19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það hefur ýmislegt komið hér fram í þessum umr. þó ekki séu þær orðnar ýkja langar þegar menn hafa í huga hversu hér er stórt og viðamikið mál á ferðinni og hversu það kemur til með að snerta marga. Það eru nokkur atriði sem ég vil gjarnan fara um nokkrum orðum.

Það er í fyrsta lagi það sem Stefán Guðmundsson, hv. 5. þm. Norðurl. v. var hér að ræða, nokkur atriði. Hv. þm. fullyrti að menn sættu sig nú betur við kvótann en áður. Var það svo að skilja á afstöðu þingfulltrúa á Fiskifélagsþingi í haust að menn sættu sig þar betur við kvótann en var fyrir um ári síðan? Ég held síður en svo. Ég held einmitt að fulltrúar hagsmunaaðila á þeim vettvangi hafi verið miklu andvígari kvótanum í því formi sem hann hefur verið og gert er ráð fyrir að hann eigi að vera en menn voru á s.l. hausti. Ég held að það sé þvert á móti meiri andstaða hjá hagsmunaaðilum nú gagnvart þessu stjórnunarkerfi, þessari miðstýringu, en áður var. Það fer ekki á milli mála að það er aukin óánægja með stjórnunaraðferðir af því tagi sem hér er um að ræða.

Hv. þm. vék líka nokkrum orðum að því sem ég sagði um skoðanakönnunina sem hér hefur verið gerð að umræðuefni. Ég velti m.a. upp þeirri spurningu hvernig að þessari könnun hefði verið staðið, hvernig þau gögn, sem út voru send í formi spurninga, voru úr garði gerð. Er hægt að sjá á svörunum frá hvaða skipum eða skipstjórum þau koma? Er hægt að lesa það út úr niðurstöðum hver það er sem hefur þessa eða hina afstöðuna til málsins? Um það vil ég ekkert fullyrða en ef svo er þá er það að mínu viti meingallað fyrirkomulag á skoðanakönnun að hægt sé að lesa það út hvaða skoðun hver einstaklingur hefur á viðkomandi máli.

Ég vil vegna ummæla hæstv. sjútvrh. í þessum efnum láta það koma hér fram að ekki mæli ég sérstaklega með því að DV verði látið framkvæma skoðanakönnun af þessu tagi. En mér finnst það ankannalegt að í þessu tilfelli sjútvrn. beiti sér fyrir skoðanakönnun um sitt eigið ágæti í framkvæmd þessara mála. Mér finnst það ankannalegt og tel það óeðlilegt að slíkt sé gert. (BÍG: Sjálfsrýni?) Já.

Þá nefndi hv. þm. Stefán Guðmundsson að ég hefði verið með allillskeyttar aðdróttanir að hæstv. sjútvrh. Ég held að bæði í umr. hér fyrir um ári síðan og alveg eins nú hafi ég orðað það svo við 1. umr. þessa máls að ég vildi ekki að jafngóður drengur og hæstv. sjútvrh. færi með slíkt ægivald sem hann er hér að óska eftir. Það er ekki aldeilis að það sé verið með illar aðdróttanir að hæstv. ráðh. Það er miklu frekar að ég ber góðar taugar til hæstv. ráðh. og vil honum nánast ekki svo illt að honum sé fengið þetta ægivald í hendur til þess einum að stjórna bæði fiskveiðum og fiskvinnslu í landinu. Hér er því um einhvern misskilning hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að ræða.

Hv. þm. spurði líka um hvað við værum hér að tala sem vildum taka út úr þessari miðstýringu suma þætti eins og handfæraveiðar og línuveiðar, hvort við værum að leggja til að öllum loðnuflotanum eins og hann legði sig væri hleypt á þorskveiðar. Hver er að tala um slíkt? Hver hefur lagt það til hér? Fyrir öðru eins hefur nú verið séð í þessu kerfi og því að loðnuflotanum væri ekki stefnt á þorskveiðar. Hér er verið að tala um þann stabíla flota sem veiðar stundar með linu og handfæri. Hér er verið að tala um þá sjómenn sem á undanförnum árum og árinu í ár hafa stundað handfæraveiðar og línuveiðar og þau skip sem þar eiga hlut að máli. Menn eiga ekki að vera með útúrsnúninga, getgátur, gera mönnum upp orð eða hugsanir. Þeir sem slíkt gera eru í rökþrotum og finna vart útgönguleið úr eigin vanda og eigin klemmu nema því aðeins að gera það þá með þessum hætti. Ég hef ekki heyrt nokkurn hv. þm. hér í umr. ýja að því, hvað þá heldur meira, að hér sé verið að tala um að láta loðnuflotann á þorskveiðar.

