11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. minntist ekki einu orði á þá smán sem yfir íslenska þjóð hefur gengið á undanförnum dögum, þar sem ráðherrar í ríkisstj. hafa staðið að lögbrotum, hafa sagt að eitt lögbrot réttlætti annað, hafa staðið í vegi fyrir því að lögunum í landinu væri framfylgt, þeir sömu aðilar og hafa verið til þess kjörnir og eru til þess eiðsvarnir að halda uppi lögum í landinu.

Formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, gerði þetta að nokkru umræðuefni hér áðan með harla furðulegum hætti. Hann talaði um frelsi fólksins til þess að tjá sig. M.ö.o., frelsi fólksins til þess að brjóta lögin. Það var það sem fólst í orðum hv. þm. Þorsteins Pálssonar sem talaði hér áðan. En það er athyglisvert að forustumenn tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skuli annaðhvort ekki minnast einu orði á þá smán, sem yfir okkur er gengin í þessum efnum, eða reyna að klóra yfir það með þeim hætti sem hv. seinasti ræðumaður gerði.

Það var líka athyglisvert að hvorki hæstv. forsrh.hv. þm. Þorsteinn Pálsson minntust einu orði á það misrétti sem viðgengst hér í þjóðfélaginu. Þeir minntust ekki einu orði á það hvernig stórir hópar fólks eiga tæplega til hnífs og skeiðar á meðan aðrir hópar vaða í peningum. Þeir minntust ekki einu orði á þau skattsvik sem grassera hér í þjóðfélaginu. Þeir minntust ekki einu orði á neðanjarðarhagkerfið sem við höfum öll fyrir augum. Það var þetta sem vantaði í þeirra ræður. En það er kannske engin tilviljun því að þeir vilja líklega hafa þetta svona.

Þegar hæstv. forsrh. taldi hér upp talnarunur um verðbólgu, þá gekk hann vitaskuld út frá því að allt ætti að vera óbreytt, það átti ekkert að færa til. Skattsvikin áttu að vera óbreytt. Tekjuskiptingin í þjóðfélaginu átti að vera óbreytt. Þá gat hann fengið út þessar tölur. En sannleikurinn er sá, að forsendan fyrir því að við náum raunverulegum árangri hér í efnahagsmálum og náum hér sáttum milli launafólks, ríkisstjórnar og atvinnurekenda er einmitt sú að þetta bil sé jafnað, að þetta neðanjarðarhagkerfi verði afnumið, að komið verði í veg fyrir skattsvikin, að menn þurfi ekki að horfa upp á það dag eftir dag á sama tíma og menn eiga tæpast fyrir salti í grautinn að hér rúlli lúxuskerrur nýjar um götur borgarinnar sem kosta milljón eða jafnvel meira. Þetta er það verkefni sem menn standa fyrst og fremst frammi fyrir. Þess vegna var það athyglisvert að hvorugur þeirra talsmanna ríkisstj. sem hér töluðu áðan skyldi minnast á þetta einu orði. Þetta sem er höfuðverkefnið sem við stöndum frammi fyrir, þetta sem er ein aðalundirrót þess ástands sem hér ríkir. Að þeir skyldu hoppa yfir þetta, þetta misrétti og þessa smán, sem yfir okkur hefur gengið, þegar ráðherrar standa fyrir lögleysum og lögbrotum, það er kannske dæmigert.

Hæstv. forsrh. sagði í upphafi máls síns að honum þætti rétt þegar á fyrsta starfsdegi þingsins að gera Alþingi grein fyrir stöðunni í kjaramálum. Það hefði kannske verið betra fyrir hæstv. forsrh. ef hann hefði farið að tillögum okkar Alþfl.-manna og kallað þingið saman svolítið fyrr til þess einmitt að gera grein fyrir stöðu kjaramála. En á því hafði hann ekki áhuga. Þá fannst honum þingið bara óþægilegt.

Hæstv. forsrh. gat þess líka í ræðu sinni að hann óskaði þess að þessar umræður yrðu til þess að lægja öldurnar í þjóðfélaginu. Ég held að hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin öll hefðu átt að huga að því með hvaða hætti á að fara að því að lægja öldurnar í þjóðfélaginu, þegar hún markaði afstöðu sína til kjaradeilu BSRB, þegar hún tók þau skref sem mögnuðu þá deilu og hafa fært í hana hörku. Það er eitt að standa hér upp og vera tungulipur en standa svo að því gang í gang að magna þá deilu sem hér er við lýði í þjóðfélaginu.

