19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi eitthvað misskilið orð hv. 5. þm. Vestf. Mér heyrðist að hann minntist á skipstjórnarmenn en ekki vélstjóra. En í tilefni af þessari ræðu hæstv. menntmrh. leyfi ég mér að spyrja hvað hafi verið gert í sambandi við námsskrá og námsefni þeirra sem nám stunda við stýrimannaskólana, sem er undanfari þess að viðkomandi aðilar nái skipstjórnarréttindum.

Ég hef margoft bent á það hér að allar fagstéttir sem á skipum starfa geta nýtt sín fagréttindi þegar þær koma í land nema skipstjórnarmenn. Ég held að það hefði verið öllu nær að draga fram þetta áhersluatriði frekar í sambandi við endurskoðun á námi og frekari kennslu manna sem á skipunum starfa. Undir þetta hefur líka verið tekið af fulltrúum allra flokka á Alþingi sem störfuðu í þeirri nefnd sem hér var vitnað til áðan, öryggismálanefnd, sem hæstv. samgrh. skipaði á s.l. vetri. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu sem hefur verið kynnt í ríkisstj. og hefur m.a. verið vitnað til af hæstv. ráðh., en hefur ekki enn þá verið sýnd þm. þrátt fyrir áskorun til hæstv. ráðh. þar um. M.a. er undirstrikað ítarlega og bent á þann ljóð sem er á menntun skipstjórnarmánna, hve mjög skortir á að menntun þeirra fengist annarri menntun þjóðarinnar og öðrum skólum. Það hefur aldrei neinn menntmrh. eða neinn ráðh. haft hug á því að bæta úr þessu. Það var reynt nokkuð, í tíð Gylfa Þ. Gíslasonar, þegar hann var menntmrh., og síðan ekki söguna meir. Þetta er brýn nauðsyn. Þetta er brýn nauðsyn til þess að fá mennina til að fara í þessa skóla. Það þarf að styrkja þá til þess. samtök útgerðarmanna hafa þegar boðist til þess og lagt fram stórfé á okkar mælikvarða í því augnamiði, en enn þá hefur ekki heyrst neitt um það að hæstv. ríkisstj. ætti að leggja nokkuð til þessara mála, nema það sem hefur komið fram almennt til öryggismála sjómanna nú í brtt. fjvn. sem við væntanlega fáum þá að heyra betur um í umr. á morgun, við 3. umr. fjárlaga.

Ég vildi aðeins benda á þetta og benda hæstv. menntmrh. á að það er ekki síður þörf á því að taka þetta mál, nám þessara manna, föstum tökum. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því nú í byrjun næsta árs og leitist við að láta þetta nám stefna í þann farveg að það stöðvist ekki þegar skólanámi lýkur, eða þessir menn geti átt von á því að geta nýtt menntun sína ef þeir þurfa að fara í land, en það gerist því miður oft með sjómenn, sérstaklega okkar fiskimenn, bæði vegna slysa og af öðrum orsökum sem allir eiga að geta gert sér í hugarlund.