Hinu get ég verið sammála sem hv. þm. kom einnig inn á — ég held að hann hafi orðað það eitthvað efnislega á þann veg að ef einhver á að fá aukningu í afla þá á það að vera hinn stabíli og góði sjómaður. Ég er sammála þessu 100% og það er það sem ég er að tala hér fyrir. Það er það sem ég er að leggja hér til, að hinn stabíli og góði sjómaður fái aukinn afla og hið stabíla og góða fiskverkunarfólk í landi og fiskvinnslustöðvar hafi tækifæri til að vinna þetta hráefni og gera úr því verðmæti sem skilar sér betur fyrir þjóðarbúið en ef það væri unnið einhvers staðar annars staðar á óhagstæðari stöðum. Þess vegna ætti hv. þm. Stefán Guðmundsson að vera sammála mér í þessari túlkun. En mér sýnist að afstaða hv. þm., eins og raunar fleiri hv. þm. stjórnarliðsins sem innst inni virðast vera andvígir þessu kvótakerfi en einhverra hluta vegna eru neyddir til að greiða því atkvæði eða styðja það, gangi þvert á þau sjónarmið sem ég er hér um að tala. Ég heyri ekki annað í málflutningi að því er þetta varðar, hv. þm. Stefán Guðmundsson, en að við séum sammála. Þess vegna ættirðu að styðja minn málflutning og greiða atkvæði með því sem hér er lagt til að rýmka, auk möguleika hins stabíla og góða sjómanns og hins stabíla og góða vinnukrafts sem er í fiskvinnsluverunum á þeim svæðum sem hér eiga hlut að máli. Svona einfalt er þetta ef menn á annað borð vilja skoða málið, í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja. Það er því með öllu óeðlilegt að tala í þeim dúr sem hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði, að verulegu leyti sammála okkur sem höfum talað fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til en greiða svo atkvæði gegn því hugsanlega — ég segi hugsanlega, vonandi ekki.

Það var margt athyglisvert — og ég segi enn og aftur, athyglisvert — sem kom fram í hinni glögghugsuðu ræðu hv. 5. þm. Vestf. í kvöld eins og hinni fyrri sem hann hélt við 1. umr. þessa máls. Hann spurði og raunar fullyrti: Hvað er búið að setja marga útgerðarmenn eða útgerðarfyrirtæki á hausinn með öllum þessum vinnubrögðum? Það er eðlilegt að jafn glöggur maður og hv. 5. þm. Vestf. spyrji um svona hluti og nánast fullyrði að áframhald á stjórnun, eins og hér um ræðir, verði til þess að setja enn fleiri útgerðaraðila á hausinn en þegar er orðið og er þó nóg um.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson líkti þessari stefnu og stjórnun við það að hann legði til að kísilmálmverksmiðja yrði reist á Suðureyri við Súgandafjörð eða á Tálknafirði á fjörðum vestur. Hann fullyrti eðlilega að þm. í hv. deild mundu telja það vægast sagt hálfbrogað sjónarmið af þessu tagi. Þetta er góð samlíking við þá stjórnun, við þá miðstýringu, við það ægivald ofstjórnar sem við erum hér að tala um í kvótakerfi. Ég tek mjög undir þau sjónarmið hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Það á að haga málum í þessum efnum, ekki hvað síst í þessum efnum að á þeim svæðum, þar sem er ódýrast og hagkvæmast að sækja sjóinn og vinna það hráefni sem þar er um að ræða, á að búa þannig að hlutunum að það sé gerlegt og þau eigi að njóta forgangs.

Það er svo út af fyrir sig skiljanlegt hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að fara ekki í hart gegn samflokksmanni sínum sem ráðh. eins og hæstv. sjútvrh. Þó finnst mér að hv. þm. hafi staðið þokkalega vel í stykkinu með það að halda á sínu máli og sinni skoðun og sinni sannfæringu gagnvart ægivaldi flokksins sem hann, eins og einhver hv. þm. orðaði það hér áðan, þó telst enn til.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, þorski á Íslandsmiðum verður ekki útrýmt með veiðiskap á króka. Þar hygg ég að þm. hafi kannske fyrst og fremst átt við handfæraveiðar og raunar er hægt að flokka línuveiðar þar undir líka.

