18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram strax að ekki hefur nokkur ákvörðun verið tekin í ríkisstj. um gengislækkun. Með þessari yfirlýsingu er í fyrsta lagi verið að taka undir þá meginhugsun sem kemur fram í yfirlýsingu Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks.

Í yfirlýsingu, sem ég lét Ríkisútvarpinu í té eftir fund í ríkisstj. í morgun, segir í upphafi: „Um leið og ég tek undir þá almennu stefnu í kjaramálum, sem fram kemur í yfirlýsingu Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks, tel ég nauðsynlegt að leiðrétta“ o.s.frv.

Einnig segir í lokin: „Ríkisstj. er enn þeirrar skoðunar að leggja hefði átt áherslu á meiri skattalækkun, en minni peningalaunahækkanir, enda er ljóst að það er eina leiðin til að koma í veg fyrir verðbólgu á nýjan leik með víxlhækkun verðlags og launa.“

Í yfirlýsingu Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks segir, með leyfi forseta: „Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks hafa undanfarnar vikur unnið að gerð kjarasamnings sem tryggt hefði áframhaldandi hjöðnun verðbólgu.“

Þar segir einnig: „Stefnt var að samningsgerð er tryggði ákveðinn kaupmátt sem ekki fælist allur í beinum launahækkunum“ o.s.frv.

Undir þetta vil ég taka. Ég verð að segja að mér finnst að sá skilningur, sem komið hefur fram í viðræðum sem ég hef átt við fulltrúa Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks, og sá skilningur, sem hefur komið fram t.d á fundi þeirrar nefndar sem skipuð var til að kanna þessi mál, sé þessum mönnum til sóma. Þeir hafa sýnt réttan skilning á þeirri áralöngu reynslu, sem við höfum, að launahækkanir meiri en þær sem undirstöðuatvinnuvegir okkar bera leiða á einn eða annan máta til víxlhækkunar verðlags og launa.

Ég vildi hins vegar með þessari yfirlýsingu, eins og hún var lesin af hv. fyrirspyrjanda, leiðrétta það sem kemur fram í næstsíðustu málsgr. í yfirlýsingu Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks. Þar segir: „Með aðild sinni að gerð samnings við Reykjavíkurborg hefur ríkisstj. afturkallað fyrri yfirlýsingar“ o.s.frv. Ríkið á enga aðild að samningi Reykjavíkurborgar og ríkið hefur engan samning gert enn þá. Samningar hafa hins vegar tekist víða hjá sveitarfélögum. Samningur Reykjavíkurborgar, eins og hann varð í lokin, þýðir launahækkun á tímabilinu upp á samtals 16.01%, en samningur sá sem Kópavogskaupstaður gerði þýðir 18.9% þegar upp er staðið í lok samningstímans. Ég vildi gjarnan spyrja hv. fyrirspyrjanda að því hvort hann telji líklegt að t.d fiskvinnsla, en hann lýsti stöðu hennar ítarlega fyrir helgina, gæti borið slíka launahækkun á þessu samningstímabili án þess að stöðvast eða eitthvað annað láti undan, eins og t.d gengi, fyrr eða síðar. Ég vil einnig leyfa mér að spyrja hvort hv. fyrirspyrjandi telji að láglaunafólk í fiskvinnslunni sætti sig við minni peningalaunahækkanir en þarna hefur verið samið um.

Ég endurtek það, sem ég hef margsinnis sagt, að vitanlega er eina færa leiðin í þessari stöðu að ríki og sveitarfélög taki á sig verulegar og jafnvel miklar skattalækkanir til að bæta kaupmáttinn, en atvinnuvegunum verði forðað frá peningalaunahækkunum.