18.12.1984
Neðri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

235. mál, Háskóli Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum síðan lét þekktur þýskur vísindamaður í ljós þá skoðun að ef fram færi sem horfði væri það mjög trúlegt að árið 2000 væru þegnar Vestur-Evrópu einkum hafðir með í ráðum við hirðir framtíðarstórvelda, svo sem Bandaríkjanna, Japan, margra Austur-Asíuþjóða, til þess að segja ráðamönnum til um hvað væri hæfilegt hitastig á rauðvíni við veislur. Ríki Vestur-Evrópu eru augljóslega að dragast svo aftur úr, ekki fyrst og fremst í fræðilegum vísindarannsóknum heldur í hagnýtingu á niðurstöðum vísindalegra rannsókna í iðnaðarstarfsemi, og reyndar ekki aðeins í iðnaðarstarfsemi heldur í allri praktískri hagnýtingu í atvinnu- og viðskiptastarfi, að menn hafa af því stórar áhyggjur að fyrirsjáanlegt sé að lífskjör Vestur-Evrópubúa muni engan veginn halda í við kjaraþróun annarra og gróskumeiri ríkja í heiminum.

Þetta á við um Vestur-Evrópu í heild. Að hluta til er þetta vegna þess að þrátt fyrir drauminn um sameinaða Evrópu hefur hann mestan part orðið að martröð í smjörfjalli og vitleysisgangi Efnahagsbandalagsins. Þrátt fyrir allt eru gífurlegar hindranir á öllum eðlilegum viðskiptum í þessum heimshluta. Þar gætir enn hvers kyns úreltra sveitamennskusjónarmiða. Þar gætir allt of mikillar ríkisforsjár, allt of mikilla verndunarsjónarmiða. Niðurstaðan í heild er sú að vaxtarbroddar atvinnulífs og ekki hvað síst hagnýting vísinda í atvinnustarfsemi, eins og ég ræddi um áðan, fær ekki notið sín. Þetta á ekki bara við um hinn sjúka mann í Evrópu, Bretland, sem er að verða einhvers konar Tyrkland í Vestur-Evrópu, heldur er það jafnvel farið að verða að raunsærri framtíðarsýn um Vestur-Evrópu í heild. Pólitískar afleiðingar þessarar þróunar eru fyrirsjáanlegar í leiðinni.

Norðurlandaþjóðir, sem Íslendingar mæna oft til, eru aftarlega á merinni í þessum málum líka. Þó er það svo að við erum aftast af öllum hinum aftarlegu. Ef við hefðum tekið við okkur fyrir svo sem eins og tíu árum og mótað okkur einhverja stefnu í þessum málum og reynt að hanga í, halda í við önnur smáríki Norðurlanda, þá ætti að vera starfandi hér eitthvað á þriðja þúsund manns í hátækniiðnaði. Þeir eru ef með eru taldir allir starfsmenn, þ. á m. skrifstofu-, þjónustu- og ræstingafólk 140. Enn sem komið er er þessi umræða á almennu pólitísku snakkstigi og það hafa ekki verið teknar einföldustu og brýnustu ákvarðanir um með hvaða hætti við ættum að sérhæfa okkur.

Nú þarf að vísu ekki að halda uppi löngum umræðum um það hvar við eigum að sérhæfa okkur — þá er ég að tala um t.d. rafeinda- og annan hátækniiðnað — því svarið liggur fyrir þegar. Við eigum að gera það í fiskveiðum, fiskvinnslu og matvælaframleiðslu. Og í (Gripið fram í: Og jarðvarma.) Já, því má bæta við, í jarðvarma. En ég er nú að tala um þennan stærsta atvinnuveg þjóðarinnar og þá er ég ekki bara að tala um vöruútflutning heldur útflutning á þekkingu og reynslu í formi útflutnings á heilum framleiðsluferlum. M.ö.o., hér höfum við heimamarkað sem reyndar er eini heimamarkaðurinn sem gæti risið undir slíkri þróun og gæti orðið vísir að því að innan nokkurra ára yrðum við fullgildir aðilar í útflutningi.

