19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

214. mál, söluskattur

Frsm. 3. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þarf í sjálfu sér engu að bæta við nál. það sem þegar hefur verið útbýtt hér og hv. þdm. hafa séð, enda hygg ég að þeir allir viti um mínar skoðanir. Ég hef sett þær fram í ræðu og riti í a.m.k. ein 6–7 ár, að nauðsyn bæri til þess í baráttu við verðbólgu að taka af því áhættuna að lækka vöruverð með því að gefa eftir á okursköttum og tollum á brýnustu lífsnauðsynjar heimilanna. Þeirri skoðun hef ég ekki breytt og þess vegna hlaut ég að skila því nál. sem menn hafa fyrir augum.