18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir flest það sem kom fram í máli hv. þm. Eggerts Haukdals og er hjartanlega sammála þeim skoðunum sem hann lýsti. Vitanlega ber okkur að versla fremur við innlend fyrirtæki en erlend. En sú er ástæðan fyrir því að ég stend hér upp að ég vil leiðrétta fullyrðingar hans um tilboð í húsgögn í bókasafnið í Gerðubergi hér í Reykjavík. Ég á sæti í stjórn Borgarbókasafns Reykjavíkur og tel mér skylt að skýra það mál ofurlítið hér.

Þegar til kom að stjórna því hvernig útboð skyldu vera um húsgögn í hið nýja bókasafn borgarinnar að Gerðubergi gerði stjórn Borgarbóka5afns Reykjavíkur samhljóða ályktun um að Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar skyldi sérstaklega gæta þess að versla við innlend iðnaðarfyrirtæki fremur en erlend væri það mögulegt. Upphaflega var að því stefnt að bjóða út skrifstofu- og bókasafnshúsgögn í einu útboði. Frá því var horfið og útboðinu skipt í tvennt, annars vegar í skrifstofuhúsgögn og hins vegar í bókasafnshúsgögn sem eru mjög sérhæfð. Um skrifstofuhúsgögnin, þ.e. öll önnur en sérhæfð húsgögn, er það að segja að í þau barst fjöldi tilboða og Gamla kompaníið fékk það verkefni.

Varðandi bókasafnshúsgögn er málið miklu erfiðara vegna þess að einungis eitt fyrirtæki í landinu hefur fengist við að gera slík húsgögn, sem sagt Kristján Siggeirsson, og fékk það að gera tilboð. Við höfðum nokkra fyrirmynd vegna þess að bókasafnið í Kópavogi hafði hins vegar haft opið útboð og í það bauð enginn. Þegar fram kom gagnrýni frá Félagi ísl. iðnrekenda féllst Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar á að endurtaka útboðið og var þetta mál tekið upp á stjórnarfundi Innkaupastofnunar mánudaginn 3. des. s.l. og samþykkt að óska eftir ábendingum Félags ísl. iðnrekenda um fleiri fyrirtæki sem hugsanlega gætu skilað þessu verki fyrir þann tíma sem óskað er. Þannig er nú þetta.

Til að fyrirbyggja allan misskilning, vegna þess að það hefur verið látið að því liggja að félög bókavarða og bókasafnsfræðinga væru á einhvern hátt sekur aðili í þessu máli, skal það upplýst að Þjónustumiðstöð bókasafna er sjálfseignarstofnun og er stofnuð af Bókavarðafélagi Íslands og Félagi bókasafnsfræðinga, og Reykjavíkurborg á enga aðild þar að. Tilgangur Þjónustumiðstöðvar bókasafna er sá að vera ráðgefandi fyrir hentug tæki af öllu tagi sem nota þarf á bókasöfnum, allt frá spjaldskrá til húsgagna. Ég býst við að bókaverðir hefðu verið fúsir til að skipta við íslensk fyrirtæki. (Forseti hringir.) Ég skal rétt ljúka máli mínu, herra forseti. Þeirra eina sök í þessu útboðsmáli var sú að benda á ákveðna gerð húsgagna, sem Bibliotekscentralen í Kaupmannahöfn hefur framleitt, og ég get nú ekki séð að það geti verið stór synd. Hér er verið að stofna stærsta bókasafn í Reykjavík, og vitanlega er það okkur öllum metnaðarmál, að þar sé nýtískulegt og vel búið bókasafn, og þess vegna hlutum við að leita þar sem líklegast var að við gætum fengið sómasamleg húsgögn. En hins vegar hefur þetta mál svo verið opnað að nýju, og finnist einhverjir á Íslandi sem vilja og geta framleitt bókasafnshúsgögn, þá er það auðvitað opið, en í ljós kom að ekki var unnt að taka við tilboði þeirra hjá Kristjáni Siggeirssyni.

Þetta vildi ég endilega að fram kæmi hér.