19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir líklega aldarfjórðungi var lögð fram á Alþingi skýrsla um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn sem var unnin af Haraldi Guðmundssyni. Þessi skýrsla var í rauninni mjög fróðlegt og merkilegt plagg vegna þess að þarna var ítarlega farið út í lífeyrismálin og bent á ýmsar leiðir í þá átt að koma á einu lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn, jafnvel þó að sjóðirnir væru margir. Ég held að það sem hv. 5. þm. Reykv. nefndi hér áðan um eitt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn sé nákvæmlega það sem er samstaða um eins og nú standa sakir, einnig innan verkalýðssamtakanna. Ég held að menn séu ekki tilbúnir að leggja niður lífeyrissjóðina vegna þess að menn óttast m.a. inngrip ríkisvaldsins enn frekar ef lífeyrissjóðurinn væri einn og með þeim rökum sem m.a. hv. 3. þm. Vestf. hefur gert grein fyrir.

Þetta eru rök sem eru pólitískur veruleiki hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Og ég held að við værum að berja höfðinu við steininn ef við neituðum að horfast í augu við þennan veruleika og reyndum að nálgast málið út frá því að hér eru til margir lífeyrissjóðir í landinu og það er verið að undirbúa það og hefur verið í gangi á undanförnum árum að tekið verði hér upp samræmt bóta- og lífeyrisréttindakerfi. Ég tel að samband almennra lífeyrissjóða hafi unnið mjög gott starf í þessa veru á undanförnum árum frá því að sambandið var stofnað. Það er um að ræða samræmdan bótarétt innan þeirra mörgu lífeyrissjóða sem eru þar innan veggja, þannig að fólk hefur svipaða stöðu að því er varðar bótarétt, innan hvaða sjóðs sem það kann annars að vera innan Sambands almennra lífeyrissjóða.

Verkalýðshreyfingin hafði eins og kunnugt er þessi málefni á sinni dagskrá og hefur enn og 1970 voru gerðir kjarasamningar í að mörgu leyti mjög erfiðri stöðu fyrir verkalýðshreyfinguna. Niðurstaða þeirra samninga var sú að tekið var upp það kerfi, sem við erum hér að fjalla um, með umsjónarnefnd eftirlauna. Þetta kerfi var hugsað þannig að með því ætti að brúa bil yfir í samræmt lífeyrisréttindakerfi vegna þeirra sem ekki höfðu átt kost á því áður að borga í neinn lífeyrissjóð. Þess vegna var þetta kerfi talið bráðabirgðakerfi þar til nýskipan lífeyrismálanna hefði verið ákveðin. Sú endurskoðun hefur nú verið lengi í gangi, eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um áðan, og hafa verið sagðir margir sprettilbrandarar af þeim hægagangi sem þar er innan veggja og þar er ekkert ofsagt því að þar er heldur hægt unnið.

En allt um það held ég að eftirlaunakerfið sem hér er verið að ræða núna hafi þjónað sínum tilgangi og það verði að vera við lýði áfram því að ef þetta verður ekki samþykkt hér núna munu þúsundir og aftur þúsundir manna missa réttindi sín.

Af því að hér var verið að tala um einn ákveðinn stjórnmálaflokk alveg sérstaklega, Alþfl., er kannske rétt að rifja það upp að síðustu afskipti Alþfl. af lögum um eftirlaun aldraðra var frv. um þau mál sem hæstv. þáv. tryggingamálaráðherra, Magnús H. Magnússon, lagði fyrir Alþingi haustið 1979. Skv. því frv. var bætt nýjum kafla í lögin um eftirlaun aldraðra og mikill fjöldi fólks, sem áður hafði engin réttindi haft, kom þá inn undir þetta umsjónarnefndarkerfi. Ég held að þetta hafi verið mjög skynsamleg ákvörðun og tillögugerð sem Magnús H. Magnússon beitti sér þá fyrir og hlaut einróma stuðning á Alþingi á sínum tíma. Mér var því ekki kunnugt um það fyrr en núna alveg á síðustu mánuðum að menn væru að setja spurningarmerki við umsjónarnefndarkerfið, eins og hér hefur komið fram, og þó má segja að hafi verið fastast að orði kveðið í ályktunum og samþykktum frá Verkfræðingafélagi Íslands og lífeyrissjóði þess. Það eru ályktanir sem ég hef enga samúð með. Þar er sterkur lífeyrissjóður að neita að taka þátt í þeirri samhjálp sem felst í þessu umsjónarnefndarkerfi. Ég get ekki tekið undir slík sjónarmið.