Nýlega lýsti ungur íslenskur vísindamaður þessu á þá leið að hann tók dæmi af Indónesíu. Þar í landi er þróunarþjóð, fjölmenn mjög, sem ekki getur brauðfætt sig. Úti fyrir ströndum landsins eru auðug fiskimið. Geta þeirra næstu 20 árin til að brauðfæða þjóðina er að verulegu leyti háð framtíð fiskveiða og fiskvinnslu.

Hvað kemur þetta okkur við? er spurt. Það kemur okkur við með þeim hætti að við erum nú einhver mesta fiskveiða- og fiskvinnsluþjóð í heimi. Ef við værum í stakk búnir innan fárra ára til að selja Indónesum, sem nú hafa gert sér 20 ára þróunaráætlun á þessu sviði, ekki aðeins skip, ekki aðeins hafnarmannvirki, heldur öll tölvustýrð vinnslukerfi fiskiðnaðar og fiskvinnslu, selt þeim allan pakkann, eins og komist er að orði, þá er hér um að ræða markað fyrir hina sérhæfðu fiskveiði-og fiskvinnsluþjóð sem gæti opnað nýjar víddir að því er varðar þróun íslensks sjávarútvegs. En til þess að þetta geti gerst hefði þurft að vera búið að taka ákvarðanir fyrir 5–7 árum um að að þessum markmiðum skyldi stefnt. Þær ákvarðanir eru enn óteknar. Sú þróun, sem hér á sér stað, er mestan part mjög handahófskennd, henni er ekki stýrt.

Nú kunna einhverjir að segja sem svo að þetta komi þessu máli ekkert við. Það er mesti misskilningur. Þetta er kjarni þess máls sem hér er til umr. Það sem er umræðuvert í þessu máli er 5. gr., þ.e. um tengsl Háskólans og atvinnulífsins, og er ákaflega ánægjulegt að það skuli þó loksins vera fram komin hugsun í þessum anda. Ég held að það sé rétt að það muni engin þróun eiga sér stað á þessu sviði, sem skiptir sköpum um framtíð þessarar þjóðar nema með þeim hætti að vísindaleg akademísk menntun verði með skipulögðum aðgerðum hagnýtt skv. fyrir fram ákveðnum markmiðum sem við setjum okkur um þróun vaxtarferils í íslensku atvinnulífi á næstu árum. Þetta er spor í þá átt. Af þeirri ástæðu er þetta mál gott og þarft. Auðvitað þarfnast það skoðunar í smáatriðum. Það hefur verið bent á ýmis atriði eins og t.d. spurninguna um skattfrelsi fyrirtækja sem þarna yrðu í samvinnutengslum við Háskólann. Það er eitt atriðið sem ber að skoða betur. En hitt kemur raunar líka til álita að fyrirtæki af þessu tagi mættu mjög gjarnan njóta tiltekinna skattfríðinda um nokkurt árabil meðan þau væru að festa sig í sessi af því að þetta eru fyrirtæki sem hljóta að stefna að útflutningsmarkaði. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég er með þessum orðum almennt aðeins að benda á að hér er sennilega um mjög þarft og nauðsynlegt mál að ræða. Þegar hagfræðingar líta til hagvaxtarþróunar næstu tvo áratugi eru þeir almennt séð mjög bjartsýnir. Það er mjög sennilegt að fimmta uppsveiflan á 200 ára hagvaxtarskeiði okkar heimshluta sé fram undan og forsendur fyrir gífurlegu framfaraskeiði ásamt mjög blómberanlegum lífskjörum biði þeirra þjóða sem stýra þessari þróun af einhverju viti og einhverri fyrirhyggju núna á næstunni.

Hinna sem eru að tapa af tækifærinu, sem eru að berast á banaspjót vegna úreltra deilumála fortíðar, þeirra bíður það eitt að dragast aftur úr og verða einhvers konar fornminjar eða biðskýli við veginn. Við skulum vona að pólitískri forustu Íslendinga auðnist að rífa sig upp úr fortíðarfarinu og horfa eitthvað fram á veginn.