sendingum frá norrænum gervihnetti verður. En það er eins og allir vita miklu, miklu kostnaðarsamara fyrirtæki.

Ég vil einungis bæta við þetta að móttökustöð, sem reist yrði í þessu skyni hjá útvarpinu, mundi gagnast íslenska sjónvarpinu mjög mikið með því t.d. að unnt væri að taka inn fréttasendingar beint frá Eurovisionstöðinni sem sendir um þennan hnött. Það mundi því einnig hafa margvíslegt annað hagræði í för með sér en það sem hér er um að ræða.

Og loks þetta: Það verða líklega innan tíðar reistar slíkar móttökustöðvar. Það væri með ólíkindum ef við tækjum upp á því að einangra okkur frá allri nútímaþróun. Það er mjög líklegt og ég vona að það geti orðið innan ekki mjög margra ára að við getum séð ef við viljum sjónvarpsefni frá öðrum löndum, t.d. Bretlandi, Frakklandi eða hvaðan sem á annað borð sjónvarpsgeislann bæri hér norður um. Það væri að sjálfsögðu liður í því að draga úr okkar landfræðilegu einangrun. Ég hygg að okkar sérstæða íslenska menning hafi margsinnis sýnt það og sannað að hún þolir slíkt vel og hún auðgast af aukinni fjölbreytni.