19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

192. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Að ósk minni var 3. umr. um þetta mál frestað þar til brtt. hv. fjvn. lægju endanlega fyrir. Ástæðan fyrir þeirri beiðni var sú, að ljóst var að framlög ríkisins til Framkvæmdasjóðs aldraðra voru ekki nægileg til að sú breyting sem frv. á þskj. 212 gerir ráð fyrir rýrði ekki verulega framkvæmdir í þágu aldraðra frá því sem var á yfirstandandi ári. Sérstaklega töldum við, hv. þm. Svavar Gestsson og ég, ástæðu til að hafa áhyggjur af framkvæmdum við B-álmu Borgarspítalans og jafnvel ástæðu til að óttast að hluti byggingarinnar endaði til annarra nota en í þágu aldraðra. Undir þessi sjónarmið tók hæstv. ráðh. og taldi vanta 30 millj. til að framkvæmdagildi héldist.

Nú er hins vegar ljóst að fjvn. hefur ekki orðið við bón hans og því hlýtur að vera undir ákvörðun Alþingis komið hvort þetta frv., ef að lögum verður, verði til að rýra framkvæmdagildi stofnana fyrir aldraða. Ég og hv. þm. Svavar Gestsson höfum því leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 382 sem hljóðar svo, með leyfi forseta: Aftan við 3. gr. bætist:

Til hjúkrunarheimila aldraðra skal verja á árinu 1985 30 millj. kr. á fjárlögum þessa árs og síðan á fjárlögum hvers árs skv. ákvörðun Alþingis hverju sinni, enda verði upphæðin aldrei lægri en sem svarar 30 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu 1. jan. 1985.

Nái þessi till. okkar ekki samþykki höfum við leyft okkur að bera fram aðra till. til vara, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Við 1. gr. frv. komi nýr tölul. sem verði 4. tölul. og orðist svo:

Framlög úr ríkissjóði þannig að heildarframkvæmdir sem sjóðurinn fjármagnar verði aldrei minni en á árinu 1984. Heimilt er að verja fjármunum skv. þessum tölul. til styrktar hjúkrunarrýmis aldraðra á vegum sveitarfélaga til viðbótar við framlag skv. síðasta málsl. 12. gr.

Ég vænti þess, herra forseti, að hv. þm. hugsi sig vandlega um þegar að atkvgr. um þessa till. kemur, því það er alveg ljóst að ella er þessi breyting, sem gerð er á frv. til l. um breytingu á lögum nr. 91/1982, um málefni aldraðra, hreinlega til að draga úr framkvæmdum við byggingar fyrir aldraða.