Sama viðhorf kom fram í ræðu hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Hann talaði um það að nauðsyn væri að láta hendur standa fram úr ennum og það þýddi ekki annað en að sýna mýkt. Þetta eru falleg orð. En menn hafa bara allt, allt annað fyrir augunum. Það sem menn hafa fyrir augunum er það, að ríkisstj. sat á höndum sér og gerði ekki neitt til þess að koma til móts við launafólk í þessari kjaradeilu. Það sem menn hafa fyrir augunum er það að ríkisstj. notaði hvert tækifæri til að slá á fingurna á þeim sem stóðu í þessari kjaradeilu. Orð og athafnir fara því ekki saman.

Hæstv. forsrh. lýsti því hér áðan hvernig stjórnarstefnan hjá seinustu ríkisstjórn hefði leitt yfir okkur óðaverðbólgu og hann varaði við því að við færum á þá braut. Það var athyglisvert að heyra hæstv. forsrh. lýsa afrakstrinum af ríkisstjórn Framsfl., Alþb. og hluta úr Sjálfstfl. En það er rétt að við viljum aldrei aftur fá 60–120% verðbólgu sem hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Svavar Gestsson stóðu að því að láta hér dynja yfir okkur í valdatíð seinustu ríkisstjórnar. En leiðin er ekki sú að svelta fólk til hlýðni eins og hér virðist eiga að gera.

Ég tók eftir því líka í ræðu hæstv. forsrh. að hann las upp tvö álit frá Benedikt Sigurjónssyni, fyrrum hæstaréttardómara. En það er merkilegt við þessi álit að annað má gilda í augum hæstv. ríkisstj. en hitt ekki. Benedikt Sigurjónsson er allra lögfræðinga bestur þegar hann túlkar það að kjaradeilunefnd hafi endanlegan úrskurð í öllu að því er varðar framkvæmd verkfallsins. En hann er að engu hafandi þegar hann úrskurðar að greiða skuli laun fyrsta dag hvers mánaðar. Er þetta ekki svolítið einkennilegt af hálfu hæstv. ríkisstj.? Og er það ekki svolítið einkennilegt, úr því að hæstv. forsrh. gerði þessi prinsípmál með kjaradeilunefnd hér að umræðuefni, að á sama tíma og ríkisstj. stendur í blóðugum slag til að berja stofnanir sínar til þess að fara eftir úrskurðum kjaradeilunefndar og leita ekkert annað, leita aldrei til BSRB, þá skuli hver ráðh. á fætur öðrum í ríkisstj. sjálfri snúa sér beint til BSRB.

Hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson fór með sérstöku leyfi BSRB til útlanda. Þá gilti ekki prinsípið. Hæstv. forsrh. hafði frumkvæði að því, fram hjá og eftir að kjaradeilunefnd hafði úrskurðað að ekki yrði útvarpað frá setningu Alþingis og í samráði við BSRB, að það yrði gert. Þá gilti heldur ekki prinsípið. Það gilti ekki þetta prinsíp fyrir ráðh. Það gildir bara fyrir hina. Þetta er merkilegt.

