19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. iðnrh. er ekki um það gefið að menn ræði þetta alvörumál af neinu viti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir með örfáum orðum og ítrekaði mína afstöðu til þeirrar miðstýringar sem felst í endurnýjun þess kerfis sem hér er um að ræða til stjórnunar fiskveiða. Mér sýnist hins vegar á umr. sem orðið hafa um það síðan að ýmsum hv. stjórnarliðum hér hafi þótt ég vera allt of fáorður um það mál og hafi þótt ástæða til að brýna stjórnarandstæðinga til að taka betur til hendinni í umr. um þetta stóra mál og reyna að koma í veg fyrir að hæstv. sjútvrh. væri falið það alræðisvald í stjórnun fiskveiða og fiskvinnslu sem frv., sem hér liggur fyrir til umr., veitir honum og þau lög sem samþykkt voru í des. á s.l. ári veittu honum og hann hefur stjórnað eftir yfirstandandi ár.

Ég vék að því í þeim fáu orðum sem ég sagði við 1. umr. málsins að ég vildi á engan hátt koma í veg fyrir að þetta frv. næði fram að ganga og á engan hátt vil ég koma í veg fyrir að meirihlutavilji Alþingis nái fram að ganga. En ég sé á orðum manna frá 1. umr. að fyrir þetta hef ég verið harðlega gagnrýndur af stjórnarliða hér á Alþingi. Auðvitað er engin ástæða til fyrir stjórnarandstæðing að sitja undir því að hv. stjórnarþm. gagnrýni stjórnarandstöðuna fyrir að vera ekki nógu harðskeytt í umr. gegn stjfrv. á Alþingi. Ég leyfi mér að vitna til ummæla hv. 5. þm. Vestf., stjórnarstuðningsmannsins Ólafs Þ. Þórðarsonar, nánast hægri handar hæstv. forsrh. (GJG: Hann er oft furðu sjálfstæður.) Það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og mættu margir af því læra, m.a. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.

En í þessari fyrri umr. sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þau orð sem ég bið menn að taka vel eftir því að það er ástæða til að veita athygli þessari gagnrýni stjórnarþingmanns á stjórnarandstöðuna fyrir að vera ekki nógu skelegg í andstöðu við stjfrv. Hv. þm. sagði, með leyfi forseta:

„Ég vil vekja athygli á því að sú stjórnarandstaða, sem hér hefur talað talar gegn kvótakerfinu. En hver er alvaran á bak við þann málflutning? Hver er alvaran?“ Hann svarar sér sjálfur: „Jú, alvaran er sú að mönnum er meira í mun að semja um að komast í jólafrí en að standa á þeirri meiningu sinni að þetta kerfi sé rangt. Mönnum er meira í mun að stytta hér mál sitt til þess að hraða afgreiðslu þess í gegnum þingið á sama tíma og með vörunum berjast þeir gegn því.“ Og þm. heldur áfram: „Er trúverðug sú afstaða? Það hefur gerst í þessum sölum að menn hafa talað til morguns vegna þess að þeir meintu það sem þeir sögðu og höfðu áhuga á að berjast á móti málum. Hér gerist það aftur á móti að stjórnarandstaðan vissulega talar gegn í orði en greiðir fyrir framgöngu málsins á borði. Og verð ég að segja það að ég ber litla virðingu fyrir slíkum málflutningi.“ Hér talar stjórnarþm., hv. 5. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson.

Og hv. þm. heldur áfram og segir um málflutning stjórnarandstöðunnar: „Hann er merkingarlaus. Það er engin áhersla þegar menn flytja þannig mál sitt og mig undrar það að svo geðlítið lið sé komið inn á Alþingi að menn láti hafa sig í þá þversögn, sem liggur á bak við þetta, að tala gegn frv. í orði og gera svo allt til að flýta fyrir framgöngu þess þegar fyrirsjáanlegt er að ef stjórnarandstöðunni væti alvara, væri einhver alvara í sínum málflutningi, þá gæti hún haft afdrifarík áhrif á meðferð málsins hér í þinginu.“

Þetta er tilvitnun í orð eins af hv. stuðningsmönnum núv. ríkisstj. varðandi það stjfrv. sem hér er nú til umr. Ég sé ekki neina ástæðu til annars fyrir okkur stjórnarandstæðinga en að taka áskorunum stjórnarþm. um að tala hressilega í þessu máli hér, bæði við 2. og 3. umr. Það er engin ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna að láta ásaka sig fyrir að hún sýni ekki dug og djörfung í málflutningi gegn frv. hæstv. ríkisstj. með frýjunarorðum eins af mest ráðandi þm. stjórnarliðsins hér á hv. Alþingi, fylgdarsveini hæstv. forsrh. með meiru. Skárra væri það nú ef stjórnarandstöðuþm. tækju ekki upp umr. í ljósi frýjunarorða þessa hv. þm. Það er engin ástæða til þess að skorast undan því nema síður væri.

