19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég varð satt að segja nokkuð undrandi á að heyra í hv. 5. þm. Reykv., Jóni Hannibalssyni, þegar hann fór að lesa upp úr samþykktum Landssambands lífeyrissjóða og vitna þar í rangláta skattlagningu á lífeyrissjóði, „hver lífeyrissjóður yrði að standa undir sér“. Ég gerði mér satt að segja ekki alveg ljóst, enda var það ákaflega óljóst þegar leið á ræðu þm., hvort hann var að gera þetta sjónarmið, þessi málaferli, t.d. verkfræðinga, að sínum málstað. Ef ekki þá var hann eitthvað loðinn í því.

En það sem ég vildi aðeins taka fram er það að þeir sem síðast náðu lífeyrissjóðum í kjarasamningum voru hin almennu verkalýðsfélög verkamanna, verkakvenna og síðan bændur. Hluti sjómanna, togarasjómenn, hafði náð lífeyrissjóðum fyrr, bátasjómenn aftur á móti síðar. Ef athuguð er félagaskrá hinna almennu verkalýðsfélaga, hvort sem farið er í Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkakvennafélagið Framsókn, verkalýðsfélögin á Ísafirði og víðar, er það einkennandi að þar er mjög há hlutfallstala af öldruðum félagsmönnum og mun hærri en í hinum sérhæfðu verkalýðsfélögum sem eru með ýmsar iðngreinar og ýmsar starfsgreinar sem eru mun yngri í þjóðfélaginu.

Það sem lá fyrir frá upphafi var að þessum ungu lífeyrissjóðum með mjög takmarkað fjármagn mundi verða um megn að greiða sínum félagsmönnum viðunandi lífeyrissjóðsgreiðslur. Í þeim voru mjög margir gamlir verkamenn og verkakonur, sem hætt höfðu t.d. störfum 1975 eða fyrr og áttu mjög takmarkaðan lífeyrissjóðsrétt. Þá var gripið til þess ráðs að greiða í sameiginlegan sjóð, fyrst til að bæta þessu fólki upp þennan réttindaskort að hluta og jafnframt til að þessar lífeyrisgreiðslur legðust ekki með það miklum þunga á þessa sjóði að það yrði þeim um megn. Við skulum taka t.d. Sjómannafélag Reykjavíkur. Þar er ákaflega mikið af aldurhnignum félagsmönnum. Áttu þessir menn að verða úti, átti ekki nema hluti þeirra að njóta greiðslu úr lífeyrissjóði af því að margir þeirra áttu mjög takmarkaðan rétt vegna þess að lögin komu ekki til framkvæmda fyrr en 1970? Ég vil ekki trúa því að það sé afstaða formanns Alþfl. og hann gangi þar þvert á öll sjónarmið bestu forustumanna Alþfl. innan verkalýðshreyfingarinnar sem hafa lagt ofurkapp á að tryggja einhvers konar samhjálp hinna öflugu lífeyrissjóða, sem þurfa að greiða færra fólki ellilífeyri, lífeyrissjóða sem stofnaðir voru mun fyrr og hafa hlutfallslega færri félagsmenn á þessu aldursskeiði, að það væri á einhvern hátt tryggð samhjálp á milli þessara sjóða og þetta almenna verkafólk, hvort sem það hefði starfað til sjós eða lands, nyti þeirrar samhjálpar. Af svo miklu offorsi hefur verið farið að stéttarfélag verkfræðinga höfðar mál á hendur ríkinu fyrir það að þeir hafi verið rændir fé vegna þess að þeir hafi ekki samþykkt að greiða í þennan sameiginlega sjóð. Ýmsir aðrir háskólamenntaðir menn hafa tekið þessa afstöðu og hana grimma og segja: „Hver lífeyrissjóður sér um sig“, algjörlega án tillits til forsögu. — Er þetta sjónarmið Alþfl.?

Án þess að vera í Alþfl. mótmæli ég því að þetta sé sjónarmið Alþfl. Ég hef aldrei heyrt þetta sjónarmið frá ábyrgum mönnum í verkalýðshreyfingu í sambandi við — (Gripið fram í: Þetta er nýr flokkur.) Ef þetta er nýr flokkur þá hefur ógæfan riðið yfir hann ef hann hefur horfið frá þessu stefnumáli. (JBH: Hvers vegna er formaður Dagsbrúnar að gera formanni Alþfl. upp skoðanir? Það er nær að fjalla um staðreyndir.)-Það væri þá ágætt að formaður Alþfl. kæmi hér upp á eftir og lýsti afdráttarlaust andstöðu við það plagg sem hann var að lesa upp. Það hefur hann ekki gert. Það væri til bóta að hann gerði það.

Hér kom fram hjá hv. 10. landsk. þm. að menn vissu ekki um þennan rétt sinn. Þannig var í upphafi. Hins vegar held ég að allir lífeyrissjóðir leggi sig orðið fram um að upplýsa félagsmenn um þennan rétt. Tíu þúsund félagsmenn njóta nú þessara réttinda. Það bendir til að þetta hafi verið í nokkrum ólestri í upphafi, en nú sé orðin breyting á.

Ég viðurkenni að því miður hefur gengið grátlega seint að koma þarna á föstu kerfi. Þarna eru ákaflega sundurleit sjónarmið, sem koma m.a. hér fram, og hjá ýmsum öðrum er mikill ágreiningur. Þó hefur verið reynt að fara meðalveg, en æskilegast væri að sú nefnd sem um málið fjallar færi að ljúka störfum. Það hefur stundum verið haft að gamanmálum að þegar þessi nefnd væri búin að ljúka störfum og ná endanlegu samkomulagi mundi formaður hennar verða kominn á eftirlaun. Formaður nefndarinnar er Hallgrímur Snorrason tilvonandi hagstofustjóri, frábærlega hæfur maður í sínu starfi. Og það er m.a. hans góða starf sem hefur haldið nefndinni saman og gert hana starfhæfa. Ég er ekki viss um að það sé endilega ákjósanlegt að leysa þessi mál með löggjöf. Það ber a.m.k. að reyna það enn um sinn, að ná samkomulagi um fast form í þessu. En ég legg áherslu á að þetta frv., sem kemur frá n. og allir nm. að einum undanskildum sem var fjarverandi hafa skilað sameiginlegu áliti um, fari hér hraðbyri í gegn.