18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Út af orðum hv. 10. landsk. þm. Guðrúnar Helgadóttur, þá ber að fagna því að útboðsaðili Gerðubergs skyldi taka sig á og vonandi að það leiði til þeirrar niðurstöðu að íslenskir aðilar fái þetta verk.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og þær upplýsingar sem hann gaf. Því er ekki að leyna að það sýnist hafa verið nokkur hægagangur á þessum málum. Till. er samþykkt 2. apríl 1981, en það er komið á annað ár, eða 1. júní 1982, þegar hæstv. þáverandi ráðherra tekur til að huga að framkvæmd þessarar þál. (Gripið fram í.) Síðan hefur hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson, eins og hér kom fram, gert ýmislegt í þessu.

Ég vil leggja höfuðáherslu á að hann hefur manna mest talað um það, hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson, að þál. sem samþykktar séu á Alþingi þurfi að fylgja eftir og ríkisstj. á hverjum tíma að fara eftir þeim. Ég treysti honum hið besta til að framkvæma þetta af festu. Allt of lengi hefur tíðkast að þál. frá hv. Alþingi séu aðeins pappírsgagn. Þessu þarf að breyta.

Hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, þessi opinberu innkaup, að ég vona að hæstv. ráðh. fylgi þessu máli eftir, þannig að verulegur árangur verði af því og íslenskur iðnaður njóti góðs af því starfi.