Í áframhaldi af þessu, áður en lengra er haldið, er rétt að vekja athygli á öðrum ummælum hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar hér við 1. umr. þessa máls. Það skýrir að miklu leyti hvernig þessi hv. þm. metur innihald þess frv. sem hér er til 2. umr. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þar sem hér liggur fyrir frv. til l. sem er að því leyti sérstakt að það mætti koma efni þess öllu fyrir í einni grein sem hljóðaði eitthvað á þá leið: „Ráðh. fer með sjávarútvegsmál og setur hann reglugerð um framkvæmd þeirra allra.“ (StG: Er þetta ekki óleiðrétt eintak sem ræðumaður er með?) Nei, þetta er eintak sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., afhenti mér sjálfur. Og ég spyr hv. þm., skrifara deildarinnar: Er þetta ekki rétt eftir haft? (ÓÞÞ: Ég kem í ræðustól á eftir.) Ég bíð tilvitnunarinnar.

Nei, þetta er ekki rangt eftir haft, hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður sjútvn. Nd. Þetta er að beiðni þess sem hér stendur til hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar afhent mér af honum sjálfum, þannig að menn geta ekki skotið sér á bak við það þó að undan svíði, flokksbræður hv. þm.

Hér er mikið sagt af hv. þm., skrifara þessara deildar. Ég vænti þess að það hvarfli ekki að neinum hv. deildarþm. að draga í efa rökhyggni þessa hv. stjórnarþm., Ólafs Þ. Þórðarsonar. Hvað sem um þennan hv. þm. má segja, þá hygg ég að enginn geti sagt um hann að hann kafi ekki djúpt í mál og geri sér ekki grein fyrir meginatriðum mála. Það á jafnt við um stjfrv. og önnur mál sem til umr. eru á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Og annars staðar?) Að sjálfsögðu. Það hlýtur að ná út fyrir víðara svið en þingsalina. Enginn skyldi draga það í efa.

Hér er nefnilega dálítið merkilegt á ferðinni. Það er merkilegt að stjórnarþm., flokksbróðir hæstv. sjútvrh., skuli viðhafa slík ummæli um stjfrv. síns flokksbróður og hæstv. ríkisstj. hæstv. forsrh. sem er flokksbróðir þess hv. þm. sem hér um ræðir (GJG: Telur þm. hv. 5. þm. Vestf. mestan þm. Vestfirðinga?)

Það er sjálfsagt að verða við því að svara þessu frammíkalli hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar. Svarið við þessari spurningu fer eftir því hvað menn telja felast í orðunum „mestan þm.“ Það verður mjög mismunandi mat að ég hygg eftir því hver á í hlut. En ég hygg að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, hafi í ýmsum málum tekið eftir og tekið tillit til sjónarmiða þessa hv. stjórnarþm., 5. þm. Vestf., og ekki nema eðlilegt þegar þess er gætt að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er náskyldur öðrum fyrrv. hv. þm., sem Kjartan heitir Ólafsson, og muna auðvitað allir hvar hann var í flokki og er. Þannig að ættin segir til sín, ekki skal það dregið í efa. Og ég hygg að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi spurt vegna þess að hann vildi draga þetta fram.

En ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að vekja athygli á þessum ummælum. (Gripið fram í.) Það getur átt við hvort tveggja, því að þetta er samofið í gegnum alla ræðu hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Það er samofið, hans fyrirhyggja fyrir landi og þjóð, fyrir sjómannastéttinni, fyrir fiskveiðum og fiskvinnslu, og er auðvitað afstaða sem hv. þm. Ellert B. Schram ætti að hafa í ljósi þeirrar skoðunar sem ætti að vera mjög áberandi innan Sjálfstfl. Við skulum koma að því síðar. Það er einkennandi fyrir Sjálfstfl. í núverandi mynd að hann virðist vera orðinn boðberi miðstýringar á þann veg að fela einum ráðh. alræðisvald yfir fiskveiðum og fiskvinnslu í þessu landi. Það er einkaframtaksstefna Sjálfstfl. í núverandi mynd, taki menn eftir því. Hvað skyldu hinir skeleggu leiðtogar Sjálfstfl., gengnir, hafa sagt við þessari stefnubreytingu Sjálfstfl. í viðhorfum til miðstýringar eins og þessarar sem hér um ræðir?

