18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

128. mál, afurðalán bankakerfisins

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. er í fjórum liðum sem hann hefur hér gert grein fyrir og mun ég svara þeim lið fyrir lið.

Svar við 1. lið: Þær breytingar á þessum lánum, sem gerðar hafa verið og enn er unnið að, er framkvæmd þess ákvæðis stjórnarsáttmála frá 27. maí fyrra árs sem svo var orðaður:

„Núverandi afurða- og rekstrarlánakerfi verði endurskoðað, m.a. með það í huga að þau verði á vegum viðskiptabankanna. Stefnumörkun þessi fólst í að horfið verði frá sjálfkrafa endurlánum afurða- og rekstrarlána frá Seðlabankanum. Mun það hafa í för með sér annars vegar að bankar og sparisjóðir beri fyllri og heildstæðari ábyrgð á lánaviðskiptum sínum við hin einstöku atvinnufyrirtæki, hins vegar að skipti seðlabankans við bankastofnanir ráðist af peningamálastefnu er taki mið af almennum þjóðhagslegum skilyrðum.“

Tilvitnuð stefnuyfirlýsing felur það í sér að á millistigi þeirra ráðstafana færast mörkin til milli endurkeyptra afurðalána og viðbótarlána. Láta stjórnvöld sig að sjálfsögðu varða að sú yfirfærsla gerist skipulega og án þess að lánafyrirgreiðsla breytist almennt eða lántakendum verði að tilefnislausu mismunað. Að þeim umskiptum loknum og til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að bætt jafnvægi á lánamarkaði tryggi fullnægjandi lánafyrirgreiðslu án þess að fastmótaðar, opinberar viðmiðunarreglur þurfi til að koma. Meðan ekki er á þetta að treysta veitir aðgangur að erlendu lánsfé öryggi fyrir viðunandi lánafyrirgreiðslu, enda þótt endurkaupin dragist saman.

Lækkun endurkaupahlutfalla miðaðist fyrst við 21. maí og var áformuð í svo smáum skrefum að hún átti að gilda um allan stofn lánanna. Sökum fram kominnar óánægju með svo víðtækt gildi lækkunar var horfið frá því. Endanlega var lækkunin því látin ganga í gildi hinn 1. júní s.l. og náði hún aðeins til nýrra útlána hverju sinni en eldri lán látin renna sitt skeið skv. fyrra hlutfalli.

Varðandi framleiðslulán til iðnaðar er lánað út á allar birgðirnar hverju sinni þannig að skipt var um tímabil 1. júní og fyrri lán ekki lækkuð.

Svar við 2. lið: Fyrrum taldist það hefðbundin viðmiðun að endurkeypt lán og afurðalán næmu til samans 75% af áætluðu skilaverði útflutningsafurða. Viðbótarlánin námu því tilteknu hlutfalli ofan á endurkaupin svo að þetta heildarlán næðist. Fyrir breytingar í maí/júní þurfti þannig 44% álag til þess að ná þessu marki, eða 74.88%. Síðustu árin munu bankarnir þó ekki hafa ábyrgst hærra en 40% álagshlutfall og þá heildarlán 72.8, en á hinn bóginn höfðu ýmis sjávarútvegsfyrirtæki leiðst út í enn hærri skuldabyrði tengda rekstri og birgðum, eða allt upp í 85% af viðmiðunarverðmæti eða jafnvel enn hærra. Með hliðsjón af miklum rekstrar- og fjárhagsörðugleikum sjávarútvegsins taldi ríkisstj. óhjákvæmilegt að beita sér fyrir því að viðskiptabankarnir héldu heildarlánshlutfalli í 75% þrátt fyrir lækkun endurkaupahlutfalla.

