19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. mjög, en vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég gleymdi þegar ég talaði fyrr í kvöld.

Hæstv. sjútvrh. las upp úr atvinnuleysisskýrslum og þar kom fram að á Vestfjörðum hafði atvinnuástand verið gott skv. þeim gögnum. Þetta rengi ég ekki. Þar sem menn vinna 60 tíma á viku getur orðið um mikinn samdrátt að ræða áður en kemur að því að þeir vinni ekki 40 klst.

En það eru fleiri mælistikur á það atvinnuástand og þann efnahag sem ríkir en það hvort atvinnuleysisskýrslur beri þess vitni. Hvernig er ástandið með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum? Hver er staðan? Það er kyrrstaða í þeim málum. Aðeins örfá íbúðarhús eru í byggingu um alla Vestfirði.

En þetta á ekki einungis við um Vestfirði, heldur stóran hluta af landinu. Þó er ekki minna byggt í þessu landi en á árinu á undan. Hvað hefur gerst? Jú, vegna þeirrar ákvörðunar að fara ekki þá leið sem hæstv. sjútvrh. taldi rétt á haustmánuðum hefur skapast sú mismunun í þessu landi, það jafnvægisleysi, að landsbyggðin sem slík hefur verið stoppuð af. Það þurfti samræmda atvinnustefnu í uppbyggingu, en ekki að standa þannig að málum að kvótakerfið með sitt innbyggða atvinnuleysi réði hér ríkjum. Verði það framkvæmt eins á næsta ári mun það þýða það sama fyrir landsbyggð þessa lands.

Ég hygg að margt bendi til þess að óhætt sé að veiða meira á Íslandsmiðum á næsta ári og þar horfi ég mest á ástand sjávar. Hitinn í sjónum er 6–8° meiri fyrir vestan og norðan land en var þegar kaldast var. Hvaða áhrif hefur þetta? Lífið í sjónum er miklu meira.

Hér hefur verið talað um að ekki sé raunhæft að gefa handfæraveiðar frjálsar og línuveiði. Ég hygg nú samt að innan veggja sjútvrn. séu menn sem hafi hugleitt það í fullri alvöru hvort ekki væri einmitt skynsamlegt að gera slíkt. Og það er eitt af því sem komið hefur fram með kvótakerfið, að það nær ekki eins miklu að landi og þó var búið að ákveða að veiða af vissum fisktegundum.

Herra forseti. Ég ætla að vitna örlítið í Íslandssöguna. Það er búið að kenna það frá þeim tíma að við fengum sjálfstæði að ofstjórnin á einokunartímanum hafi verið að drepa niður alla dáð í þessu landi. Eitt af þeim dæmum sem þar hafa verið nánast skyldulesning var að Hólmfastur nokkur drýgði þann glæp að selja — ekki þeim kaupmanni sem hann var skyldugur til að selja fimm fiska. Hann seldi þá röngum aðila. En það er svo komið að þetta dæmi er úrelt. Rækjusjómenn á Vestfjörðum sitja uppi með sömu skylduna og Hólmfastur forðum, að þeim ber að selja ákveðnum aðila þessa rækju, hvort sem hann vill kaupa hana eða ekki og hvort sem hann er reiðubúinn að greiða hana á þeim tíma sem honum ber eða ekki. Það er þó hvergi tekið fram í Íslandssögunni að sá kaupmaður sem átti að kaupa af Hólmfasti hafi verið fráhverfur viðskiptunum.

En það sem er meira. Gæti svo farið að við mundum upplifa það á því herrans ári 1985 að við tækjum okkur til og dæmdum einhvern af afkomendum Hólmfasts fyrir að veiða fimm fiskum meira en hann mátti á Íslandsmiðum?

Og enn spyr ég: Eru trúaratriðin orðin svo sterk með stjórnunina að menn telji að náist ekki agi yfir trillukörlunum, þá sé vonlaust mál að halda stjórn í veiðum á Íslandi? Það er nú svo að hóf er best og ég hygg að það verði stutt í fráhvarfið frá því bænaskjalakerfi sem við höfum tekið upp og virðumst trúa á og til þess að menn hugleiði að auka aftur það frelsi svo að við förum ekki yfir mörkin miðað við það sem við vorum með á einokunartímanum.