19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér fyrr í dag þá er það alveg rétt að ég sagði í Ed. að ég vildi beita mér fyrir því að raungildi héldist í þessum málaflokki. Í framhaldi af því óskaði ég eftir því við formann stjórnarinnar að farið yrði fram á 30 millj. í fjvn. vegna þessarar breytingar. Það er sama upphæð og úthlutað var til þessarar starfsemi á vegum Framkvæmdasjóðs aldraðra á þessu ári. Hins vegar komst það ekki í gegn. Fjvn. úthlutaði 14 millj. kr.

En við verðum líka að taka með í reikninginn að það er fleira sem hér er breytt skv. þessu frv. og líka að líta aðeins á þróun þessara mála. Þegar lögunum um heilbrigðisþjónustu var breytt og þessar dýru framkvæmdir voru settar á Framkvæmdasjóð aldraðra af heilbrigðisþjónustunni þá varaði ég mjög við þeirri breytingu. Þá var hv. 3. þm. Reykv. heilbr.- og trmrh. Ég taldi að það yrði aldrei eins séð fyrir þessum framkvæmdum í svona takmörkuðum sjóði, að taka jafnviðamikil verkefni inn og gert var, heldur ættu þau að vera á sama bás og almenn framlög til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og þess háttar. En því miður var þessi breyting gerð. Það sem nú er verið að leggja til er að ákveðnar stórar framkvæmdir taki ekki of mikið af ekki stærri sjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra er og því er markið sett hér um 30% svo að hægt sé að sinna betur öðrum þeim verkefnum sem sjóðurinn á að sinna.

Ég vil í þessu sambandi benda á að á árinu 1982 var framlag ríkissjóðs 11 millj., en heildarálagning sérstaks gjalds var 18.3 millj. á móti 11, en ári síðar, við afgreiðslu fjárlaga 1983, hækkar framlag ríkisins um heilar 600 þús. á milli ára, úr 11 millj. í 11.6. Mér dettur ekki í hug að trúa því að þáverandi heilbr.- og trmrh. hafi ekki farið fram á meira. Svo það hefur líka verið einhver bremsa á þeim árum og við miklu betri aðstæður en núna eru. Þá var um 5% hækkun að ræða á milli ára — í þeirri miklu verðbólgu sem þá var. En markaði tekjustofninn er þá hækkaður um 63% eða úr 18.3 í 30.8 millj. milli ára. Þar breytist þetta hlutfall geigvænlega og hefur verið að breytast síðan. 1984 fer framlag ríkissjóðs við afgreiðslu fjárlaga þessa árs í 15 millj. en markaði tekjustofninn hækkar í 47.7 millj. eða úr 30.8 í 47.7. Og nú bið ég menn að hafa í huga að skv. þessu frv. er lagt til að hinn markaði tekjustofn sjóðsins verði hækkaður og lagðar á 580 kr. á næsta ári og sú hækkun á milli ára er í samræmi við skattvísitölu.

Fjármögnun hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga færist skv. frv. að nýju til fjvn. En eins og ég sagði áðan verði heimilt að verja allt að 30% tekna sjóðsins til styrktar hjúkrunarrými af þessu tagi, en sá styrkur komi báðum aðilum, þ.e. ríki og sveitarfélaginu, til góða hlutfallslega. Þessar 58 millj., sem er áætlað að þetta 580 kr. gjald eða skattur gefi Framkvæmdasjóði á næsta ári eru því þær tekjur sem sjóðurinn hefur nú miðað við 61 millj. á s.l. ári, en þá getum við bætt við þeim 14 millj. sem fjvn. hefur úthlutað. Hér er því um 72 millj. að ræða, ef við lítum á þetta sem óbreytt verkefni og að þetta frv. hafi ekki komið fram, á móti 61 millj. á s.l. ári. Ég vil því ekki segja að hér sé um lækkun að ræða heldur hitt að það þarf í þessu að vera meiri hækkun að mínum dómi.

Fjmrh. hefur lofað því að taka þetta mál upp eftir áramót þegar við erum búnir að reikna út raungildi. En þegar menn tala um að alltaf sé verið að draga úr þessum framkvæmdum þá er hér um ákaflega mikinn misskilning að ræða. Við skulum líta á fskj. 2 með þessu frv. Það sýnir að 796 vistrými voru fyrir aldraða árið 1974 og 631 hjúkrunarrými en nú á þessu ári er vistrýmið komið úr 796 í 1319 og hjúkrunarrýmið úr 631 í 927. Það hefur verið mjög ánægjuleg þróun sem hefur átt sér stað á öllu þessu tímabili. Og til þess að gefa enn gleggri upplýsingar þá koma til með að bætast við á sjúkrastofnunum á næsta ári hvorki meira né minna en 74 rúm og það er að mestu leyti á sjúkrastofnunum fyrir aldraða.

Ef fsp. kemur fram um hvar það er þá er best að ég gefi þær upplýsingar nú þegar. Það er Garðvangur í Garði með 20 rúm, Hlíð á Akureyri með 20, Dalvík 14, Sauðárkrókur með 20, sem eru samtals 74 rúm. Eðlilega bætist mikill kostnaður á sjúkratryggingar við rekstur þeirra svo að hér er ekki um samdrátt að ræða, síður en svo. Þar fannst mér gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 6. þm. Reykv. Hins vegar tók hann það réttilega fram að ásókn væri mikil, það er hárrétt, en verið er að bæta úr því með ýmsum hætti.

Ég held að við gerum eiginlega ekki miklu meira í þessu annað en að þetta frv. fari í gegn. Ég vil, þegar þetta raungildi liggur fyrir, ræða við fjmrh. Hér er ekki um háa upphæð að ræða, en ég vil ekki fullyrða það.

En eitt vil ég fullyrða, að það sem kemur til vistrýmisaukningar hlýtur að koma til Borgarspítalans í Reykjavík eftir þessa afgreiðslu fjvn. Ég mun, eins og ég sagði, reyna að standa við það. Hins vegar er mikil óánægja víða úti á landi hvað mikið hefur farið hér á höfuðborgarsvæðið. Af öllu því fé sem hefur verið ráðstafað, sem er um 134 millj., hafa farið til Bálmunnar einnar 62 millj. og svo til annarra stofnana hér á Reykjavíkursvæðinu. Þetta svæði hefur því verið langhæst. En við megum heldur ekki gleyma því að hér er hlutfall aldraðra hærra og það verða menn að muna úti á landi. Það hef ég verið að segja mörgum ágætum vinum mínum þegar um þetta er rætt. En við verðum fyrst og fremst að sýna sanngirni í þessu máli og taka tillit til aðstæðna.