Í ræðu sinni hér áðan sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson að launin hefðu hækkað meira en verðlagið. Við hljótum að hafa það alveg glimrandi hér á Íslandi núna. En það er eitt sem ég skil ekkert í, ef þetta skyldi nú vera satt hjá hv. þm., og það er það að kaupmátturinn skuli minnka þegar launin hækka meira en verðlagið. Ég held að hver einasti Íslendingur, þ.á m. þingmenn sjálfir, finni það á pyngju sinni að kaupmátturinn er að minnka. Þar að auki geta þeir fengið það í tölum frá opinberum stofnunum. Þetta er alveg dæmalaus málflutningur að standa hér upp og halda því fram að nú séu launin að hækka meira en verðlagið.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði líka mikið úr því að gripið hefði verið til umfangsmikilla aðgerða til að bæta hag hinna verst settu. Mér fannst eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson ætlaðist til þess að hinir verst settu stæðu nú bara upp, klöppuðu og hrópuðu húrra. En sannleikurinn er sá, að hinir verst settu í þjóðfélaginu hafa ekki um langt árabil haft það verra en einmitt núna. Þess vegna finnst mér hlálegt, finnst mér í rauninni grátlegt þegar talsmenn ríkisstj. fara að hrósa sér af því hvað þeir hafi gert mikið fyrir hina verst settu.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði líka að umtalsefni hér áðan að við höfum þurft að þola vaxandi erlenda skuldasöfnun. Við höfum þurft að þola vaxandi erlenda skuldasöfnun. Er ekki ríkisstjórn í landinu? Hverjir voru það sem tóku þessi lán? Hverjir voru það sem samþykktu lánsfjáráætlanir og lánsfjárlög á seinasta þingi, sem gerðu einmitt ráð fyrir því að skuldir mundu aukast, þrátt fyrir allar yfirlýsingar um að þær skyldu ekki gera það og mættu aldrei í lífinu fara yfir 60%? Það er ríkisstjórnin sjálf sem hefur sökkt okkur í þetta skuldafen. Það erum við sem höfum þurft að þola það, þegnar þessa lands, að ríkisstj. skyldi leiða yfir okkur þessa aukningu í erlendri skuldasöfnun. Það erum við, almennir borgarar þessa lands, sem höfum þurft að þola það af hendi þessarar ríkisstj.

Sannleikurinn er sá, að þessi ríkisstj. hefur stefnt íslensku þjóðfélagi í hrein vandræði. Eftir 16 mánaða valdaferil er þjóðfélagið meira og minna komið á vonarvöl, því miður. Sjávarútvegurinn hefur siglt meira og minna í strand. Ég skal viðurkenna að hluti af því er ekki núv. ríkisstj. að kenna, heldur á hæstv. forsrh., fyrrum sjútvrh., ekki svo litla sök í þeim efnum, þegar hann hleypti hér inn 25 togurum til viðbótar í allt of stóran skipastól, sem menn eru nú að rembast við að reyna að borga og geta vitaskuld ekki. Ég skal viðurkenna það. En hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert til úrlausnar í þessum málum. Þau neyðaróp, sem hafa borist, hefur hún látið sem vind um eyru þjóta. Mörg fyrirtæki hafa þegar gefist upp, önnur eru við það að gefast upp og fólk gengur atvinnulaust í ýmsum sjávarplássum víðs vegar um landið. En ríkisstj. skellir skollaeyrum við því. Hún sefur og hefst ekki að.

Sama gildir í raun og sannleika að því er varðar landbúnaðinn, aðra undirstöðuatvinnugrein. Ríkisstj. hefur keyrt landbúnaðinn út í slíkar ógöngur að margir bændur vita í raun ekki sitt rjúkandi ráð. Þetta er nú sannleikurinn varðandi tvær undirstöðuatvinnugreinar.

Í þriðja lagi hefur ríkisstj. fært landið dýpra í fen erlendra skulda en nokkurn tíma fyrr, þessi ríkisstj. sem sagðist mynduð til að sjá til þess að erlend skuldasöfnun yrði stöðvuð. Viðskiptahallinn er feiknamikill. En hann er einfaldlega orðinn til vegna þess að ríkisstj. ákvað að taka svo mikið af erlendum lánum sem raun bar vitni. Þá gerist ekkert annað en að það verður viðskiptahalli og þess vegna var hann fyrirsjáanlegur.

Fimmta afrekið er að hafa bankana lokaða. Svo stendur hv. þm. Þorsteinn Pálsson upp hér áðan og hrósar sér af því að þegar bankarnir séu hættir útlánum séu innlánin meiri en útlánin. Þakka skyldi þeim, þegar menn lána ekkert úr þeim.

Í sjötta lagi hefur það gerst á þessu ári að landið hefur í rauninni sporðreisist. Það er hafinn fólksflutningur utan af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir báða aðila, fyrir bæði landshornin.

Og síðast en ekki síst hefur ríkisstj. gengið svo hart fram í því að skerða kjör launafólks, almennings í landinu, að mörgum heimilum liggur við gjaldþroti. En á þessu hefur ríkisstj. engan skilning. Það sást vel í sumar, en það sást líka vel í þeim ræðum, sem hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteinn Pálsson fluttu hér áðan, að þeir höfðu engan skilning á því að heimilunum á Íslandi liggur við gjaldþroti.

