19.12.1984
Efri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Eins og þm. er kunnugt hafa þessi mál verið til umfjöllunar í þessari virðulegu deild bæði í vor og nú við 1. umr. Við 1. umr. um frv. var það skýrt ítarlega af samgrh. Ekki náðist endanlegt samkomulag um málið á s.l. vori á milli hagsmunaaðila. Þess vegna var ákveðið að fram færi nánari umfjöllun og má segja að þetta frv. byggist á þeirri niðurstöðu og samkomulagi á milli aðila þar um.

Samgn. fjallaði um málið á tveimur fundum sínum og kvaddi á sinn fund Guðjón Ármann Eyjólfsson skólastjóra Stýrimannaskólans, Guðjón A. Kristjánsson forseta Farmanna- og fiskimannasambandsins, Guðlaug Gíslason frá Stýrimannafélagi Íslands og Árna Pálsson formann nemendafélags Stýrimannaskólans.

Nefndin hefur breytt nokkuð orðalagi á frv. en að öðru leyti er það óbreytt nema að því er varðar þau réttindi varðandi siglingatíma, sem bundin voru við þátttöku í námskeiðum Slysavarnafélags Íslands og vega sem þreföldun á siglingatíma, að þar er kveðið svo að með þeim hætti geti menn mest áunnið sér einn mánuð í siglingatíma.

Mér þykir vert að geta þess líka að fyrir n. var lagt bréf og ítarleg grg. frá Jónasi Þorsteinssyni skipstjóra á Akureyri. Efni bréfsins var m.a. borið undir Guðjón A. Kristjánsson forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem var einn þeirra sem fjölluðu um frv. og gengu frá því í því formi sem það er nú í. Niðurstaðan af þeirri umfjöllun var sú að nánast öll þau atriði sem Guðjón Kristjánsson fjallaði um í sinni grg. hefðu verið tekin þar til athugunar og tekið tillit til margra þeirra sjónarmiða sem þar eru. T rauninni má segja að í þeim efnum standi lítið út af. Og þar sem þetta frv. byggist á þeirri niðurstöðu sem fékkst við það nefndarstarf sem hér er að framan getið og samkomulag er um þetta mál milli þeirra sem þar eiga hagsmuna að gæta stóðu ekki efni til frekari breytinga.

Allir nm. eru sammála um afgreiðslu málsins.