Ég heyri að hæstv. iðnrh. klæjar þegar minnst er á svona hluti, enda ekki nema eðlilegt. Það er greinilegt, hljóð berast úr ráðherrastólum. Það er enginn vafi á því að hæstv. iðnrh. líður illa. — Nei, hver skyldi hafa trúað því, fyrir þó ekki væri nema tíu, fimmtán, tuttugu árum, að það yrði Sjálfstfl. sem ekki bara samþykkti slíka stefnu heldur væri boðberi hennar og brautryðjandi og frumkvæðisaðili að því að innleiða slíka miðstýringu og slíkt einræðisvald einum einstaklingi til handa? (HBl: Er það nú ekki of mikið sagt?) Er hv. skrifari mættur til þingfundar? Það er nýtt. En betra seint en aldrei.

Nei, hv. þm. Halldór Blöndal, hér er ekki of mikið sagt, enda var hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson að undirstrika það í ræðu áðan að hér er ekki of mikið sagt. (FrS: Hv. þm. hefur ekki séð hvað hann sagði.) Birgir Ísleifur? Jú, ég geri ráð fyrir að hann hafi séð hvað hann sagði. Þó að varaformaður Sjálfstfl. eigi hér í hlut, þá er enginn vafi á því að Birgir Ísleifur veit hvað hann hefur hér verið um að tala, en virðist greinilega vera knúinn af flokksforustunni, handjárnaður til að lýsa því yfir, þrátt fyrir allt sem hann sagði og talaði gegn þessu máli, að hann ætli sér að greiða atkv. með því. (Gripið fram í.) Það er tími til kominn að hv. þm. Ellert B. Schram fái að heyra hér almennilega ræðu á Alþingi. (HBl: Eitthvað stendur ræðan í þm. samt.)

Það er greinilegt að öllu þingliði Sjálfstfl. — kannske er það órólega deildin — er mjög órótt undir umr. af þessu tagi. Það er enginn vafi á því að það vill fremur slá þessari umr. og þessu máli upp í gamanmál vegna þess að því er það ljóst að sú afstaða sem nú er uppi af hálfu Sjálfstfl. í þjónustunni við hæstv. sjútvrh. og Framsfl. sem heild og SÍS-valdið sem heild, sem Sjálfstfl. hefur þó fordæmt hvað harðast í gegnum árin, þessu liði er það greinilega ljóst að almenningur í landinu sér í gegnum þennan vef. Hér er Sjálfstfl. af Framsfl. og SÍS-veldinu leiddur til þess að styðja og hafa frumkvæði, vera í forustu fyrir mestu miðstýringu og mesta valdaafsali sem líklega um getur af hálfu Alþingis til eins einstaklings. Og ég hygg að mörgum þyki nóg um í þessum röðum, enda tínast þeir í burtu hver af öðrum, hv. þm. Sjálfstfl. (Gripið fram í: Skrifarinn er farinn.) Það er nú engin nýlunda. Hann er nú sjaldnast hér, hv. skrifari.

Það væri ástæða til, herra forseti, að fara í löngu máli orðum um það sem gerst hefur að því er varðar stjórnun fiskveiða á yfirstandandi ári og það sem fyrirhugað er á komandi ári, sem er í meginatriðum efnislega sama stjórnun og við höfum búið við í ár. Ég hygg að engum dyljist að það er verulega meiri andstaða gegn kvótakerfinu eins og það hefur verið í framkvæmd í ár en var fyrir ári síðan þegar það var í fyrsta skipti sett á. Það er enginn vafi á því að fyrir ári síðan stóðu menn nánast ráðalausir frammi fyrir því vandamáli sem þá var sagt að við blasti að því er varðaði stjórnun fiskveiða, aflamagnshorfur og sókn í aðalfiskistofna hér við land. Nú eru þessi viðhorf breytt. Hvað sem líður miður æskilegum skoðanakönnunum sjútvrn. um eigin gjörðir þá er augljóst að það er vaxandi andstaða við þá miðstýringu og alræðisvald sem hefur verið í stjórnun fiskveiða yfirstandandi árs og er boðað með því frv. sem við erum nú að ræða.