En það gerðist meira. Við þessar aðstæður í haust, þegar launþegar fóru að bera sig upp undan því að kjörin væru óbærileg, boðaði ríkisstj. enn þá meiri kjaraskerðingu. Með sérstöku samkomulagi stjórnarflokkanna, sem var birt sem tímamótaaðgerð, fylgdi það að nú skyldu kjörin skert enn frekar. Með þessu hefur ríkisstj. sýnt það og sannað á öllum starfsferli sínum að hún kann engin önnur ráð í efnahagsmálum en kjaraskerðingu og áframhaldandi kjaraskerðingu. Ég segi: Þessi stefna er röng. En hún er meira en röng. Hún er þjóðhættuleg, vegna þess að á sama tíma og fjöldi heimila berst í bökkum raka aðrir saman gróða og skattsvikin magnast.

Það er ljóst að frjálshyggju- og peningamagnspostularnir hafa náð fram þeim vilja sínum að frelsi fáist fyrir ofsagróða. Því hafa þeir náð fram. Það höfum við fyrir augunum. Það sjáum við að það frelsi hafa menn fengið. En það frelsi sem felst í efnalegu sjálfstæði hvers einasta einstaklings, það skilja þeir ekki. Sannleikurinn er vitaskuld sá, að án efnahagslegs sjálfstæðis er enginn frjáls. Og það er fyrir því frelsi, frelsi til efnahagslegs sjálfstæðis, sem fólkið í landinu er nú að berjast. Ríkisstj. er búin að skipta landsmönnum upp í tvær þjóðir, hinn mikla fjölda sem berst í bökkum og verður sífellt fátækari og á sífellt erfiðara með að láta endana ná saman, og hina, sem græða á tá og fingri, oft í skjóli skattsvika. Þetta höfum við fyrir augunum. Við höfum lúxuskerrurnar fyrir augunum eins og ég minntist á hér áðan. En við höfum líka séð milljónahallirnar sem reistar eru fyrir milliliðagróðann. Og það er þetta misrétti sem er það vandamál sem við okkur blasir fyrst og fremst í íslensku þjóðfélagi. Þetta er það verkefni sem menn verða að taka á. Almenningur mun ekki una því, fólkið í landinu unir því ekki að lifa við þessa misskiptingu. En með því að stemma stigu við þessum peningamokstri, með því að stemma stigu við þessum ofsagróða og þeim innflutningi, sem honum fylgir, þá má færa fjármuni til, þá má færa fjármuni til launafólks. Og því getur enginn haldið fram að slík tilfærsla eigi að þýða verðbólgu. Enginn hagfræðingur, enginn maður getur haldið því fram.

Með sama hætti er vitaskuld rétt að draga úr óþarfa fjárfestingu milliliðanna og ríkisins, þessari fjárfestingu sem við höfum fyrir augunum, og færa þannig til og skapa svigrúm til þess að bæta hag launafólksins. Það skapar heldur enga verðbólgu, ekki nokkra einustu verðbólgu. Það þarf enginn að segja og það er augljóst.

Auðvitað ætti ríkisstj. að vera búin að snúa sér að þessum verkefnum fyrir löngu. Við Alþfl.-menn bentum ríkisstj. á það strax fyrir ári síðan að þetta væru þau verkefni sem hún yrði að snúa sér að. Og við vöruðum hana við því að feta þá braut sem hún var að feta og láta þetta ógert. Við sögðum: Það mun þýða ógöngur og þjáningar. Nú er það komið á daginn. Við sögðum: Launafólk getur ekki þolað svona stefnu til lengdar. Nú er það komið á daginn.

