18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sú nefnd er ekki enn þá starfandi og meginástæða þess er sú að ég missti formann hennar fyrir borð eigi alls fyrir löngu. Það hefur verið leitað eftir því að hún yrði endurnýjuð og menn eru að velta vöngum með hvaða tökum þessi mál verða tekin, líka vegna starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins. Ég fór yfir, lauslega að vísu, þær upplýsingar sem ég hef nú að gefa, hugleiðingar um hvaða ráða skuli neytt í þessu sambandi. En ég hef í huga að fylgja eftir því sem að iðnrn. snýr alveg sérstaklega, um að upplýsingar verði gefnar í þessu efni, og enn fremur hef ég leitað eftir því við aðra hæstv. ráðh. að menn tækju höndum saman. Það hefur ekki orðið nægjanlegur árangur af því sem ég upphaflega batt vonir við, það skal alveg játað, en það er þó engin ástæða til og kemur ekki til nokkurra mála að gefa slíka tilraun upp á bátinn því að málið er svo brýnt og mikilvægt.