19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja mikið umr. um þetta mál. Ég gerði grein fyrir minni afstöðu fyrr í umr. en eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram flyt ég hér brtt. ásamt hv. 5. þm. Austurl., till. sem er í anda þess sem mitt sjónarmið kom fram hér við fyrri umr. málsins.

Ég las einhvern tíma í viðtali sem haft var við hv. 11. landsk. þm. Egil Jónsson að ekki væri vanþörf á að gæta piltsins og átti þá við hæstv. iðnrh. Það má kannske segja að þessi tillöguflutningur okkar hv. 5. þm. Austurl. sé í líkum tilgangi, að reyna að tryggja að hæstv. iðnrh. fari ekki út af línunni enn frekar en orðið er til að ná fram því baráttumáli sínu, a.m.k. frá fyrri tíð, að reyna með einhverjum hætti að auka a.m.k. ekki muninn á orkuverðinu milli dreifbýlis og þess svæðis sem við erum á, heldur miklu frekar að minnka þann gífurlega mun sem er á milli þessara svæða.

Við fyrri umr. þessa máls kom m.a. fram af minni hálfu að það væri engin trygging fyrir því í frv. við lækkun verðjöfnunargjaldsins úr 19% í 16% að þeim tveim orkusölufyrirtækjum sem hér eiga hlut að máli og þessa njóta, annars vegar Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar Orkubúi Vestfjarða, verði bættur sá tekjumissir sem af þessu hlýst. Um það er ekki stafkrókur í frv. sjálfu. En hæstv. ráðh. lýsti því hér yfir við umr. að hann teldi að grg. túlkaði þetta fullkomlega. Þá var þess óskað af minni hálfu að sú hv. nefnd, sem málið fengi, tæki tillit til þessa sjónarmiðs hæstv. iðnrh. og setti þetta með brtt. inn í frv. sjálft. Við því var ekki orðið og hér er því borin fram brtt. til að tryggja að þessir tveir orkusöluaðilar beri ekki skarðan hlut frá borði við þá breytingu sem í frv. felst og auk þess að gæta þess að verðmunur á rafmagni vaxi ekki frá 1. des. 1984 á veitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í samanburði við gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Ég treysti því að hv. deild sé okkur sammála um að nauðsynlegt sé að taka af öll tvímæli að því er varðar þennan þátt málsins um lækkun verðjöfnunargjaldsins og að gæta hags þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli. Hér er í raun og veru verið að taka undir sjónarmið hæstv. iðnrh. í þessum efnum sem að vissu leyti, ef marka má yfirlýsingar hæstv. ráðh., ganga lengra en hér er gert ráð fyrir og eru víðtækari og fleiri, en ekki kannske ástæða á þessu stigi til að fara frekar út í þá sálma.

Ég vona að hv. þm. samþykki þessa brtt. vegna þess að það er nauðsynlegt að samhliða þessari lækkun verðjöfnunargjaldsins sé um leið tryggð fjárhagsleg staða þeirra fyrirtækja sem þessa hafa notið svo að fyrir fjárhag þeirra verði ekki verr séð en með fyrri gjaldstofnum þannig að þau beri ekki skarðan hlut frá borði.