Þessi ríkisstj. sem við búum við, þessi ríkisstj. Steingríms Hermannssonar er greinilega ekki þannig sinnuð. Hún er nefnilega ekki ríkisstj. launafólksins. Hún er greinilega ríkisstj. forréttindahópanna, forréttindahópanna sem mata krókinn. Það er það sem er kjarni málsins. Þess vegna kann hún engin önnur ráð en að skerða kjörin. Þess vegna hefði mönnum í rauninni ekki átt að koma á óvart hver viðbrögð ríkisstj. urðu við launa- og kjarakröfum af hálfu opinberra starfsmanna. Menn töluðu um að þetta væru klaufaleg viðbrögð hjá ýmsum ráðh. í ríkisstj. En sannleikurinn er sá að þetta var í rauninni bara stefna ríkisstj. sem mennirnir voru að túlka. Þessi klaufalegu viðbrögð, sem menn töluðu um að væru, voru í rauninni í samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. hafði markað, í samræmi við þá stefnu sem peningamagnspostularnir höfðu kokkað ríkisstj. Það var nefnilega ekki bara Albert Guðmundsson sem gaf þessar yfirlýsingar. Það var líka t.d. hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl. Hann tilkynnti þjóðinni með blessun og samþykki hæstv. forsrh., sem sat við hans hlið, að fólkið yrði enn að herða sultarólina. Kjörin ættu ekki að batna, heldur mundu þau frekar rýrna. Og það var þessi sami þm., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., sem tilkynnti þjóðinni að ef þessi að hans dómi óhóflega háa sáttatillaga, sem menn kannast við, yrði samþykkt færi þjóðfélagið nánast á hausinn á stundinni. Það mundi þýða hrun, það mundi þýða atvinnuleysi og óðaverðbólgu.

Hvað var verið að gera? Það var verið að framfylgja stefnu ríkisstj. En það var verið að gera meira. Það var verið að reyna að hræða fólkið í landinu til hlýðni og undirgefni undir stefnu ríkisstj. um að halda niðri kjörunum. Það er það sem var verið að gera. En það tókst ekki, einfaldlega af þeirri ástæðu að menn sáu misréttið í kringum sig, sáu að þegar þeir ættu tæpast fyrir salti í grautinn þá gæti ekki verið eðlilegt og rétt að gróðinn hlæðist upp á öðrum sviðum. sá maður sem á í erfiðleikum með að sjá heimili sínu farborða verður ekki blekktur til þess að horfa upp á algjört gjaldþrot fjölskyldu sinnar.

Ef við lítum áfram yfir þennan feril, þá var það merkilegt og athyglisvert að þegar sáttatillögunni hafði verið hafnað tók ríkisstj. þá ákvörðun að borga ekki út laun. Þá birtist stefnan aftur í rauninni berskjölduð. Það var meiningin að kúga fólk. En með þessu var ríkisstj. líka að segja: Það skal verða verkfall. Ríkisstj. sagði: Við borgum ekki út laun þann fyrsta. Í því fólst yfirlýsing ríkisstj. um að það skyldi verða verkfall. Hún vildi ekki nota dagana fram að því að verkfallið skylli á, frá fyrsta degi mánaðarins til hins þriðja, til þess að reyna að semja. Nei, hún var búin að gera upp hug sinn. Tímann átti ekki að nota til þess að reyna að semja, heldur skyldi verða verkfall. Það var í raun ákvörðun ríkisstj .

Þegar svo verkfallið var skollið á mætti ríkisstj. berhent og skoðanalaus hjá ríkissáttasemjara. Hún hafði þá og hún hefur nánast hingað til ekkert haft til málanna að leggja. Og það sem meira er: hún hefur notað hvert einasta tækifæri, sem hún gat fundið, til þess að stökkva frá samningaborðinu. Þetta sýnir okkur bara eitt. Það sýnir okkur það eitt að ríkisstj. vill hafa verkfall og ríkisstj. vill tefja úrlausn málsins. Hún vill lengja verkfallið. Úr því að ekki tókst að hræða launafólk til hlýðni með yfirlýsingum Þorsteins Pálssonar og fleiri, þá á að reyna að svelta það til hlýðni. Það á að reyna að brjóta launafólk niður með því að hafa verkfallið eins langt og mögulegt er.

En þetta er um leið árás á launþegahreyfinguna í landinu. Við vitum að frjálshyggjupostular eins og Hayek og Friedman og margir fleiri telja samtök launafólks af hinu illa og vilja koma þeim fyrir kattarnef. En það er nýtt fyrir okkur að þau viðhorf ráði ferðinni í ríkisstj. á Íslandi. Samt verður ekki annað séð af staðreyndum þessa máls. Og þetta gerist undir forsæti þess flokks, Framsfl., sem á tyllidögum a.m.k. vill kenna sig við félagshyggju og samvinnu. Það er greinilegt að postular peningamagnskenningarinnar hafa ekki einungis náð undirtökunum í Sjálfstfl., heldur lætur Framsfl. það annaðhvort gott heita, nema þá ef vera skyldi að hann sé búinn að tileinka sér þessar kenningar líka.