Ég gat ekki annað heyrt en að hæstv. sjútvrh. hefði misskilið tilgang þeirra tillagna sem hér eru til umr. til breytinga á frv. Hafi ég tekið rétt eftir skildist mér að hæstv. ráðh. talaði um að við legðum hér til að aðilar á þessum stöðum fengju minna aflamagn en þeir hefðu búið við á árinu í ár með því að auka það um 15–20% frá þeim meginreglum sem koma til með að gilda um kvótaskiptinguna. Hér er verið að leggja til umframveiðar, að sjálfsögðu aukið aflamagn, meira magn úr sjónum sem nemur þessu, til þeirra staða sem hér eiga hlut að máli.

Það er því víðs fjarri, a.m.k. að mínum skilningi, að þessi brtt. okkar sé um það að minnka aflamagn þessara skipa frá þessum svæðum. Þar gætir verulegs misskilnings af hálfu hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. veit það gerla að um það eru mjög skiptar skoðanir hvað menn telja skynsamlegt að veiða mikið af þorski á næsta ári. Þessi till. okkar er um það að bæta 15–20% ofan á það sem menn eru nú að tala um og að láta það aflamagn koma á þau svæði sem þurfa fyrst og fremst á því að halda og eru þannig í sveit sett að mikill meiri hluti vinnandi fólks á þessum stöðum byggir afkomu sína á þessari atvinnugrein. Um það snýst málið.

Ég geri ráð fyrir því að í velflestum sjávarplássum eða byggðarlögum úti á landsbyggðinni þar sem útgerð og fiskvinnsla er stunduð sé vinnuaflsprósentan í þeirri grein talsvert langt fyrir ofan það sem við erum hér að tala um, 35%. Það kæmi mér ekki á óvart að á mörgum stöðum væri þessi prósenta vinnandi fólks við fiskveiðar og fiskvinnslu a.m.k. 50–60% og þaðan af meira. Það er því ekkert lítið í húfi fyrir það fólk sem þessa staði byggir að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða þegar verið er að tala um stjórnun í þessum mikilvæga málaflokki og þessari mikilvægu atvinnugrein á komandi ári. Ég vil hér með enn og aftur ítreka það að hér er verið að leggja til aukningu á aflamagni og hún á að skila sér á þá staði sem fyrst og fremst þurfa á því að halda, þannig að það fari ekkert á milli mála.

Mér heyrðist á hæstv. sjútvrh. að það væri hans álit — og þá byggt á skýrslum frá félmrn., vinnumáladeild þess væntanlega — að lítið sem ekkert atvinnuleysi hefði verið á landinu á yfirstandandi ári. (Sjútvrh.: Á Vestfjörðum.) Á Vestfjörðum sérstaklega já. Það kann að vera rétt að hluta til hjá hæstv. ráðh., hann undanskildi þó held ég Patreksfjörð. Ég hygg að þó að ekki hafi verið um beint atvinnuleysi að ræða hafi takmörkun veiðanna orðið til að draga verulega - ég segi verulega — úr tekjumöguleikum ekki síst sjómanna, fiskvinnslufólks og möguleikum fyrirtækjanna, sem hér eiga hlut að máli, til að standa undir eðlilegum þætti í rekstrinum, sem er launakostnaðurinn og kaupið. Fyrir utan hitt að þegar þetta allt kemur saman hefur þessi þáttur ekki hvað síst auk annarra þátta stjórnarstefnunnar orðið til þess að hrekja fólk svo hundruðum skiptir frá þessum byggðarlögum, á það svæði sem við erum nú staddir á.