Fjárhagsstaða framleiðslu fyrir innlendan markað gaf engan veginn samsvarandi tilefni til íhlutunar hins opinbera um hlutfall viðbótarlána né heldur leyfði staða viðskiptabankanna að þeir fylltu almennt í skarð lækkandi endurkaupa. Heildarlánafyrirgreiðslan gæti því hafa lækkað samhliða endurkaupum úr 71.3% í maí í 62.5%, en hlutföll á sauðfjárafurðum hafa haldist óbreytt. Að öðru leyti mun þetta þó hafa farið eftir getu innlánsstofnana og þörfum viðskiptamanna þeirra. Á það ekki síst við lán til iðnaðar þar sem lítil almenn festa er í veitingu viðbótarlána.

Áðurgreindum lækkunum endurkaupa fylgdi engin tilslökun í bindiskyldu. Nauðsynlegt skilyrði þess að bankarnir tækju á sig auknar byrðar var að þeir fengju til þess nokkurt svigrúm út á við. Enn fremur var ljóst að frekari lækkun endurkaupa mundi kalla á annaðhvort lækkun bindingar eða svigrúm til erlendrar lántöku á móti. Framvinda þessi hefur verið að gerast samhliða auknum gjaldeyrisréttindum innlánsstofnana og auknu almennu frjálsræði í þeim efnum. Hinn 1. mars voru settar reglur um rýmri heimildir innlánsstofnana til að nýta innistæður á innlendum gjaldeyrisreikningum til gengistryggðra útlána í þágu útflutningsframleiðslunnar.

Hinn 7. sept. setti viðskrn. reglugerð nr. 383 um breytingu á reglugerð um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í samræmi við nýmæli hennar gaf Seðlabankinn hinn 12. sept. út reglur til innlánsstofnana um gjaldeyrisjöfnuð þeirra, nettóstöðu á viðskiptareikningum, gengisbindingu afurðalána og erlend lán þeirra vegna. Með þessum reglum var innlánsstofnunum heimilað að gengistryggja afurðalán út á útflutningsframleiðslu upp að 75% birgðaverðmæti og fjármagna þau með erlendu lánsfé umfram það sem fæst úr endurkaupum og óbundnum gjaldeyrisinnistæðum. Tæknilegur undirbúningur olli því að færsla viðbótarlána yfir í gengisbindingu miðað við SDR-lán kom ekki til framkvæmda fyrr en frá og með 21. okt. Þegar hér var komið sögu höfðu tveir helstu gjaldeyris- og afurðalánabankarnir, Landsbanki og Útvegsbanki, þegar safnað verulegum skuldum í erlendum gjaldeyri vegna almennrar stöðu sinnar. Var því ekki um aukin erlend lán þeirra að ræða heldur breyttist hluti lána úr yfirdráttarlánum í fastara form í tengslum við mótvirði afurðalána. Jafnframt því hefur verið unnið að því að draga úr öðrum erlendum lánum þessara banka.

Að því er varðar aðrar innlánsstofnanir leiða breytingar til lítils háttar aukningar erlendra skammtímalána. Höfðu tveir bankar sem hér komu helst við sögu tekið 135 millj. kr. að láni í því skyni upp úr miðjum október.

Svar við 4. lið: Ráðgert er að stíga til fulls það skref að afnema sjálfvirk endurkaup Seðlabankans á afurða- og rekstrarlánum í samræmi við áðurgreinda stefnu í yfirlýsingu ríkisstj. og þá kæmi til meðferðar það sem hv. þm. sérstaklega spurði að, þ.e. breyting á bindingu. Ætlast er þó til að með þeirri formbreytingu verði eðlileg og nauðsynleg lánafyrirgreiðsla við atvinnuvegina ekki skert og bönkum og sparisjóðum gert kleift að yfirtaka lánin. Þær ráðstafanir sem hér um ræðir eru nú til fullvinnslu. Er því að sinni ekki tímabært að gera frekari grein fyrir þeim en fram er komið hér á undan. Svo mun þó að sjálfsögðu gert í fyllingu tímans og þeim aðilum sem áhuga hafa á gerð grein fyrir því hvernig með slík mál verði farið.

Ég vonast til þess að ég hafi með þessari greinargerð svarað fsp. hv. þm.