19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

214. mál, söluskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Hv. 5. landsk. þm. og 3. þm. Norðurl. v. ásamt 11. þm. Reykv. spurðu hæstv. fjmrh. ákveðinna spurninga sem hæstv. fjmrh. hefur í raun og veru ekki svarað. Þvert á móti kemur hann hér í ræðustól og heldur ræðu sem vekur enn fleiri spurningar. Hann segir: Ég er ekki sammála forsrh.ríkisstj. Hann hefur miklar áhyggjur af lántökum og hann er á móti þessari skattheimtu. Allt er þetta í anda þeirra fullyrðinga sem fyrrnefndir hv. ræðumenn beindu spurningum sínum að og ekki fengust svör við. Enn þá stendur hæstv. fjmrh. við þær fullyrðingar sem í nefndum loforðum fólust og enn þá segist hann vera fulltrúi andstæðinga þeirra aðgerða sem hér er verið að framkvæma í hans nafni. Ég tel að bæði þingheimur og þjóð eigi rétt á því að fá skýringar á þessari mjög svo undarlegu stöðu sem fjmrh. er kominn í og eigi líka rétt á því að fá svör við því hvers vegna hann ekki tekur rökréttum afleiðingum af andstöðu sinni við þessar aðgerðir.

Það er engin afsökun og beinlínis óíþróttamannslegt að segja — (Gripið fram í.) Vill hæstv. fjmrh. ekki hlusta á mál mitt til enda? — að það sé afsökun fyrir þessum gerðum að hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði þetta líka þegar hann var í ríkisstj. — Og hann gerði líka margt verra. Þar af leiðandi get ég líka gert það sama eða eitthvað sem er aðeins minna vont. Síðan segir hæstv. fjmrh.: Stjórnin er ekki stefnulaus og telur síðan upp langan lista sem hann segir vera pólitík þessarar ríkisstj.

Í samhengi við ákveðin orð sem féllu hér af munni hæstv. fjmrh. í minn garð vildi ég leyfa mér, þrátt fyrir reynsluleysi í þingstörfum og færri aldursár, að benda hæstv. fjmrh. á að í þeim atriðum sem hann taldi upp felst ekki pólitík. Þetta eru aðgerðir eða úrræði sem e.t.v. eru í samhengi við einhverja pólitík eða stjórnmál. En enn þá er eftir að skýra hvert markmið þessara aðgerða á að vera. Hæstv. fjmrh. andmælti nefnilega sjálfur stuttu seinna þegar hann sagði: Fjárlög eru dauður pappír. — Stjórnmál eða pólitík er varla hægt að skrá á dauðan pappír. Þá eru það allavega dauð fjárlög. Það eru aðgerðir en ekki pólitík að draga úr framlögum til niðurgreiðslna, að draga úr framlögum til útflutningsbóta, að draga úr framlögum til atvinnuvegasjóða, að auka framlög til byggðasjóða, að auka framlög til vegamála og að auka framlög til málefna fatlaðra. Það eru aðgerðir en ekki pólitík í sjálfu sér að endurgreiða sjávarútvegi 450 millj. af uppsöfnuðum söluskatti. Það eru aðgerðir en ekki pólitík í sjálfu sér að aflétta tekjuskatti. Kannske mætti segja að það hillti undir einhvers konar pólitíska stefnu í þeirri aðgerð sem hæstv. fjmrh. nefndi seinast þar sem hann talaði um að veita af rausn sinni og ríkisstj. 50 millj. til nýjunga í atvinnulífi auk loforðs um 500 millj. kr. lán til sömu verkefna. Ef maður á að skilja orð hæstv. fjmrh. þannig að þær aðgerðir sem hann lýsti ættu allar á endanum að vinna að því markmiði að ná þeim árangri að byggja upp hröðum skrefum nýtt og betra atvinnulíf sem stæði undir þeim lífskjörum sem við óskum okkur, þá væri ég reiðubúinn að viðurkenna að það væri pólitík. En handahófskenndar viðgerðir á fjárlögum eru ekki pólitík að mínu mati, heldur eingöngu lýsing eða viðurkenning á þeirri staðreynd að tekjur ríkisins fara rýrnandi. Þetta eru ekkert annað en viðbrögð við minni tekjum.