Talandi um skoðanakönnun í þessum efnum er það nánast furðulegt að það skuli geta skeð í lýðræðislandi að rn., þ.e. framkvæmdavaldið, skuli framkvæma skoðanakönnun um eigin verk og gjörðir. Spurning í þessu sambandi er: Með hvaða hætti voru gögn um þessa skoðanakönnun undirbúin? Er kannske hægt að sjá það í gögnum rn. vegna þessarar skoðanakönnunar hvaða skipstjórar það voru í flotanum sem eru andvígir þessu alræðisvaldi framsóknarráðherrans, núv. hæstv. sjútvrh.? Er hugsanlegt að það sé hægt að beita þrýstingi í framtíðinni á þá skipstjórnarmenn og forustumenn sem svöruðu neitandi að því er varðar ánægjuna með kvótakerfið? Ég vildi gjarnan fá um það upplýsingar. Ég hef hvergi séð með hvaða hætti þau gögn sem út voru send í sambandi við þessa skoðanakönnun voru úr garði gerð eða hvort hægt væri að sjá frá hvaða skipum kom jákvætt hugarfar eða frá hvaða skipum kom neikvætt hugarfar. Þetta skiptir miklu máli gagnvart því að fá fram frjálsa skoðanamyndun í landinu til þessa stóra málefnis sem hér er til umr.

Mér hefur heyrst á umfjöllun fjölmiðla um útkomu úr þessari skoðanakönnun að meiri hluti þeirra sem til var leitað eða spurðir voru hefði svarað jákvætt varðandi stjórnun fiskveiða með því fyrirkomulagi sem fylgt hefur verið yfirstandandi ár. Þetta er alrangt. A.m.k. vil ég trúa því sem segir í meirihlutaáliti hv. sjútvn. þessarar deildar. Þar er sagt að um 46.3% svari því játandi að stjórna eigi fiskveiðum með aflakvóta á fiskiskip, en 87% svari því játandi að þörf sé á heildarstjórnun fiskveiða við Ísland. Það er allt annað mál, þannig að minni hluti þeirra sem svöruðu í þessari skoðanakönnun er ánægður með það fyrirkomulag sem nú hefur verið haft um tæplega eins árs skeið á stjórnun fiskveiða hér við land.

Ég á ekki von á því að mörgum detti í hug að teknir verði upp þeir hættir að hér verði gersamlega stjórnlaust í þessum efnum miðað við ríkjandi aðstæður. En sér er nú hver munurinn, gersamlega stjórnlaust eða alræðisvald eins einstaklings yfir fiskveiðum og fiskvinnslu í öllu landinu. Það er mikill munur þar á.

Ég gerði grein fyrir því að vísu — enn skal vitnað til ummæla hv. þm. Ólafs Þórðarsonar í örfáum orðum hér við 1. umr. hver mín viðhorf væru til þessa máls. Ég var andvígur þessu fyrirkomulagi, greiddi atkv. gegn því á síðasta Alþingi eða fyrir ári. Í fyrsta lagi var byggt á þeim forsendum að löggjafinn væri hér að afsala svo gífurlegu valdi til eins einstaklings að það væri ekki forsvaranlegt að greiða atkv. með slíku valdaafsali, hvort sem var um að ræða framsóknarráðherra eða hvaða ráðh. sem væri. Í öðru lagi, og þá tek ég undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og hann gerði hér grein fyrir áðan, er það staðreynd að það verður ákveðin eignatilfærsla í sjávarútvegi með þeirri miðstýringu sem hér hefur verið innleidd. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Samband ísl. samvinnufélaga kaupir upp nánast hvert sjávarplássið á fætur öðru. Og það er að mínu viti að fara úr öskunni í eldinn, eins og reynslan sýnir, að kippa fótunum undan vel reknum einkafyrirtækjum í sjávarútvegi og afhenda slík fyrirtæki sambandinu. Ég bendi m.a. á Súgandafjörð sem fordæmi fyrir slíku.