Hafi einhver verið í vafa um það hvers konar ríkisstj. við byggjum við núna þá er það nú fyllilega ljóst. Þetta er hreinræktuð hægri stjórn, yst á hægra kanti íslenskra stjórnmála. Við skulum líta á feril ríkisstj. Hún byrjaði á því að skerða kjörin og afnema samningsrétt. Þeir sögðust gera þetta til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálum. En það náðist aldrei neitt jafnvægi. Næstu aðgerðir ríkisstj. þar á eftir voru að ráðast gegn þeirri velferð sem Alþfl. hafði forustu um að byggð yrði hér upp, en allir flokkar hafa tekið þátt í á undanförnum árum og áratugum. Þegar kom að því að spara á vegum ríkisins fann ríkisstj. það eitt til ráða að ráðast gegn sjúkum, ellilífeyrisþegum, börnum. Þarna átti að spara. Það var búið að segja þjóðinni að hún hefði lifað um efni fram. En var það í því að mennta börnin okkar sem við höfðum lifað um efni fram? Var það í því að ellilífeyrisþegar lifðu í vellystingum praktuglega sem við höfðum lifað um efni fram? Var það í því að sjúklingar þyrftu ekki að greiða nægilega mikið fyrir lyfin sín sem við höfðum lifað um efni fram? Sú var skoðun ríkisstj. Hún réðst á þessa hópa. Hún réðst í að brjóta niður þá velferð sem menn hafa unnið að því að byggja hér upp á undanförnum áratugum.

Gjald fyrir læknisvitjun var hækkað um 200–300%. Sama gilti varðandi lyfin. Á meðan matvæli hækkuðu allt upp í 80% hækkaði grunnlífeyrir ellilífeyrisþega einungis um 14%. Og kaupmáttur ellilífeyris hefur ekki verið svo lágur svo lengi sem skrár ná yfir. Þær ná til 1971.

Námslán voru skert. Jöfn aðstaða til menntunar skipti ekki lengur máli. Og það var ráðist gegn hinu almenna skólakerfi. Það var skorið niður og gerð tilraun til að skera það enn þá frekar niður. Í húsnæðismálunum, húsnæðislánunum var nákvæmlega það sama uppi á teningnum. Hið almenna húsnæðislánakerfi hefur verið lamað. Umsóknir frá því í jan. til mars á þessu ári verða ekki afgreiddar fyrr en á næsta ári. Það er átta mánaða bið eftir nýbyggingarláni. Svona er ástandið í húsnæðismálunum.

Svona getum við rakið hvern félagslega þáttinn á fætur öðrum og það blasir við hver stefna ríkisstj. er. En vextir voru hækkaðir upp úr öllu valdi. Það var auðvitað nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með hæstu raunvexti í heimi. Og það var „tímamótaaðgerð“ eins og menn muna. Sú tímamótaaðgerð hafði þær afleiðingar fyrst og fremst að bönkunum var lokað. Skattar voru líka hækkaðir og þyngdir — á einstaklingum, af því að kaupmátturinn hjá þeim var auðvitað allt of mikill að dómi ríkisstj. En þeir voru lækkaðir á fyrirtækjum og atvinnurekstri, stórlækkaðir. Þannig kom miskunnarleysi ríkisstj. gagnvart fólkinu í landinu fram í hverju málinu á fætur öðru, og átti sér í rauninni ekki nein takmörk, á meðan milliliðirnir máttu græða. Það voru fluttir stórkostlegir fjármunir frá fólkinu, frá launafólkinu, yfir til braskaranna og atvinnurekstrarins, en ekki til grundvallaratvinnuveganna eins og sjávarútvegsins sem mátti halda áfram að vera á hausnum. Og núna þessa dagana, seinustu viku og rúmlega það, hefur svo komið í ljós í kjarabaráttu launþega að ríkisstj. leggur ofurkapp á að kjör launafólks batni ekki. En hún gerir meira. Ríkisstj. leitast við að draga verkfall BSRB á langinn og hefur augljóslega að markmiði að brjóta BSRB á bak aftur. Takmarkið virðist vera að lama launþegahreyfinguna. BSRB stendur í eldlínunni en röðin getur komið að öðrum launþegahreyfingum næst.