Og það er kannske ekki sísti þátturinn í þessu máli, hvert stjórnarstefnan og þá ekki síst til hvers sú stefna í fiskveiðum og fiskvinnslu, sem innleidd var á s.l. hausti fyrir um ári síðan og hér á að endurnýja, er að leiða með gífurlegum fólksflutningum frá sjávarplássunum á landsbyggðinni á þéttbýlið hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Ég trúi því ekki að það sé ekki áhyggjuefni stjórnvalda hvernig þessi mál standa nú, hinir gífurlegu fólksflutningar utan frá sjávarplássunum hingað á þetta svæði sem þýða bara eitt og sér hraðminnkandi þjóðartekjur og gjaldeyrisöflun, því að svo augljóst má það vera öllum að fækkun í framleiðslugreinunum, framleiðsluþáttunum, fjölgun í þjónustunni, leiðir til minnkandi þjóðartekna, minnkandi framleiðslu.

Þó svo að einhverjir telji að á þessu ári hafi Vestfirðir sloppið er ástæða til að líta til fleiri átta. Hvað gerðist ekki á Snæfellsnesinu á s.l. vori. Þess voru dæmi að bátar voru búnir með kvótann að ég hygg í apríl, byrjun maí og þess var líka dæmi vestur á fjörðum. Ekki getur þó hæstv. sjútvrh. með þessum sjónarmiðum sínum og tali haldið því fram að ég sé hér fyrst og fremst að hugsa um Vestfirði eins og mér þó fannst æði oft bera á í máli hæstv. ráðh. Hér er um sameiginlegt hagsmunamál allra þeirra staða á landinu að ræða sem byggja afkomu sína að verulegu leyti — tala nú ekki um öllu — á þessari atvinnugrein. Þar skiptir ekki meginmáli hvort um er að ræða Vestfirði, Austfirði — (Gripið fram í.) Það er þá kominn tími til fyrir hæstv. ráðh. að honum fari að detta eitthvað skynsamlegt í hug og hefði mátt vera fyrr.

Ég tók mál hæstv. sjútvrh. svo hér áðan að það væri yfirlýsing af hans hálfu, að ekki kæmi til greina að hafa handfæraveiðar og línuveiðar utan kvóta. En ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðh. og vil gjarnan fá um það upplýsingar og ég tel það nánast skyldu hæstv. ráðh. áður en honum er fengið þetta ægivald sem hann er eftir að óska — ég vil ekki láta hann hafa það en hann trúlega fær það þrátt fyrir það — að upplýsa þingheim um það hvort hann sem endanlega ræður ætlar að taka tillit til sameiginlegra óska allra nm. í sjútvn. Ed. um að gefa línuveiði frjálsa að 50% þann tiltekna tíma sem þar er um að ræða.

Mér finnst það nánast skylda hæstv. ráðh. að upplýsa okkur um það hvaða meiningar hann hefur í þessu. Það má vel vera að það komi einhver viljayfirlýsing frá hæstv. ráðh. um að slaka hér á klónni þó ekki verði tekið skrefið allt í einu. Þá væri meira að segja hugsanlegt að við gætum að því leytinu átt samleið ég og hæstv. ráðh. Því að hvað sem líður því að þessi mál verði borin undir hagsmunaaðila, sjútvn. beggja deilda þingsins, þá er það eigi að síður ráðh. sem endanlega ákvarðar. Því skulu menn ekki gleyma og þess vegna er eðlilegt að hann sé spurður: Hver er hans vilji? Hæstv. ráðh. er búinn að tala hér tvisvar í kvöld og það liggur ekkert fyrir af hans hálfu, a.m.k. hef ég ekki skilið hans mál neitt á þann veg að hann hyggist breyta hér til til rýmkunar.

