18.12.1984
Neðri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

235. mál, Háskóli Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Til þess skal vanda sem vel á að standa, segir einhvers staðar. Ég held að það geti átt við í þessu máli jafnt þótt um það virðist ríkja hin ágætasta samstaða meðal hv. þm. að hér séu á ferðinni merk nýmæli sem gætu orðið heilladrjúg Háskóla Íslands sem og þjóðinni allri í framtíðinni.

Ég vil einungis að þessu sinni vekja athygli á og velta upp nokkrum spurningum sem koma í huga minn, þá einkum og sér í lagi varðandi það í þessu frv. sem merkast nýmæli telst, sem er í 5. gr. Í fyrsta lagi held ég að nauðsynlegt væri að fyrir lægi að hve miklu leyti sú grein, eins og hún er eftir breytingar í Ed., er með samþykki og fullri samstöðu háskólaráðs. Ég hlýt að skilja það svo, eins og segir í aths., að frv. þetta sé flutt að fengnum tillögum háskólaráðs, þ.e. frv. sjálft eins og það var lagt fram í Ed. Síðan urðu á því breytingar hvað varðar þessa 5. gr., þar sem nafnið „þróunarmiðstöð“ og tvær málsgreinar, sem um hana fjalla, komu inn. Því væri eðlilegt að menn spyrðu: Er háskólaráð engu að síður samþykkt og er þar full samstaða um greinina eins og hún liggur nú fyrir eftir meðferð í Ed.? Ég bendi hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta til skoðunar, á að kynna sér þetta.

Það eru ýmsar fleiri spurningar sem vakna í tengslum við þessa 5. gr. og einkum og sér í lagi þau ummæli sem um hana eru höfð í aths. við einstakar greinar. Þar er ýmislegt sagt sem varðar skattfrelsi Háskólans og ég tek undir það sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði í því efni. Háskóli Íslands er skv. 1. gr. sinna laga — það ber okkur alltaf að hafa í huga — fyrst og fremst akademísk stofnun. Það segir, með leyfi forseta, í 1. gr. laga um Háskóla Íslands undir fyrirsögninni „Hlutverk Háskóla Íslands“:

„Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu.“

Á því leikur sem sagt enginn vafi að hlutverk Háskólans er fyrst og fremst að vera þessi vísindalega eða akademíska rannsóknar- og fræðslustofnun. Þess vegna vakna spurningar um áherslur og um samspil þessara þátta þegar stofnun eins og Háskólinn fer inn á nýjar brautir með beinni þátttöku í fyrirtækjum úti í atvinnulífinu. Enn fremur vakna þessar spurningar þegar það liggur fyrir — reyndar staðfest af hæstv. menntmrh. hér úr þessum stóli áðan — að Háskólinn býr nú við þröngan kost hvað fjárveitingar varðar. Það hljóta að koma upp spurningar um forgang. Ég vil t.d. velta því hér upp hvernig þeim kostnaði verði mætt sem ég tel óhjákvæmilegt að tímabundið leiði af þátttöku Háskólans í þessari nýju stofnun. Ég er þeirrar skoðunar — og þar kann okkur hæstv. menntmrh. að greina nokkuð á — að Háskólinn þurfi að hafa eitthvert fjármagn til að leggja í þessa starfsemi, a.m.k. tímabundið, að fjárfesta í þessari stofnun. Við skulum vona að það geti rentað sig og skilað sér bærilega þegar sú starfsemi, sem upp yrði tekin, fer að bera arð. Það gefur hins vegar auga leið að það mundi auka gildi þessarar starfsemi að Háskólinn hefði nokkurt bolmagn hvað fjármagn varðar til að taka þátt í þessu. A.m.k. þarf hann að sjá sér fært að sjá af starfstíma starfsmanna sinna og rannsóknaraðstöðu í þessu skyni. Það eru líka fjármunir sem þannig ganga til verksins.

Ég nefndi hér í umr. snemma á þessum sólarhring, herra forseti, að ýmislegt t.d. í byggingarmálum Háskólans væri ekki sem skyldi. Ég nefndi einnig að ýmislegt í almennri stefnumörkun þeirrar stofnunar ætti fullt erindi inn í þessa umr. og ég mundi fagna því ef okkur gæfist á nýja árinu tóm til að ræða þetta mál í tengslum við slíkt.

Það eru reyndar fleiri en Háskóli Íslands sem hafa uppi áform um þróunarstofnanir eða þróunarmiðstöðvar. Hæstv. ríkisstj. hefur látið það boð út ganga til þjóðar sinnar að hún hyggist koma á fót þróunarstofnun, þróunarmiðstöð eða hvað það nú skal heita. Heyrst hefur nefnt í því sambandi að slík stofnun kynni að verða staðsett annars staðar en hér í Reykjavík og væri nokkurt nýmæli, t.d. á Akureyri. Ég hlýt sjálfum mér samkvæmur að spyrja: Kæmi það þá til greina að eitthvert samstarf eða samspil yrði milli þessarar nýju starfsemi á vegum Háskóla Íslands og þessa nýja barns ríkisstj., þróunarmiðstöðvarinnar á Akureyri? Kæmi það t.d. til greina að Háskólinn í tengslum við starfsemi sem hann vonandi tekur upp á næstu árum á Akureyri, skipulegði sína starfsemi þannig að þessar tvær stofnanir, ef báðar komast nú á laggirnar, ynnu saman norður á Akureyri? Fagna mundi ég því, herra forseti og kannske fleiri ef svo yrði.

Ég held að Háskóli Íslands og þeir menn sem þar starfa muni taka því fagnandi og ekki misskilja það á nokkurn hátt þó að þær fréttir berist héðan úr hv. Sþ. þm. vilji með jákvæðum hætti taka þetta mál til nokkurrar skoðunar. Það er mín sannfæring að einmitt framfarasporin, sem eiga að lyfta okkur eitthvað fram á við og upp á við, þurfi að ígrunda vel og vanda til þeirra ef þau eiga vel að reynast. Þess vegna geri ég enn og aftur að till. minni að menn taki sér það tóm sem þeir telja sig til þurfa að veita þessu máli farsælan framgang í þinginu.