18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það liggur bara ekkert fyrir um það að tveir hæstv. ráðh., eins og hv. þm. segir, ætli að taka um þetta einhverja prívatákvörðun, það bara stendur alls ekki til. Ég veit ekki betur en að hv. þm. sé sjálfur í útvarpsráði. Það er sú stofnun sem vafalaust mundi mest fjalla um þetta og þær upplýsingar sem fram koma þegar niðurstöður viðræðna liggja fyrir. Og það er ekki nokkur skapaður hlutur á móti því að leggja þær fyrir Alþingi og sýna mönnum þær.

En mér finnst með ólíkindum sú hræðsla sem fram kemur hjá sjálfum formanni menntmn. Norðurlandaráðs, við þetta mál. Hér er um að ræða hugmynd um athugun á tilraunafyrirkomulagi, og ef það á að stranda á því að ekki sé hægt að fá allar dagskrárnar fimm og allt saman textað, þá finnst mér nú heldur skjóta skökku við. Ég held að það sé einmitt skynsamlegra að athuga slíkt í smáum stíl og ódýrum til að byrja með, síðan geta menn athugað sinn gang skref fyrir skref. Það eru stundum tekin of stór skref hér að óathuguðu máli og þegar er um seinan að leiðrétta hlutina. Nú höfum við ekki hugmynd um það, eins og mál standa í dag, í hvaða farveg hugmynd um norrænt sjónvarpssamstarf um gervihnött almennt fer. Um árabil hefur verið mikið samstarf milli hinna norrænu sjónvarpsstöðva og mér finnst sjálfsagt að notuð séu þau sambönd, sem útvarpsstöðvarnar hafa, einmitt til að kanna samstarf af þessu tagi.

Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm. að það væri alveg nýtt að nota þetta dreifikerfi sem stendur ónotað meiri hluta sólarhringsins, það er nýtt, en það er hins vegar hagkvæmt. Það er vel hægt að hugsa sér að einhverjir menn í kjördæmi hv. þm., sem hafa verið ötulir við að setja upp ólöglegar kapalstöðvar, settu upp svona búnað til að taka á móti norrænu sjónvarpsefni — (Forseti hringir.) — það gæti vel verið. Hvaða aðili sem er gæti tekið slíkt efni upp og þegar kaplakerfin eru orðin lögleg eftir samþykkt nýs útvarpslagafrv., sem ég vona að verði fljótlega á næsta ári þá getur það auðvitað komið til. Það sem hér hefur verið talað um að þurfi að athuga betur og virðist vera það alódýrasta sem hægt er að hugsa sér, að nota kerfi sem er ekki notað nema lítinn hluta sólarhringsins.

Ég þakka, hæstv. forseti, og bið velvirðingar á því að ég fór 30 sekúndur yfir þennan tíma.