19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forsefi. Við höfum verið að fjalla hér um atvinnuréttindi manna sem starfa til sjós, manna sem bera mikla ábyrgð, og það vekur athygli að ef við berum þessi atvinnuréttindi saman við atvinnuréttindi starfandi fólks í heilbrigðisstétt, þá er sá stóri munur á að hér getur ráðh. með undanþágum hleypt mönnum til starfa. Því vek ég athygli á þessu að fyrir stuttu síðan birti sjónvarpið myndir af sjúkrarúmum hér í höfuðborg landsins þar sem fram kom að þau stæðu auð vegna þess að ekki fengjust nægilega margir hjúkrunarfræðingar til starfa. Það var viðtal í sjónvarpinu í tengslum við þessa frétt þar sem það var skýrt fram tekið að eina lausnin væri sú að mennta fleiri og hækka launin.

Þegar aftur á móti kemur að íslenskum sjómönnum, þá hvarflar hvorki að mönnum að það þurfi að fjölga þeim sem taka próf né hækka launin. Þetta er út af fyrir sig stefna, sem ég get ekki stutt. Það er vitað að sjóslys eru tíðari við strendur Íslands en t.d. við Noregsstrendur svo að miklu munar. Ég tel það gáleysi að hafa svo rúm ákvæði eins og eru í þessum lögum um undanþágur.