18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eins og rakið var í máli hæstv. ráðh. var talsvert að gert í sambandi við þessi mál í tíð fyrri ríkisstj., raunar tekið inn í stjórnarsáttmála að mörkuð verði ákveðin stefna um opinber innkaup og til að efla innlendan iðnað og iðnþróun. Síðan var, eins og rakið var af hæstv. ráðh., gerð sérstök ríkisstjórnarsamþykkt um málið 1. júní 1982 og kjarni hennar var sá, að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skuli leitast við að kaupa íslenskar vörur ef kaupin eru þjóðhagslega hagkvæm, kaupverð eðlilegt og gæði fullnægjandi. Í öðru lagi að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skuli stuðla að iðnþróun og vöruþróun í landinu á markvissan hátt með því m.a. að leitast við að haga útboðum, hönnunarsamningum og verksamningum þannig að þeir miðist við íslenskar vörur og aðstæður. Þetta er kjarninn í samþykkt ríkisstj. og á grundvelli hennar var skipuð samstarfsnefnd um opinber innkaup undir forustu iðnrn., en með bakhjarl í þessari samþykkt ríkisstj. sem var mjög þýðingarmikill. Ráðh. rakti þetta mál þannig að ég þarf ekki að fjölyrða um það.

Ég vildi aðeins, um leið og ég tek undir mikilvægi þessa þáttar, inna hæstv. ráðh. eftir því hvort samstarfsnefnd um opinber innkaup sé ekki starfandi áfram, og ef svo er ekki, hvaða ástæður hafa lengið fyrir því ef hún hefur verið leyst frá störfum.

Ég heyri að hæstv. ráðh. hefur leitað í þann hugmyndbanka sem hann gjarnan styðst við, ég vil ekki segja í öllum málum en flestum málum, Hagvang, í sambandi við þessi efni. Ekki skal ég draga úr því að þaðan geti komið gagnlegar hugmyndir. En ég er sannfærður um að samstarf eins og stofnað var til innan samstarfsnefndar um opinber innkaup á árinu 1982 var vel íhugað, enda haft samband við framkvæmdanefnd um iðnaðarstefnu í því efni áður en til þess var stofnað. Þarna voru sameinaðir í nefnd framleiðendur, þ.e. iðnrekendur, Alþýðusamband Íslands, sem átti þarna tvo fulltrúa, og Innkaupastofnun ríkisins í gegnum fjmrn., þannig að ég er viss um að ef þarna hefur verið fylgt vel á eftir hefði nú þegar safnast mjög mikilvæg reynsla í sambandi við þessi mál. Ég inni því hæstv. ráðh. nánar eftir starfi þessarar samstarfsnefndar um opinber innkaup, hvort hún sé ekki enn að störfum og um reynslu af því starfi og ef breyting hefur orðið á, þá rökin fyrir því.