19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt.

Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess með breytingu sem flutt eru á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Halldór Blöndal var fjarstaddur afgreiðslu málsins. Undir nál. rita Páll Pétursson, Guðmundur Einarsson, Kjartan Jóhannsson, Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Svavar Gestsson.

Breyting sú sem við leggjum til að gerð verði á málinu er á þskj. 386 og hljóðar þannig:

„1. gr. hljóði svo:

9. tölul. A-liðs 1. málsgr. 30. gr. laganna (sbr. 1. gr. laga nr. 21/1983) orðist svo:

Tekjur skv. 1. tölul. A-liðs 7. gr., þegar frá þeim hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.–6. tölul. þessa stafliðar, sem maður hefur aflað á síðustu 12 starfsmánuðum sínum áður en hann lætur af störfum vegna aldurs. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 800 þús. kr. enda hafi viðkomandi náð 55 ára aldri eða öðlast rétt til eftirlauna eða ellilífeyris úr lífeyrissjóði.

Réttur til frádráttar skv. 1. málsgr. kemur ekki til greina nema einu sinni fyrir hvern mann.

Frádrátt skv. 1. málsgr. skal einnig veita vegna framteljanda sem fellur frá og hafði fyrir heimili að sjá og ekki nýtti þessa frádráttarheimild áður.“

Þetta er sem sagt brtt. við frv. eins og Ed. gekk frá því. Í staðinn fyrir að hámark tekna, sem frádráttarbærar voru, var að till. hv. Ed. 1 millj. þá leggjum við til að þetta mark verði lækkað í 800 þús. kr. Enn fremur orðum við öðruvísi niðurlag greinarinnar og teljum að þetta sé skýrara eins og við leggjum til að það sé. Jafnframt leggjum við til að frádráttur þessi skuli einnig veittur vegna framteljanda sem fellur frá og hafði fyrir heimili að sjá, enda hefði hann ekki nýtt þessa frádráttarheimild áður.