18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

Um þingsköp

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil ekki misnota það traust sem mér er sýnt af hv. forseta með að gera hér örstutta athugasemd við þingsköp.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs er sú að 5. liður dagskrárinnar er „Fullvinnsla kjötafurða, fsp.“. Það er 4. þm. Suðurl. sem leggur þessa fsp. fram. Þetta er þriðji þriðjudagurinn sem þessi fsp. er hér á dagskrá og ég veit það með vissu að það hefur ekki staðið á hv. forseta, að þetta mál væri tekið á dagskrá. Hins vegar er hæstv. landbrh. með undanbrögð í jafn einföldu máli og varðar þó þessi fsp. hans heimabyggð og hans kjördæmi. Eru engin takmörk fyrir því hvað menn draga svör lengi? Nú skal ég taka það fram að yfirleitt svarar hæstv. ráðh. hér eins fljótt og mögulegt er og ég skil vel vanda hæstv. ráðh. ef það eru margslungin spurninganet sem lögð eru fyrir þá í einni fsp. sem getur verið ærið verk að vinna. En mér finnst hæstv. landbrh. sýna Alþingi hreina óvirðingu, að ég tali ekki um viðkomandi þm., með því að færast undan að svara jafn einfaldri spurningu og vil fá skýringar á.