19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

214. mál, söluskattur

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér um þetta frv. Við höfum rætt efni þess áður í hv. deild og afstaða þingflokka komið skýrt fram. Menn hafa rætt hér löngum um efnahagsstefnu ríkisstj., um brestina í henni og ef menn vantar, hvort sem um er að ræða þing eða þjóð, frekari sannanir á því að efnahagsstefnan sé þverbrotin þá eru þær í þessu litla frv. Það er svo sannarlega verðbólguhvetjandi á meðan efst á blaði í stjórnarstefnunni er að ná niður verðbólgunni.

Mig rekur líka hálfpartinn minni til þess, eins og hv. síðasta ræðumann, að hæstv. fjmrh. hafi lofað því að leggja engar nýjar skattaálögur á almenning og lofað því í leiðinni að segja af sér ef slíkt yrði gert. Mér þætti mjög fróðlegt að heyra hvaða afstöðu ráðh. hefur tekið til sinna fyrri loforða að þessu leyti.

Eins og fram kemur í nál. 1. minni hl. er ég andvíg því að söluskattur sé hækkaður, að neysluskattar séu hækkaðir upp fyrir það sem þeir þegar eru. Ég tel það hina mestu óhæfu að auka enn á gjaldabyrði almennings og það á sama tíma og við vitum að bilið breikkar stöðugt milli þeirra sem fáar hafa krónurnar og þeirra sem fleiri hafa krónurnar. Þessi söluskattshækkun kemur ekki til með að koma við þá sem fleiri hafa krónurnar, en hún mun svo sannarlega koma við þá sem hafa þær færri. Því mun ég ekki undir neinum kringumstæðum veita frv. af þessu tagi fylgi mitt.

Staða ríkissjóðs er geigvænleg. Það vitum við öll. En í stað þessarar tekjuöflunarleiðar hef ég, eins og ég hef áður rætt um héðan úr ræðustól, talið viturlegra að leggja skatt á þá sem einhvern skatt geta borgað. Þar má m.a. nefna skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og aukinn eignarskatt. Sú leið, sem hér er lögð til til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, leiðir okkur að mínu viti eingöngu út í enn frekari torfærur í fjármálum ríkisins og kemur þar að auki niður á þeim sem síst skyldi. Því legg ég til að þetta frv. verði fellt og greiði atkvæði á móti því.