19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að ég komist ekki hjá því að koma hér aðeins í þessa umr. vegna þess að mér finnst hún í raun og veru bera dálítinn vott um kennisetningar sem eru gersamlega úr samhengi við líf fólksins í þessu landi.

Ég get lýst því strax að ég er og hef alltaf verið á móti sérsköttun hjóna. Ég vil taka það skýrt fram að það er ekki endilega sjónarmið allra Alþb.-manna. Það mál er því miður alls ekki fullrætt í mínum flokki. En ég held að við hljótum að taka afstöðu til svo stórra mála sem einstaklingar og sem hugsandi manneskjur, og það eru nokkur meginatriði í þessu máli sem ég hlýt að lýsa hér.

Það fyrsta er: Hjónaband er lögvernduð stofnun tveggja manneskja, sem gerir þær tvær manneskjur gagnkvæmt framfærsluskyldar, þar sem hvor aðilinn skal framfæra hinn og bera sameiginlega ábyrgð á börnum heimilisins. Því finnst mér fjölskylda — og nú vil ég voga mér að segja giftra hjóna-vera ein eining. Ég vil taka það skýrt fram að mér finnst að um sambúa gegni allt öðru máli, enda er það svo lagalega vegna þess að sambúð er ekki lögvernduð stofnun. Þetta verðum við sem löggjafi að vita.

Allur þorri Íslendinga lætur gefa sig saman í kirkju. Kristilega séð og trúarlega séð verður þá málið miklu stærra vegna þess að þar eru skv. kennisetningu vorri maður og kona eitt, ekki bara fjárhagslega heldur siðferðilega. Þetta er stofnunin hjónaband. Þeir sem ekki aðhyllast þessa stofnun, þeir skyldu annaðhvort úr henni fara eða aldrei í hana koma. Um það hefur fólk frelsi, og það er frelsi. Menn hafa líka fullt frelsi, og skulu hafa mín vegna og okkar allra vegna vænti ég, til að búa saman án íhlutunar biblíukenninga og án valdboðs stjórnvalda. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði. Þess vegna tel ég vera verulegan mun á málinu sem hér er til umræðu eftir því hver hjúskaparstaða fólks er. Andstætt því sem við heyrum alltaf, einkum frá Kvenréttindafélagi Íslands og ýmsum þeim konum sem að mínu viti misskilja orðið frelsi, er það engin frelsisskerðing að búa í lögverndaðri sambúð, jafnvel kristilegri sambúð með þeirri manneskju sem manni þykir vænst um af öllum og hefur valið sér það hlutverk að eiga börn með. Það er ekki og getur ekki verið frelsisskerðing. Ég held að það sé reynsla flestra kvenna og flestra karla, sem slíta slíkri sambúð, að þau finni lítt fyrir því aukna frelsi sem slíkt hefur í för með sér. Hreint praktískt er það mjög á hinn veginn. Og þá er ég komin að öðrum anga málsins: Algengasta breytingin er auðvitað versnandi fjárhagur, þar sem einn aðili er farinn að vinna fyrir fjölskyldu í staðinn fyrir tvo, því að eins og við vitum gerir löggjöfin ekki ráð fyrir framlagi hins aðilans sem ekki hefur börnin nema að óverulegu leyti.

Í öðru lagi vill nú svo til að í okkar þjóðfélagi eru þessi mál ekki eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði áðan. Þúsundir fjölskyldna í landinu búa við það, þó að aðilar séu giftir, að maðurinn er fjarri heimili sínu næstum því allt árið um kring, þ.e. sjómenn landsins. Hvers vegna skyldi hann ekki fá ívilnun á sköttum sínum vegna þess að konan hans verður að reka heimilið hans? Oft á hún auðvitað erfiðara með að vinna utan heimilis. Við getum kallað það frelsisskerðingu en það er allavega sú frelsisskerðing sem hún hefur valið sér. Ég held því að hér sé verið að rugla saman óraunverulegum kennisetningum og raunveruleika fólksins í landinu.

Einstæðar mæður þurfa ekki að vera ófrjálsar manneskjur, en þær eru venjulega afar illa settar fjárhagslega. Ég vil taka það fram, ágætir þm., að þetta eru lauslegir þankar. Við vitum öll hvernig þingstörf hafa verið að undanförnu og ég er langt frá því, því miður, vel undirbúin undir þessa umr. Ég hefði óskað þess að ég hefði fengið betra tækifæri til að lýsa þessum skoðunum mínum því að mér er hér mikil alvara. En ég hlýt að varpa — því miður geri ég það kannske ekki nógu vel — þessum hugmyndum inn í þessa umr. áður en hlaupið er til fyrir þrýsting, vil ég leyfa mér að segja, hópa þeirra kvenna sem munar ekki óskaplega mikið um hvort þær borga skatta sem einstaklingur eða sem gift kona. Við skulum ekki neita því, að þessi þrýstingur, þegar hann var upp á sitt besta og flestir þm. beygðu sig fyrir honum, kom frá konum sem þessi breyting skipti ekki óskaplega miklu máli. Til voru hins vegar aðrar konur sem hafa ekki séð sólina síðan fjárhagslega.

Við munum það ýmsar giftar konur, sem unnum úti í þann tíð, að fjárhagur heimilanna breyttist ansi mikið til hins verra þegar upp var tekin sérsköttun. Ég vil bara minna á þetta. Ég tel mig vera kvenréttindakonu og ég er um ákaflega margt sammála fulltrúum Kvennalistans hér á Alþingi. En ég hlýt að leyfa mér að hafa þessi sjónarmið hvað sem hver segir. Hér stend ég og get ekki annað. Ég tel að sérsköttun hjóna hafi verið til hins verra og hún hafi verið stórkostleg kjaraskerðing íslenskra kvenna og fjölskyldna og það þykir mér ekki góð frelsisbarátta.

Hér inni eru fulltrúar íhaldsaflanna í landinu, sem kalla það frelsi að vera fátækur, af því að aðrir hafa frelsi til að græða á kostnað annarra. Mér þykir það ekki vera frelsi. Mér þykir það ekki vera frelsi að fá að verða fátækari. Ég hef aldrei fundið fyrir þessu aukna frelsi, hvort sem ég greiddi skatta skv. samsköttun eða sérsköttun. Eini munurinn var að við sérsköttun versnaði fjárhagur minn. Ég get ekki tekið þátt í löggjöf sem veldur því. Ég tel að kjaraskerðing landsmanna sé nægileg í augnablikinu. Öll kennisetningagerð um óræða og óskilgreinda hluti eins og frelsi í þessu sambandi tel ég að ekki sé til gagns hinum heilaga málstað sósíalismans — ef ég mætti leyfa mér að segja svo, hv. þm. — sem er sá að hver manneskja sé frjáls með öðrum frjálsum manneskjum. Ég tel að svona hégómi komi því máli ekki við.