Þetta er nauðsynlegt að mínu viti að fá fram. Mér er það alveg ljóst að það er kannske til of mikils mælst að hæstv. ráðh. geti fallist á að taka svona stórt skref í einu frá stýringunni, lítið skref frá þessari heljarstjórnun hæstv. ráðh. væri í áttina til hins betra. Hæstv. ráðh. sagði áðan varðandi t.d. trillubátana, sem menn hafa hér mikið talað um eðlilega, að þeir yrðu að búa við einhverja stjórnun. Hvaða stjórnun, hváð þýða þessi orð? Ég verð að segja að mér finnst það nánast móðgun við okkur, sem hér sitjum og viljum taka þátt í umr. um þetta mál og hlýða á sjónarmið annarra, ef hæstv. ráðh. fæst með engu móti til að tjá sig um hvað hann hyggst fyrir í þessum efnum. Ég vil bæta því við og vekja athygli hæstv. forseta á því að mér finnst það líka móðgun við hæstv. sjútvrh. að enginn af hans samráðherrum skuli treysta sér til að vera við umr. um jafn stórt og mikilvægt mál og þetta og hversu fáir stjórnarliðar treysta sér til að hlýða á málflutning hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Það gengur einn í salinn.) Já, það er rétt þá að leiðrétta, hæstv. félmrh. er hér viðstaddur. (AS: (Búinn að vera í allt kvöld og iðnrh. líka.) Þá verður það leiðrétt hér. Hæstv. iðnrh. hefur nú ekki sést hér síðustu stundirnar en kannske er hann í húsinu. (AS: Hann heyrir nú í þér.) Það er ekki víst að hann heyri í ráðh. Ég tek undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram í kvöld og raunar áður oft, að það var mikil ólga í þau þrjú skipti, ef ég man rétt, sem veiðar smábáta voru stöðvaðar. Og ég held að menn komist hjá ýmsum óþægindum, tala nú ekki um að menn geti losað sig úr viðjum þessarar miðstýringar að einhverju leyti, með því að slaka a.m.k. á að því er varðar trillukarlana eins og menn orða það hér margir.

Ég er ekki hér, eins og mér fannst hv. þm. Stefán Guðmundsson vera að ýja að, að tala um þá sem eru með þetta upp á sport, á sportbátum. Það er hugsanlegt að mínu viti að setja einvörðungu kvóta á þá báta, sportbátana, hafa hina fyrir utan. Það er vel athugandi og væri trúlega skynsamlegt í öllu þessu stjórnunarfargani sem menn vilja kalla yfir þessa atvinnugrein.

Mér finnst að hæstv. ráðh. skýli sér allt of oft á bak við hina svokölluðu ráðgjafarnefnd. Vissulega er það æskilegt í allflestum málum að leita til sérfróðra aðila, ekki síst í svo mikilvægu máli sem hér um ræðir. En það er auðvitað lágmarkskrafa að það sé ekki hvað síst leitað álits þingsins sjálfs og við fáum einhverja vitneskju um hvað hæstv. ráðh. hyggst fyrir áður en endanlega honum er fengið í vald það sem hann er hér að óska eftir. Mér þykir slæmt ef hv. þm. Stefán Guðmundsson er farinn úr salnum því að — (Gripið fram í.) Já, ekki er ég undrandi á því. Það var út af þeim ummælum sem hv. þm. viðhafði þegar hann kallaði fram í varðandi drögin að reglugerðinni. Mér finnst alveg undarlegt ef þau hafa verið ákvörðuð sem trúnaðarmál og mættu helst ekki fara út fyrir sjávarútvegsnefndir deildanna, þm. utan þeirra nefnda hér í þinginu mættu helst ekki sjá slík drög að reglugerð. Hvað er verið að fela? Hvað er í þessum drögum að reglugerð sem við hinir óbreyttu þm. megum ekki sjá, sem erum fyrir utan sjávarútvegsnefndirnar? Ég vildi gjarnan vita það allt. Kannske hefði maður ekki þurft að spyrja hæstv. ráðh. svo margra spurninga, hefði drögum að slíkri reglugerð t.d. verið dreift meðal þm. Ég hef enga trú á því að hér sé um slík leyndarmál að ræða að ekki sé hættulaust með öllu að leyfa okkur, sem erum fyrir utan sjútvn., að sjá þetta.

Ég ítreka síðan, herra forseti, að mér er það óskiljanlegt með öllu hvað hæstv. ráðh. sækir það stíft að fá það ægivald ofstjórnar sem hér er búið að innleiða og á að endurnýja á komandi ári. Og ég ítreka enn og aftur, það er jafn óskiljanlegt í mínum huga og hið fyrra, að Sjálfstfl. skuli vera í fararbroddi fyrir slíkri ofstjórn og miðstýringu. Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta að þm. þess flokks hefðu vart vatni haldið í ákafanum yfir því að veita ráðh. úr Framsfl. slíkt vald. Öðruvísi mér áður brá, mætti segja um þann þátt málsins og verður hann nánast aldrei skiljanlegur í ljósi þess hvernig sá flokkur Sjálfstfl., var uppbyggður og í ljósi þeirrar stefnu sem hann hafði, þó að núv. formaður flokksins, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, segi að sú stefna sé sú sama og hún hafi verið frá upphafi. Trúi hver sem trúa vill.