19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því að ungur, ferskur frískleikaforingi komi hér í ræðustól og gagnrýni ýmislegt í kerfinu. Það er full ástæða til þess og þess er að vænta af ungum og frískum mönnum. Ég er hins vegar miklu frekar hissa á því hversu lítt harðskeyttur hann var í gagnrýninni. Að mínu viti hefði gagnrýnin mátt vera miklu harðskeyttari ef menn á annað borð eru sannfærðir um að ástæða sé til harðrar gagnrýni á þetta mál og meðferð þess.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, eðlilega sem flokksbróðir, að ég er ekkert allt of trúaður á þessi sérfræðilegu álit og sérfræðilegu störf. (Gripið fram í: Það eru nú fleiri.) Já og þar mun vera í þeim hópi einnig og ekki síður hæstv. núv. iðnrh. sem hefur þó fallið í þann farveg í ráðherrastól að leita æði mikið á þau mið að sækja ráð til sérfræðinga. En kannske er það víxlspor sem hann stígur frá áður en langt um líður og treystir fremur eins og áður á brjóstvitið og búhyggindin. (Iðnrh.: Vestfirskt hyggjuvit.) Já, það er rétt. En hið vestfirska hyggjuvit hæstv. iðnrh. hefur eitthvað blandast hinu eystra síðari árin. Það er greinilegt að það er ekki eins og það var vestra. Það er orðið lævi blandið að austan.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þm. Jóni Baldvini að það er að verða vandræðamál í kerfinu hversu lengi það tekur að koma þessum málum á hreint. Ég er ekki að ásaka á nokkurn hátt. hæstv. ráðh. fyrir það. Ef það á að ásaka hann, þá er það fyrir það hversu seint þetta er komið fram. En auðvitað á að afgreiða þetta mál. Þetta mál á að fara hér hraðbyri í gegnum þingið. Þetta er þess eðlis að það er ekkert undan því vikist að greiða fyrir því, þannig að það nái fram að ganga. Hér er um að ræða hagsmuni svo margra einstaklinga í þjóðfélaginu sem eru þannig á vegi staddir að engum ætti að detta í hug annað en að þetta mál yrði afgreitt á stundinni.

Hv. þm. kom inn á lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það gerði reyndar hv. þm. Guðrún Helgadóttir líka og viðhafði orð í þá átt að innan verkalýðshreyfingarinnar væru trúlega skiptar skoðanir þar um. Ef ég man rétt þá veit ég ekki betur en að bæði nýafstaðið Alþýðusambandsþing og Alþýðusambandsþing þar áður, fyrir fjórum árum, hafi samþykkt, gert — ályktað um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Ég veit hins vegar að það kunna að vera skiptar skoðanir meðal einstakra manna innan verkalýðshreyfingarinnar um þetta, en meiri hluti hefur ályktað á þingi um þetta mál. Ég get sagt það hér að ég er einn þeirra, þrátt fyrir eindregna stefnu míns flokks um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, þá dreg ég það mjög í efa. A.m.k. yrði slíkt fyrirkomulag að mínu viti að verða með deildaskiptingu en ekki alræðisvaldi og miðstýringu héðan að sunnan.

Ég bendi á í því sambandi að t.d. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn. er, að ég best veit, er lögum samkvæmt skyldugur að ávaxta fjármuni á þeim stað sem þeir eru inn greiddir. Þau lagaákvæði hafa í vel flestum ef ekki öllum tilfellum ekki verið virt. Það fé er ávaxtað hér á einum stað. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) — Ekki rétt, segir hv. þm. Pétur Sigurðsson. Þá vænti ég að hann greini frá því rétta hér á eftir. Ég a.m.k. fullyrði að það er í vel flestum tilfellum sem það er gert hér, þrátt fyrir ótvíræð lagafyrirmæli um að það eigi að ávaxta þetta á þeim stað sem það greiðist inn á. Ég hef allan fyrirvara á ágæti þeirrar lausnar sem menn kalla einu orði Lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Þetta er fallegt í munni, en ég sé ýmsa vankanta þar á sem kannske er hægt að leysa.

Ég sé ekki, herra forseti, að það sé ástæða til að fara öllu fleiri orðum hér um. Ég ítreka að ég er mjög svo dús við óánægju míns formanns að því er varðar kerfiskalla og annað slíkt sérfræðital og tek undir að þessu máli þarf að flýta. Og það er ekkert sem segir, þó að lögin séu framlengd um fimm ár, að ekki sé hægt að ljúka endurskoðuninni á styttri tíma. Og sé pólitískur vilji, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson telur að þurfi að vera fyrir hendi, þá er hægt að ljúka henni á tveimur árum þrátt fyrir að lögin hér yrðu afgreidd eða framlengd til fimm ára. Það er engin fyrirstaða, að því er ég tel.