Auk þessa hefur komið í ljós að breyting á sóknaraðferðum samfara kvótaskiptingunni og miðstýringunni, eins og hún hefur verið yfirstandandi ár, hlaut að hafa í för með sér að borinn var fyrir borð dugnaður íslenskra sjómanna, hæfni þeirra og útsjónarsemi, svo notuð séu eigin orð hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Slíkt er fyrir borð borið með miðstýringu af því tagi sem hér er lagt til að verði áfram eins og verið hefur yfirstandandi ár.

Og enn ein grundvallarforsendan, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson benti hér á áðan og er eitt af meginatriðum þessa máls, er breyting á launauppbyggingunni að því er varðar laun þeirra manna sem vinna við fiskveiðar og fiskvinnslu í landinu sem er undirstaða alls þess sem þjóðarbúið byggir á. Það virðist vera að skapast svipað ástand að því er varðar mönnun flotans eins og var hér á tímabilinu milli 1950 og 1960 þegar megnið af íslenska flotanum var mannað með erlendum sjómönnum. Launakjörin eru að verða slík og allur afrakstur í sambandi við útgerð og fiskvinnslu að hæfir sjómenn — hinir bestu sem finnast — fara unnvörpum í land vegna þess hvernig er búið að skerða bæði þeirra kjör og aðstöðu til að afla tekna vegna þessarar miðstýringar sem Sjálfstfl. númer eitt styður Samband ísl. samvinnufélaga og Framsfl. í að framkvæma.

Þetta eru þrjú meginatriði sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, þm. Sjálfstfl., taldi nauðsynlegt að minna sérstaklega á í umr. áðan og eru orð í tíma töluð. Og þessi hv. þm., í ljósi þeirra orða sem hann lét hér falla, hefði auðvitað átt að lýsa því yfir að hann mundi greiða atkv. gegn þessu frv. Allt tal hans hér og sannfæringu gat ég ekki skilið á annan veg en þann að hann væri í grundvallaratriðum ósammála og andvígur því frv. sem hér er til umr. og þeim stjórnunaraðferðum sem hér er gerð till. um að innleiða áfram eitt ár í viðbót. En hann lét sig hafa að lýsa yfir að hann mundi segja já. Og það er þetta sem því miður gerist allt of oft um þm. hinna ýmsu stjórnmálaflokka, að þó að sannfæringin bjóði þeim að segja já, þá segja þeir nei fyrir flokkinn eða öfugt, vegna þess að flokkshlekkirnir virðast halda mjög víða ef ekki í flestum stjórnmálaflokkanna.

Það finnast þó enn einstaklingar í hinum pólitísku flokkum hér á Alþingi sem í málum eins og þessu láta sannfæringuna ráða, láta ekki hina flokkspólitísku hlekki ráða í svo miklum grundvallarmálum sem skipta sköpum fyrir land og lýð, og er það vel.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að það kemur mér afskaplega spánskt fyrir sjónir að nú skuli endurflutt á Alþingi frv. til l. um áframhald miðstýringar og stjórnun fiskveiða í sama dúr og gert hefur verið yfirstandandi ár, vegna þess að það er flest sem bendir til þess að hæstv. sjútvrh. þáv., Matthías Bjarnason, núv. hæstv. heilbr.- og samgrh., hafi haft rétt fyrir sér þegar hann gagnrýndi fiskifræðinga harkalega fyrir að þeir væru allt of svartsýnir og hefðu ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru og þurftu að liggja til grundvallar því sem þeir lögðu til. — Þar réði auðvitað brjóstvit hæstv. þáv. sjútvrh., sem núv. hæstv. iðnrh. hefur tapað mjög miklu af við að hverfa til Austfjarða. — Auðvitað er nauðsynlegt að hafa hliðsjón af upplýsingum, í þessu tilfelli fiskifræðinga, en það er af og frá að það sé hægt að taka fullt tillit til þeirra í ályktunum að því er þessa hluti varðar. Þar kemur svo miklu fleira til en bara vísindin ein út af fyrir sig. Það þarf að taka tillit til miklu fleiri hluta en vísindagreinar þó svo að vísindamennirnir væru nú þann veg staddir að hafa upplýsingar sem telja mætti fullnægjandi til að byggja ákvarðanir á, sem ég tel að sé víðs fjarri í þessu tilfelli.

