18.12.1984
Neðri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

235. mál, Háskóli Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til 1. umr., er athyglisvert og sjálfsagt að það fái athugun í menntmn. sem hæstv. ráðh. hefur lagt til að fjalli um málið. Ég tel að hér hafi komið fram gagnlegar ábendingar bæði í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 4. landsk. þm. núna síðast, sem nefndin geti haft gagn af við meðferð málsins. Ég vil greiða fyrir því að málið fái umsögn sem flestra aðila sem það varðar. Það eru eflaust margir sem hafa áhuga á málum sem þessu tengjast, ekki síst þessari fyrirhuguðu þróunarmiðstöð við Háskólann.

Ég tek eftir því að í grg. er ekki að finna neitt kostnaðaryfirlit varðandi slíkt fyrirkomulag og það má vera að þessar hugmyndir séu það ómótaðar að erfitt sé að áætla kostnað. En í lögum nr. 13/1979, sem í eina tíð voru alltítt nefnd hér á Alþingi, er ákvæði sem áskilur að frv., sem hafi í för með sér kostnaðarauka, skuli fylgja áætlun frá fjárlaga- og hagsýslustofnun þar að lútandi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem sjálfsagt er að menntmn. taki á við athugun málsins.