18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að játa að ég er eiginlega litlu nær eftir þessar umr. og hvað stendur til að gera í þessum málum. Kannske er þetta ekki á mannlegu valdi. Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. sagði að þetta væru hlutir sem gerðust án þess að þeir sem eru á jörðu niðri væru yfirleitt spurðir, þetta gerist sem sé einhvers staðar ( háloftunum. Kannske er þetta sjónvarp þannig, sem menn eru að tala um, eftir allt saman. En það er ekki aðalatriðið.

Þetta voru einfaldar spurningar um fyrirætlanir hæstv. ráðh. Þau svör eru næsta loðin. Fram kemur að það er mikill velvilji af hálfu Norðmanna, en það er ekki nokkur leið að fá einu sinni áætlunartölur um hvað þetta kostar. Sagt er að tölur, sem nefndar voru í sjónvarpinu, séu glæfralegar, það liggi fyrir áætlun um tölurnar, en það má ekki fara með tölurnar.

Síðan er eitt atriði. Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði farið óvirðulegum orðum um vináttu Íslendinga og Norðmanna. Það er mesti misskilningur. Ég ræddi ekkert um vináttu Íslendinga og Norðmanna, hvorki til né frá. Hitt er annað mál að ég er þeirrar skoðunar að það kunni að vera mikill bjarnargreiði við áframhaldandi vináttu þjóðanna að fara að sýna hér norskt sjónvarp lon og don, ég tala nú ekki um sjónvarp framliðinna. Þannig að ég er hér eiginlega til þess að reyna að bera af mér þær sakir að þetta getur verið hið varasamasta mál.

En úr þessu skilst mér að það sé þýðingarlaust að biðja um upplýsingar um staðreyndir. Samkvæmt tölum þeim sem nefndar voru í sjónvarpinu, kostar þetta, þ.e. að taka við þessu efni, koma upp þeim móttökugræjum sem þarf, ásamt þeim höfundarréttargreiðslum sem um var að ræða til þess að greiða fyrir það efni sem er flutt að kvöldi til en ekki unnið af dagskrárgerðarmönnum norska sjónvarpsins fyrir aldraða og öryrkja, u.þ.b. 50 millj. kr. Ef þær tölur eru alrangar er alveg nauðsynlegt að nota tækifærið og upplýsa það hér á Alþingi, leiðrétta þessar tölur. Það er tilgangurinn með fsp. og svörum að fá fram viðhorf, stefnu, áætlanir stjórnvalda sem og náttúrlega svör við spurningum um staðreyndir.