19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess að hér fór af stað umr. um þetta mál nú við 2. umr. þá vil ég aðeins geta eftirfarandi: Ég hafna því fullkomlega að hv. þm. og þar á meðal undirrituð sem sæti á í heilbr.og trn. hv. hafi ekki vitað um hvað þetta mál snýst og sé því enn ekki vel kunnug vegna fyrri starfa, og einnig því að n. hafi ekki fjallað um þetta mál. Ég get verið sammála hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni um flest það sem hann sagði almennt um lífeyrismál landsmanna. Um það hef ég áður rætt héðan úr ræðustól og ætla ekki að endurtaka þá umr. Hæstv. ráðh. hefur raunar sagt það sem ég ætlaði að segja hér í upphafi og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það eins og hv. þm. hafa tilhneigingu til að gera hér í sífellu, að endurtaka það sem aðrir ræðumenn hafa sagt.

Staðreynd málsins er einfaldlega þessi: Ástæðan fyrir því að ég undirritaði, samt án nokkurs hiks, nál. svo að þetta mál næði fram að ganga, er sú einfalda staðreynd að tíu þúsund manns fá ekki þessi eftirlaun eftir áramótin ef þessi lög falla úr gildi. Það eru þeir einstaklingar sem máli skipta, en ekki fjármunir lífeyrissjóðanna sem slíkra, þannig að mótmæli lífeyrissjóðanna eru aukaatriði. Það eru hagsmunir þeirra tíu þúsund einstaklinga sem þessa hafa notið sem skipta hér máli og það er þeirra hagsmuna sem hæstv. ráðh. ber að gæta.

Ég get verið miklu meira en sammála um það að þessi lög eru bæði flókin og illa gerð á allan hátt og mér er vel kunnugt um þá ómældu erfiðleika sem starfsfólk umsjónarnefndar eftirlauna, þ.e. þeirrar skrifstofu sem annast þessar greiðslur til aldraðra félaga í verkalýðsfélögunum, hefur átt við að stríða. Hins vegar er vissulega til fólk sem hefur brotist í gegnum þessar flóknu lagagreinar og hef ég enga ástæðu til að halda að það sé ekki vel af hendi leyst. Hitt er annað mál að ég er viss um að það er rétt hjá hv. þm. lóni Baldvini Hannibalssyni að það ber nokkuð á því að fólki sé ekki kunnugt um þessi réttindi. Það er alvörumál og hefur margsinnis verið reynt að bæta úr því, bæði meðan afgreiðslan var í höndum Tryggingastofnunar ríkisins og síðar eftir að þessi starfsemi var flutt annað.

Ég held það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að mikla bjartsýni þarf til að halda að hægt verði að leysa þessi mál af einhverju skynsamlegu viti á minna en fimm árum. Ég vil minna á þá frægu 17 manna nefnd með alla helstu menn þjóðarinnar innanborðs og að sjálfsögðu með sjálfan seðlabankastjórann í forsæti, hún hefur setið að störfum, síðan 1976 minnir mig, og síðan 8 manna nefndin ámóta tíma. Ég gef satt að segja ekki óskaplega mikið fyrir hvað 8 manna nefndin hefur um þetta að segja. Auðvitað segir hún ekkert annað en að vitaskuld skuli þessu bjargað fyrir horn vegna þess að þeim verður ekkert úr verki. Það var svo sem vitað mál svo að það eru engin rök í málinu. Það sem eru hin einu rök í málinu er að þessu verður að bjarga núna. Það verður að sjá um að þessar tíu þúsund manneskjur fái sín eftirlaun eins og verið hefur. En auðvitað þarf svo að reyna að hvetja til þess að fundin verði lausn á lífeyrissjóðamálum landsmanna og vitaskuld með það að markmiði að upp rísi lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. En hitt er svo annað mál, að ég er ekki viss um að um það sé einhugur innan verkalýðshreyfingarinnar, og það kynni að vera vandi ráðamanna þjóðarinnar.