Virðulegi forseti. Ég verð að taka smávegis af tíma hv. þd. til að ræða ákveðið atriði sem ekki beint snertir þetta mál og þó. Hæstv. fjmrh. hefur þann vana, a.m.k. þegar hann talar til mín, að gerast þar nokkuð persónulegur. Ég veit ekki hvort aðrir þm. hafa sömu reynslu. Í umr. á þingi fyrr í vetur, þar sem verið var að fjalla um kjör kennara og ég leyfði mér að fara í ræðustól og bera kjör kennara saman við kjör þm. á þeim sama mælikvarða sem hann hafði notað í þingræðu, þá notaði hann sér ákveðin atriði úr einkaviðtali, sem við áttum saman niðri í kaffistofu, til að reyna að hafa uppi andsvör gegn mínum málflutningi. Ég tel svona framkomu ósmekklega. Núna leyfir hann sér líka að nudda mér upp úr því að ég sé ekki eins reynsluríkur í þingstörfum og hann og þar af leiðandi minna mark á mér takandi — (Gripið fram í.) Rétt er það. — og endar á því að kalla mig kóka kóla og prins póló kynslóð. Það var ekki ég sem byrjaði að flytja inn Kóka kóla eða Prins póló. Ég hef neytt þess, það er alveg rétt. En ég hugsa að þeir menn sem stóðu að þeim innflutningi hér á Íslandi hafi staðið hæstv. fjmrh. allmiklu nær í aldri en ég geri.

Jafnframt þessu talar hann í sama samhengi um að það hafi engar hugmyndir komið fram frá Bandalagi jafnaðarmanna og frá mér í þeim málefnum sem við erum hér að ræða um og eins og til að sanna að hann er að því er virðist nánast heyrnardaufur á öðru eyra spyr hann út í salinn hvort menn hafi viljað aðra skatta eins og það séu einu kröfurnar sem hér hafi komið fram. Ég vil þá minna hann á framlagðar brtt. BJ við fjárlög á síðasta ári. Ég vil minna hann á fram komnar tillögur frá BJ um niðurfellingu afskipta eða starfsemi á vegum ríkisins í þeim tilgangi að draga úr umsvifum þess og draga úr tilkostnaði við störf sem engu skila í þágu almannaheilla.

Hann vitnar í orð mín þar sem ég talaði um að brjóta þyrfti upp fjárlagadæmið, brjóta þyrfti upp tekjudæmið, útgjaldadæmið og lánadæmið og segir: Ég er margbúinn að segja þetta sjálfur. — Þá er mín spurning: Hvers vegna hefur hann ekki í þeim tvennum fjárlögum sem hann hefur staðið að unnið að þessu markmiði sem hann hefur sett sér? Hvers vegna hefur hann notað þetta aldamótatæki sem fjárlögin eru í dag? Jú, hann hafði afsökunina á reiðum höndum. Hæstv. fjmrh. hefur eiginlega alltaf afsakanir á reiðum höndum og afsakanirnar eru yfirleitt á þann veg að þetta sé öðrum að kenna. Vandamálið er ekki að hæstv. fjmrh. hafi brugðist sannfæringu sinni eða skoðun. Nei. Vandamálin eru þm. sem ganga á tveimur fótum, þm. sem flytja tillögur á tillögur ofan á þingi sem margfalda mundu fjárlög ef allar yrðu samþykktar. Og hann dregur hæfileika þm. til þingmannsstarfa og reyndar einnig til framkvæmdavaldsstarfa mjög í efa. (Fjmrh.: Farðu með það rétt, sumra.) Sumra. Taki það hver til sín.

Síðan segir hæstv. fjmrh.: Ég þekkti aldamótakynslóðina. Hún var nútímalegri en kóka kóla og prins póló kynslóðin. — Ég tek alveg undir þessi orð hæstv. fjmrh. Ég þekkti aldamótakynslóðina líka. Ég ætla að biðja hann að hafa mjög vel í huga að hvaða leyti þessi aldamótakynslóð var frábrugðin okkur. Hún sýndi kjark. Aldamótakynslóðin barðist fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar og ef þið hvarflið til baka þó það væri ekki nema 84 ár í mannkynssögunni, þá get ég bent ykkur á það, sem þið öll vitið, að um aldamótin urðu stórfelldar breytingar í íslensku þjóðlífi og efnahagslífi.

Það urðu líka um leið stjórnkerfisbreytingar. Um 1920 urðu róttækar stjórnkerfisbreytingar hér á Íslandi jafnframt því að það urðu líka mjög róttækar breytingar í efnahags- og þjóðlífi. Árið 1940 fóru enn fram stjórnkerfisbreytingar og aftur urðu mjög afdrifaríkar breytingar í efnahags- og þjóðlífi Íslendinga. Allt stefndi þetta fram á við. 1959 eða 1960 voru seinustu stjórnkerfisbreytingarnar sem hægt er að tala um framkvæmdar og stuttu seinna urðu þó nokkur þáttaskil í íslensku þjóðlífi og efnahagslífi. Þessi 20 ára taktur í uppgangi íslenskrar þjóðar er nokkuð reglulegur. Það má segja með vissum hætti að við séum gengin fjögur ár fram yfir tímann. Þó að nokkuð hafi áunnist á s.l. 24 árum, því verður ekki neitað, er samt sem áður augljóst í dag, og eftir stendur mín fullyrðing úr fyrri ræðu, að án þess að gagnger breyting fari fram á okkar stjórnkerfi megum við ekki vænta neinnar breytingar á okkar högum.