Enn vitna ég til ummæla hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar við 1. umr. þessa máls, sem eru að mínu viti rétt og ég hefði auðvitað átt að láta hér getið, en vegna tillitssemi við afgreiðslu mála hér í þinginu gerði ekki að umræðuefni. Það eru trúlega margir áratugir síðan það ástand hefur verið við Vestfirði eins og hefur verið á yfirstandandi ári og þá sér í lagi á sumrinu og haustinu. Elstu menn muna vart aðra eins fiskigengd og hefur verið við Vestfirði á haustmánuðum og nánast inn á firði hvarvetna. Þetta bendir ekki til þess að upplýsingar fiskifræðinga um rýrnandi fiskistofna séu réttar. Ég held að hæstv. núv. samgrh., þegar hann gegndi embætti sjútvrh., hafi orðað það svo að það væri á þeim tíma verið að veiða þá þorska sem fyrir löngu ættu að vera dauðir ef farið hefði verið eftir fiskifræðingum eða ráðleggingum þeirra. Það bendir allt til þess nú að þau skilyrði séu fyrir hendi að ástæða sé til að slaka mjög verulega á að því er varðar stjórnun fiskveiða á næsta ári.

Ég vakti athygli á því, herra forseti, við 1. umr. þessa máls að ég teldi að gengið hefði verið allt of hart fram í miðstýringu og nánast alræðisvaldi yfir þessari atvinnugrein. Það hefur hvorki verið tekið viðhlítandi tillit til hagsmuna sjómannanna né útgerðarmanna og því síður til hagsmuna þess fólks í frystihúsunum, fiskvinnslunni í landi sem fyrst og fremst byggir alla sína afkomu á þessari atvinnugrein. Og það er ekki síst af þessum ástæðum sem nauðsynlegt er að mótmæla harðlega þeirri fyrirætlan hæstv. ríkisstj. að framlengja um eitt ár enn stjórnunaraðferð af því tagi sem gilt hefur á yfirstandandi ári.

Ein af þeim röksemdum, sem hæstv. sjútvrh. og stjórnarliðar sumir hverjir héldu fram við umr. álíka máls fyrir um ári síðan, var sú að stjórnun fiskveiða af því tagi sem við höfum upplifað nú og miðstýring mundi hafa í för með sér hagræðingu og sparnað. Hvergi sjást nein merki þess eða haldbær rök að slíkt hafi gerst. Ég tala nú ekki um ef þær fréttir reynast réttar að 20–25% af aflamagni hafi annaðhvort verið kastað eða landað í gúanó vegna kvótakerfisins á yfirstandandi ári. Ég segi: ef slíkar fréttir eru réttar. Ég heyrði ekki betur en slíkur fréttaflutningur væri í Ríkisútvarpinu í kvöld. (Gripið fram í: Smávegis misskilningur.) Kann að vera einhver misskilningur enda fullyrti ég ekki neitt. En ef kvótakerfið og stjórnunin, sem við höfum upplifað á yfirstandandi ári, hefur leitt til þessa þá held ég að það eitt út af fyrir sig sé nægileg sönnun þess að við eigum að hverfa frá þessari stjórnunaraðferð og taka upp aðra.

Herra forseti. Það hefur verið mikið gagnrýnt í allri þessari umr. og öllum þessum ákvörðunum, að t.d. handfæraveiðar og veiðar á smærri bátum og trillum væru ekki algerlega utan kvóta. Einnig hefur verið gagnrýnt að línuveiðar væru ekki utan kvótaskiptingar. Auðvitað á slík gagnrýni rétt á sér. Það er staðreynd, sem ekki verður móti mælt, að línufiskurinn er viðurkenndur besta hráefnið sem að landi berst. Það er fullkomin ástæða til fyrir stjórnvöld að leita leiða og stjórna í ljósi þess að auka línuveiðar hér við land í stað þess að gera ráðstafanir til að draga þær saman. En stjórnun af því tagi sem við höfum nú upplifað, ég tala ekki um haldi hún áfram, eins og hæstv. ráðh. og ríkisstj. lögðu til, þrjú ár til viðbótar, mun leiða til enn minnkandi línuútgerðar hér við land að óbreyttu.

