18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

128. mál, afurðalán bankakerfisins

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi það atriði sem hv. þm. vék að nú í lok ræðu sinnar þá er það einmitt eitt af því sem sérstaklega verður athugað þegar þessi tilfærsla á sér stað. Það kemur alls ekki út jöfnuður í dæmi hjá ýmsum peningastofnunum sem veita afurðalán þó að bindiskyldan sé rýmkuð og verður þess vegna að huga mjög vel að því með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þessar stofnanir sem veita, eins og hann réttilega orðaði það, litlum byggðarlögum t.d. fyrirgreiðslu til þess að atvinnufyrirtæki geti þar starfað. Eins þarf að huga að því atriði hvernig viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir koma til með að standa að slíkri fyrirgreiðslu þegar frá því er horfið að Seðlabankinn hafi þá miðlun sem þar er í milli.