18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hver ætli hafi verið að hlaupa frá þeim vanda sem við er að glíma í sjávarútveginum? Ætli það sé ekki hæstv. sjútvrh.? Þegar það liggur fyrir að m.a. hefur Alþb. lagt hér fram á Alþingi till. um að sérstaklega yrði tekið á vanda þeirra togara sem núna eru undir hamrinum víðs vegar í landinu, en af þeim ástæðum er afkomu fólks í viðkomandi byggðarlögum ógnað. Þegar það liggur einnig fyrir að a.m.k. einn flokkur hér á hv. Alþingi hefur beinlínis lýst því yfir að við værum fyrir okkar leyti í Alþb. tilbúin til að standa að tekjuöflun í því skyni að koma til móts við þann vanda sem hér er við að glíma og við höfum skorað á hæstv. sjútvrh. að koma hér fram með tillögur í þessu efni. Það hafa engar slíkar tillögur sést.

till., sem Alþb. lagði hér fram í upphafi þings um rekstrarvanda sjávarútvegsins, hefur legið svo að segja óhreyfð í atvmn. Sþ. frá því í okt. Ég held að skynsamlegra hefði verið miðað við það hve vandamálið er alvarlegt að ríkisstj. hefði lagt sig fram um að taka höndum saman við stjórnarandstöðuna um að finna einhverja lausn á þessum vandamálum. En það hefur ekki verið gripið til slíkra aðgerða, þ.e. aðgerða sem eru að einhverju leyti sértækar aðgerðir.

Ég er alveg sammála hv. þm. Birni Dagbjartssyni um það að þessi vandamál verða ekki öll leyst með almennum aðgerðum. Það getur verið nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða sem er gripið til sérstaklega vegna ástandsins í viðkomandi byggðarlagi eða hjá viðkomandi fyrirtæki. Til þess að grípa til slíkra aðgerða verða menn að hafa fjármuni og þor til að afla þeirra fjármuna með ákvörðunum hér á hv. Alþingi. Öðruvísi ganga hlutirnir ekki.

Við höfum bent á þann möguleika að sett verði á fót deild við Fiskveiðasjóð sem við höfum kallað vinnuheitinu skuldaskilasjóður sjávarútvegsins. Hún getur auðvitað heitið ýmsum öðrum nöfnum ef menn vilja. Hugsunin er sú að þarna verði til sjóður sem yrði notaður bæði til almennra og sértækra aðgerða út frá ákveðnum grundvallarreglum sem Alþingi ákveður sjálft, bæði varðandi byggðaþróun, atvinnumál og afkomu og möguleika viðkomandi fyrirtækja.

Ég held að það verði að kallast heldur kaldar kveðjur til þeirra byggðarlaga, þar sem uppboðshamarinn glymur þessa dagana, sem hér koma fram í svari eða öllu heldur engu svari hæstv. sjútvrh. við þeirri fsp. sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur hér borið fram. (Forseti hringir.) Og ég skora á hæstv. ríkisstj. að taka nú höndum saman við stjórnarandstöðuna í þessu efni, ganga í það verk að reyna að afla tekna til aðgerða þannig að ekki þurfi til nauðungaruppboðs að koma vegna þess að með þessum nauðungaruppboðum eru margvíslegir aðilar, m.a. bæjarfélög og fleiri slíkir aðilar, að tapa stórfelldum fjármunum. Það verður auðvitað að horfa á alla þessa þætti í senn.

Ég minni á, herra forseti, að fyrir nokkrum vikum hreyfði formaður Sjálfstfl. þeirri hugmynd hér í þessum ræðustól, hv. 1. þm. Suðurl., að skipuð yrði nefnd með aðild aðila vinnumarkaðarins og þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi til að fjalla um alvarlegustu þættina í þeim efnahagsvanda sem við er að glíma hér í landinu. Ég tel að það væri kjörið verkefni fyrir slíka nefnd að ræða um þær alvarlegu horfur í atvinnumálum sem núna blasa við víðs vegar í landinu.