18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Ég skil hann svo að í raun og veru séu svör hans við fsp. nr. 1 og nr. 3 nei, þ.e.a.s. það stendur ekki til að gera annað en það sem þegar hefur verið gert í þeim efnum. Varðandi lið tvö las hann upp samþykkt ríkisstj. um tilmæli til Fiskveiðasjóðs. Þá vaknar auðvitað fyrst sú spurning: Hvað mun eiga við í þeim tilfellum sem Fiskveiðasjóður verður ekki eigandi að skipunum að afloknu uppboði? Hverjir aðrir fengju þá hugsanlega tilmæli eða hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. þá gera varðandi þá aðila?

Ég á við það, þegar ég tala um að útgerðarfyrirtæki hafi verið tilbúin til að teygja sig eins langt og þau töldu raunhæft og mögulegt að gera, að ég held að menn hafi verið tilbúnir og væru tilbúnir að leggja á sig fyllilega það sem nokkur annar aðili gæti gert þó svo að hann keypti skipið á uppboði. Ég held jafnvel að ef sömu aðilar ættu að taka við skipunum að afloknu nauðungaruppboði mundu þeir ekki vera reiðubúnir til að leggja jafnhart að sér ef þeir eru búnir að ganga í gegnum uppboðið og allt sem því fylgir. Ég held að menn hafi sem sagt verið tilbúnir til þess, gjarnan með stuðningi síns bæjarfélags og annarra aðila í viðkomandi byggðarlögum, að teygja sig mjög langt til þess að reyna að halda skipunum og til þess að reyna að losna við þá óvissu og þau vandræði sem af þessum uppboðum stafa. Það er heldur illa farið að þeim mönnum sem þannig voru tilbúnir til að leggja mikið á sig og berjast hetjulega við að reyna að gera út í dag.

Síðan undrast menn að ég skuli hafa hér áhyggjur af því og telja það stefna til óheilla að ekki sé hægt að endurnýja fiskiskipaflotann. Ég þarf ekki að segja hæstv. sjútvrh.hv. þm. Birni Dagbjartssyni hvað meðalaldur togaraflotans er hár og enn þá hærri meðalaldur bátaflotans. Það verður einfaldlega að skapa grundvöll til þess að hægt sé að endurnýja þessi atvinnutæki þjóðarinnar og það fljótt og það strax. Ég tel að það eigi að gera á þann hátt að íslenskur skipasmíðaiðnaður geti annast þetta verkefni. Ég held hins vegar — og það ættu menn að sjá í hendi sér — að það, sem hefur verið að gerast núna síðasta eitt og hálft árið í höndum þessarar ríkisstj., sé ávísun á sprengingu og innflutning á fiskiskipum hér á næstu árum ef svo heldur sem horfir, nema þá og því aðeins að þessi ríkisstj. ætli þjóðinni að stunda fiskveiðar úr fjörunni í framtíðinni. Það er kannske það sem þeir eru með þessum orðum að segja.

Ég segi það hikstalaust — og ég er að tala hér fyrir sjálfan mig og lýsa hér minni skoðun — að það verður að fara í það verkefni að skapa grundvöll til þess að hægt sé að endurnýja íslenska fiskiskipaflotann. Annars mun það koma stórlega niður á þessari þjóð í framtíðinni í formi versnandi lífskjara, minna öryggis á miðunum, minni hagkvæmni, meiri olíueyðslu og lakar rekins sjávarútvegs alveg á komandi árum. Það þarf ekki að bíða ýkja lengi eftir því að þetta skili sér. Það er mín sannfæring.

Það hefði þurft að taka sérstaklega á vanda þeirra skipa sem byggð voru eða keypt voru hér inn í landið eftir 1977. Það á ekkert skylt við það að þessi skip hafi ekki fiskað nóg. Einmitt mörg af þessum skipum hafa slegið aflamet í sögu þjóðarinnar eða svo gott sem á allra síðustu árum. Ég var hér að tala um skip sem setti upp sínar áætlanir miðað við 3000 tonna afla og það er ágætur afli eins og menn vita. Sé þar gott hráefni sem flokkast vel þá er þar um mikið aflaverðmæti að ræða. Það er ekki við þessi skip og útgerðaraðila þessara skipa að sakast. Ef slíkur afli dugar ekki til að greiða niður fiskiskip á Íslandi í dag þá er einhvers staðar annars staðar eitthvað að.

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig óánægður með þau svör sem hér komu, þ.e. ég hefði vonast til þess að ríkisstj. hefði lagt meiri rækt við að leysa úr þessum málum. Ég veit að það verður fylgst með því hvaða svör koma hér af hálfu þeirra aðila sem eiga nú hamarinn yfir höfði sér. Mig uggir þess að þeim þyki það litlar fréttir og lítil svör sem þeir hér fengu af munni hæstv. sjútvrh. fyrir hönd ríkisstj.