Ég hef því, herra forseti, leyft mér að flytja á þskj. 378 brtt. við það frv. sem hér er til 2. umr. Brtt. flytja með mér hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Margrét Frímannsdóttir og Guðmundur Einarsson. Þessi brtt. gerir í fyrsta lagi ráð fyrir því að á eftir 1. mgr. 1. gr. þessa frv. komi tvær nýjar mgr. er orðist svo: „Ákvæði 1. mgr. taka ekki til veiða með línu og handfærum.“ Ég minni á í þessu sambandi að í nál. meiri hl. sjútvn. Ed. er sérstaklega tekið fram að nefndin hafi verið sammála um að það þurfi að slaka á varðandi línuveiðarnar. (Gripið fram í.) Nei, en ég tel alveg einsýnt að mér sé heimilt að vitna í nál. frá hv. Ed. Ég sé ekki ástæðu til þess að ég þurfi að biðja hæstv. forseta, enn þá síður hv. þm. Stefán Guðmundsson, leyfis til að mega vitna í nál. frá hv. Ed. Ég tala ekki um þegar það er frá meiri hl., þ.e. stjórnarliðunum, þá ætti enn síður að vera óleyfilegt í það að vitna. En enn komum við að því að eitthvað er þetta viðkvæmt. Einhver kvika er hér að því er varðar a.m.k. einstaka hv. stjórnarþingmenn.

Með leyfi hæstv. forseta segir hér í nál. frá meiri hl. sjútvn. hv. Ed.:

„Allir nefndarmenn voru sammála um að beina því til sjútvrh. og ráðgjafarnefndar um fiskveiðistjórn að línuveiðar skyldu að hálfu verða utan kvóta mánuðina janúar-febrúar og nóvember-desember. Almennt er viðurkennt að línuafli sé sérstaklega gott hráefni og því ástæða til að hvetja til aukinna línuveiða með þessum hætti.“

Það er enginn vafi á því að menn voru sammála um þennan hlut. Menn getur greint á um það hvort gefa eigi línuveiðar algerlega frjálsar. En í nál. meiri hl. sjútvn. Ed. kemur fram að öll nefndin, öll sjútvn. Ed., var sammála um þennan þátt málsins. En það er eins og til þess megi ekki vitna hér. Ég sé hins vegar ekki, og ég bið forláts á því hafi mér yfirsést, að um þetta sé getið í meirihlutaáliti sjútvn. þessarar hv. deildar. Ég bið því um skýringar og spyr hv. þm. Stefán Guðmundsson, formann sjútvn.: Er meiri hl. sjútvn. þessarar deildar eða öll nefndin sammála þessu tiltekna atriði, sem ég vitnaði til í nál. meiri hl. sjútvn. Ed., eða er einhver önnur skoðun annaðhvort í meiri hl. sjútvn. þessarar hv. deildar eða nefndinni allri að því er þetta varðar? Ég fullyrði, í ljósi þess að minni hl. sjútvn. þessarar deildar, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Guðmundur Einarsson, flytja með mér brtt. í þessa átt, að þau eru sammála því áliti, sem fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. Ed., að auka beri frelsi til línuveiða utan kvóta. Sé einhver fyrirstaða þá hlýtur hún að vera í meiri hl. sjútvn. þessarar deildar. Og þá er best að það komi fram.

Ég held það sé alveg fráleitt og hafi ekki við nein rök að styðjast að skella kvótafyrirkomulagi á handfæraveiðar og raunar á hið sama við að verulegu leyti varðandi línuveiðar. Um það er þessi þáttur þeirrar brtt. sem ég er hér að mæla fyrir.

Í öðru lagi segir í brtt.: „Við úthlutun á aflamarki til einstakra skipa ber ráðh. að taka sérstakt tillit til þess ef skip er gert út í byggðarlagi þar sem a.m.k. 35% vinnuafls starfa við fiskveiðar og fiskvinnslu og skal aflamark þeirra skipa, verði eftir því leitað, aukið um 15–20% frá því sem það hefði ella orðið eftir almennri úthlutunarreglu.“

Hér er á ferðinni tillögugerð í þeim anda sem margir hv. þm. töluðu um við umr. hér fyrir ári, bæði hv. stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar, um að taka meira tillit til þeirra byggðarlaga sem byggja að verulegu ef ekki að mestu leyti atvinnu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu — byggðarlaga sem a.m.k: eins og sakir standa og í náinni framtíð hafa enga möguleika til að auka atvinnutækifæri í öðrum atvinnugreinum en fiskveiðum og fiskvinnslu. Og nú tek ég mér í munn orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og segi: Það er ekki nóg fyrir hv. stjórnarþingmenn né aðra í þessu tilfelli að mæla orðin ein. Hér þarf líka aðgerða við og taka tillit til þessa í ákvörðunum.