Fyrst var unnið að því að brjóta niður þá félagsmálastefnu og samhyggju sem einkennir velferðarþjóðfélag okkar. Nú eru samtök launafólks í skotlínunni. Samtök launafólks finna þetta vitaskuld og þau finna að nú er ekki einungis tekist á um kaup og kjör, heldur einnig um starfsgrundvöll og jafnvel tilveru verkalýðsfélaganna. Menn finna að sú barátta sem þeir standa í á vegum BSRB varðar ekki einungis opinbera starfsmenn, heldur hvern einasta launamann í landinu. Þessi tilraun ríkisins til að brjóta hin frjálsu samtök launafólks á bak aftur má ekki og mun ekki takast. Íslendingar verða ekki sveltir til hlýðni. Það get ég sagt hæstv. ríkisstj.

Sú kjaradeila sem nú er uppi er mjög alvarlegt mál og ég hef gert hana hér nokkuð að umtalsefni. En hitt er ekki síður alvarlegt að ráðh. í ríkisstj. hafa lagt blessun sína yfir lögbrot. Ég á þar vitaskuld við þær sjóræningjastöðvar, sem gjarnan kalla sig frjálsar útvarpsstöðvar eða útvarp þjóðarinnar eða eitthvað álíka fallegt, sem hafa verið starfræktar og eru greinilega hreint lögbrot. Í þessu sambandi skiptir engu máli þótt ég hafi þá skoðun og Alþfl. hafi þá skoðun að það eigi að rýmka um og auka fjölbreytni og möguleika í þessum efnum. Það eru lög í landinu og lögin á að halda. Því ef við byggjum ekki þetta land á lögum þá byggjum við það ekki á neinu.

Það er skylda ráðh. og ríkisstj. að sjá til þess að lögunum í landinu sé framfylgt. Þeir gerðu þvert á móti. Hæstv. fjmrh. með aðstoð borgarstjórans í Reykjavík og framkvæmdastjóra Sjálfstfl. kom í veg fyrir það að verðir laganna gætu fengið að gegna skyldustörfum sínum þegar þeir komu til Valhallar Sjálfstfl., útmiðaðrar úrvarpsstöðvar. Annar ráðh., hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir, sagði aðspurð að það væru svo mörg lögbrotin framin þessa dagana að það yrði bara að gera upp dæmið á eftir. Hæstv. menntmrh. var að gera því skóna að eitt lögbrot réttlætti annað. Hvers vegna mega þá ekki allir aka fullir úr því svo margir gera það? Hvers vegna megum við ekki hafa ólöglegar áfengisútsölur? Hvers vegna er það eitthvert mál að Pétur steli af Guðmundi? Má þá ekki Guðmundur stela af Jóni og Jón af Þórði og svo jöfnum við allt á eftir?

Ef svona á að stjórna landinu þá er augljóst að hér horfir til hreinna vandræða. Það er hlutverk og skylda ráðh. að framfylgja lögunum í landinu. Og dómskerfið í landinu hefur í raun og sannleika líka brugðist að mínum dómi. Ég fæ ekki skilið hvernig á því stendur að ef út kemur blað eins og Spegillinn sé hægt að stöðva það á einum eftirmiðdegi, en ef upp koma ólöglegar útvarpsstöðvar þá skuli það taka a.m.k. viku. En það langalvarlegasta í þessu öllu saman er vitaskuld það að ráðh. skuli vera samsekir í þessu máli. Ég er næsta viss um það að í engu landi öðru mundi það líðast að ráðh. höguðu sér með þessum hætti.

Sannleikurinn er líka sá að bæði með framkomu þessara tveggja ráðh. og með því einnig að aðrir ráðh., þ. á m. hæstv. forsrh., hafa lagt þessum stöðvum, ólöglegu sjóræningjastöðvum, til efni í viðtöl hafa þeir gerst samsekir. Þá erum við Íslendingar orðnir að athlægi meðal frændþjóða okkar.

Menn tala hér fjálglega um íslenska menningu, íslenska sögu, réttarríkið, að hér sé elsta þing í veröldinni, en svo fremja menn þvílíka smán. Þá finnst mér að þessi söngur þeirra sé orðinn hjóm, þeir hafa lítillækkað þjóðina.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að hann vænti þess að menn tækju höndum saman til að ná sáttum í því ástandi sem nú varir á Íslandi. Ég skora á hæstv. forsrh. að hafa sáttatón í ríkisstj., því það er ríkisstj. sem hefur efnt til þessara árekstra og þess ástands sem hér ríkir.