Ég hef ekki, a.m.k. ekki eins og er, alveg óyggjandi upplýsingar um hversu mörg sjávarpláss féllu undir þessa prósentutölu um vinnuafl í fiskveiðum og fiskvinnslu. Ég held hins vegar að þau sjávarpláss séu æðimörg þar sem vinnuafl er miklu hærra hlutfall í fiskvinnslu og fiskveiðum en hér er talað um. Sú stjórnunaraðferð sem farið hefur verið eftir á yfirstandandi ári brennur hvað mest á mönnum þar og hefur valdið atvinnuleysi í sjávarplássum þar sem ella hefði verið nægileg atvinna fyrir, hefðu ekki stjórnunaraðferðir og miðstýring af því tagi sem hér um ræðir komið til.

Ég minni á að á árinu 1982 komu um 20% af verðmæti útflutnings hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna frá Vestfjörðum sem þá byggðu 4–5% þjóðarinnar. Ég vil ekki trúa því, að fenginni reynslu yfirstandandi árs, að stjórnvöld skelli við skollaeyrum og neiti að taka tillit til þeirra sanngjörnu óska þessara byggðarlaga, bæði að því er varðar Vestfirði og víðar um land, sem byggja fyrst og fremst afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu, að láta þessi byggðarlög njóta forgangs umfram það sem almenna reglan gerir ráð fyrir. Menn geta deilt um hversu miklu meira hér á að vera um að ræða, en ég trúi því ekki að menn greini á um að þessir staðir, sem hér um ræðir, skuli njóta verulegs forgangs. Það er ekki bara spurning um íbúa þessara staða, byggðarlaga eða landssvæða. Það er ekki síður spurning um þjóðarhag að nýta aðstöðu til fiskveiða og fiskvinnslu frá þeim svæðum landsins sem er hagkvæmast að gera út frá og hagkvæmast og ódýrast að vinna aflann frá. Þetta sjónarmið hlýtur að ráða miklu eða a.m.k. ætti að ráða miklu í afstöðu stjórnvalda til þessara mála.

Ég vildi gjarnan, herra forseti, spyrja hæstv. sjútvrh., í ljósi þess sem ég hér vitnaði til í nál. meiri hl. hv. sjútvn. Ed., hvort uppi séu einhverjar hugmyndir um að breyta frá því sem verið hefur til að auka frelsi bæði að því er varðar línuveiðar og handfæraveiðar þannig að það verði ekki að öllu leyti undir kvótaskiptingu. Eru einhverjar slíkar ráðstafanir fyrirhugaðar, annaðhvort hjá hæstv. ráðh. eða hjá þeirri nefnd sem mest hefur um þessi mál fjallað og kemur til með að fjalla um þau áfram? Ég vil gjarnan fá vitneskju um hvort líkur eru á því að að þessu leytinu verði slakað á klónni varðandi handfæraveiðar og línuveiðar eða hvort á að halda óbreyttri stefnu eins og verið hefur yfirstandandi ár. Ég vil gjarnan líka fá að heyra frá hæstv. sjútvrh. hvort uppi eru hugmyndir af hans hálfu um að gera ráðstafanir í átt við það, sem hér er lagt til, að auka kvóta þeirra skipa, sem veiðar stunda frá þeim byggðarlögum sem fyrst og fremst byggja á fiskveiðum og fiskvinnslu, umfram það sem verið hefur. Mér finnst mikilvægt að fá um það vitneskju, þegar hæstv. ráðh. óskar eftir svo gífurlegu valdi sem hann gerir með því frv. sem hér er til umr., hvort hann hyggst breyta til frá því sem verið hefur í átt við það sem hér er lagt til, þó ekki væri það nú að öllu leyti eins og hér er gert ráð fyrir. Það gæti vissulega orðið til þess að frekari friður og jákvæðara hugarfar ríkti til þess sem hér er nú óskað eftir, alræðisvaldi um stjórnun fiskveiða og fiskvinnslu á næsta ári.

Ég skal ekki, herra forseti, á þessu stigi máls hafa um þetta fleiri orð, þó að til þess væri fullkomin ástæða svo mjög sem þetta mál höfðar til velflestra ef ekki allra Íslendinga varðandi stöðu þjóðarbúsins á næsta ári. Í ljósi þess hefði verið ástæða til og æskilegt að hafa lengri tíma hér í þinginu til umfjöllunar um málið. En á þessu stigi skal ég ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar.