18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skil vel áhuga allra þeirra sem vilja bæta forvarnarstarf á sviði heilbrigðisþjónustu.

Þegar kemur að einstökum þáttum forvarnarstarfs er okkur mikill vandi á höndum. Allt frá 1974 hefur verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu heilsugæslustöðva í landinu. Einnig hafa félagasamtök eins og Krabbameinsfélagið og Hjartavernd unnið mikið starf. Leghálsskoðun á vegum Krabbameinsfélagsins og sá árangur sem hún hefur skilað hefur vakið mikla athygli, heimsathygli.

Þegar kemur að hópskoðun almennt er það svo að á undanförnum árum hafa í ýmsum löndum verið settar fram hugmyndir um nokkra sjúkdóma sem mætti reyna að fyrirbyggja með slíkum skoðunum. Miklar umræður hafa orðið meðal fræðimanna um kosti og galla þessara skoðana. Hópskoðanir með brjóstamynd hafa ekki farið varhluta af þessari umræðu. Í niðurstöðu af hópvinnu, sem ýmsar rannsóknarstofnanir á sviði heilbrigðismála í Danmörku efndu til í árslok á s.l. ári og sagt er frá í ítarlegri skýrslu sem ég hef kynnt mér, kemur skýrt fram hversu flókin þessi mál eru. Þar segir m.a. í lauslegri þýðingu:

„Það eru ekki til öruggar sannanir fyrir því að greining krabbameins í brjósti á frumstigi með röntgenbrjóstaskoðun eða markvissri sjálfsskoðun lengi lífið. Í bandarískri rannsókn, HIP, sem hófst um miðjan sjöunda áratuginn var þó dregin sú ályktun að á ákveðnu tímabili eftir skoðun fækkaði dauðsföllum hjá konum eldri en 50 ára. Þessi bandaríska rannsókn var byggð á röntgenbrjóstaskoðun samfara klínískri skoðun. Líklega mun sænsk rannsókn, sem byggir á einni röntgenmynd í brjósti en án læknisskoðunar, geta veitt ákveðnari svör við spurningunni hvort röntgenbrjóstaskoðun auki líflíkur. Að öðru jöfnu mun kona lifa lengur eftir aðgerð á brjósti vegna krabbameins þeim mun minna sem æxlið er þegar aðgerð er gerð. Þetta skýrist hugsanlega af því að æxlið hefur þá enn ekki vaxið mjög lengi, þ.e. konan fær vitneskju um sjúkdóminn fyrr en ella. Hún lifir því lengur eftir aðgerðina án þess að sannað sé að ævilíkur hafi þess vegna aukist. Þetta þýðir í reynd að meta verður það aukna tímabil sem konan veit um sjúkdóminn með þar af leiðandi ótta og ugg um ótímabæran dauða vegna hans á móti hugsanlegum ávinningi af minni aðgerð en ella þyrfti.“

Af þessu og fleiru má það vera ljóst að enn er óunnið mikið rannsóknarstarf á sviði hópskoðana með brjóstamyndatöku. Ég er mjög fylgjandi því að hér sé haldið uppi rannsóknum á því hvernig fjármunum íslensku þjóðarinnar sé best varið, bæði til að fyrirbyggja sjúkdóma og einnig til þess að lækna þá. Mér er hins vegar ekki ljóst hvernig við eigum að fjármagna alla þá starfsemi sem við viljum halda hér gangandi. Sem dæmi langar mig að segja að Svíar ætla að af hverjum 1000 konum sem koma til hópskoðunar með einni brjóstamynd megi reikna með að taka þurfi aftur mynd af u.þ.b. 50 konum. Af þeim þurfi að gera ástungu ásamt frumusjárrannsókn á 25 konum og af þeim þarf síðan að leggja 12 á sjúkrahús til frekari rannsóknar. Af þeim sem lagðar eru á sjúkrahús má reikna með að hjá 7 finnist illkynja sjúkdómur. Sænskir útreikningar benda til að slík rannsókn með sjúkrahúsvistun og öðru sem henni fylgi kosti fyrir hvern hóp kvenna um 200 þús. sænskar kr.

Ég geri ráð fyrir að kostnaður hér yrði ekki minni og þar styðst ég við áætlanir sem ég óskaði eftir að yrðu gerðar. Niðurstaða þess er sú að reikna má með að 15 þús. skoðanir á ári muni kosta u.þ.b. 12 millj. ísl. kr. Þessu til viðbótar verður að segjast eins og er að enn skortir mikið á að aðstaða hér á landi til meðferðar þeirra sjúklinga sem þannig finnast með illkynja sjúkdóma sé eins og hún gerist best í nágrannalöndum okkar.

Ég hef lagt á það mikla áherslu að við gerum átak til að stuðla að bættri meðferð krabbameinssjúklinga. Það var gert við afgreiðslu síðustu fjárlaga, en er mikið mál og hefur verið erfitt viðureignar í öllu því niðurskurðartali sem verið hefur. Í landi þar sem þjóðarframleiðsla hefur dregist saman, eins og hér hefur gerst síðustu þrjú ár í röð, er oft þröngt fyrir allar nýjungar í heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisþjónustan hefur ekki dregist saman að sama skapi og þjóðarframleiðsla og eru útgjöld til hennar nú yfir 10% af vergri þjóðarframleiðslu og enn er margt ógert.

Á þessum fyrstu dögum þingsins hefur annarri þáltill. verið dreift af sömu flm., þ.e. hvernig eigi að veita athvarf unglingum yngri en 18 ára sem eru illa haldnir andlega og líkamlega vegna fíkniefnaneyslu. Í áætlun Ríkisspítala og heilbrmrn. er gert ráð fyrir unglingageðdeild sem er áætlað að kosti u.þ.b. 12 millj. kr. á ári.

Það eru jafnframt uppi tillögur um aukna rannsóknarstarfsemi á sviði ónæmisfræði sem áætlað er að kosti u.þ.b. 3 millj. kr. Á því sviði eru nú miklar framfarir og því nauðsynlegt að fylgjast vel með. Má þar minna á nýveitt nóbelsverðlaun í læknisfræði á ónæmissviðinu.

Ég vil einnig minna á að hjartaskurðlækningar stendur til að flytja til landsins og nú er unnið að endurbótum á rannsóknaraðstöðu. Þær endurbætur eiga að vera tilbúnar um eða eftir næstu áramót og kosta mikla fjármuni. Í framhaldi af því verður stefnan að taka inn hinar almennu kransæðaskurðlækningar sem allra fyrst.

Það er því í mörg horn að líta. Við verðum að velja og hafna, gæta þess að nýta það fjármagn sem fyrir hendi er eins og best verður á kosið. Ég tel að af þeim nýjungum sem hér er um að ræða séu hjartaskurðlækningar næsta skrefið eftir að rannsóknarstarfseminni sleppir. En samhliða því verðum við að stíga það skref, sem ég legg á mikla áherslu, að hefja á næsta ári byggingu K-byggingarinnar, sem ég hef áður lýst hér á þingi, með þeim árangri að geta tekið hana í notkun innan fjögurra ára.

Ég tel líka mikilvægt það skref sem stigið var og hv. flm. þessarar till. gerði að umræðuefni, sem er aukin samstaða og samvinna okkar við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina eða Evrópudeild hennar og sá samningur sem ég undirritaði þar snemma á þessu ári. Nú hefur verið ráðinn yfirlæknir í rn. til að vinna að því máli. Við verðum að nýta sem best samvinnu á þessu sviði. Við erum að mörgu leyti vegna fæðar okkar hópur sem er gott fyrir stærri og margfalt fjölmennari þjóðir að taka þátt í samvinnu með. Ef við getum hagað málum með þeim hætti að fá framlög þar til þess að fara út í framkvæmdir á þessu sviði tel ég að það eigi að flýta fyrir að út í þær sé farið. En um þessi mál liggur ekkert endanlega fyrir enn þá þó að allt sé rétt sem hv. flm. hafði hér eftir og vitnaði í svokallaða Mammógrafíunefnd sem skilaði ákaflega stuttu áliti í júlílok í sumar sem þarf að fara töluvert betur yfir.

Hvað varðar hópskoðanir með brjóstamyndatöku verður að fylgjast mjög náið með erlendum rannsóknum á því sviði. Mér vitanlega hefur enn engin erlend þjóð hafið slíkar skoðanir fyrir allar konur í ákveðnum aldurshópum þó að það hafi verið gert í minni hópum sem er auðvitað miklu viðráðanlegra.

Ég er því mjög fylgjandi að við tökum þátt í þessu rannsóknarstarfi, eins og fyrri aðgerðir og ákvarðanir mínar bera vott um, en miðað við núverandi fjárhag ríkissjóðs og önnur forgangsverkefni í heilbrigðisþjónustu verður slíkt vart framkvæmt nú með opinberri fjármögnun hér heima einni saman. Ég legg svo ég sé ekki að dylja þingheim þess — meiri áherslu á hin tvö stórverkefnin sem ég nefndi þó að ég vilji mjög gjarnan leggja einnig áherslu á þetta. Þar verður fyrst og fremst að ráða hvernig gengur að fá fjármagn til þessara hluta.

Á milli mín og flm. þessarar þáltill. er enginn ágreiningur. Við höfum sama áhugann fyrir málinu og sennilega allir flokkar og þessi nefnd sem skipuð var af fyrrv. heilbrmrh. á árinu 1981 þó hún hafi ekki skilað áliti fyrr en í lok sjöunda mánaðar þessa árs. Allt tekur sinn tíma. Ýmsum fleiri hefur verið falið að fylgjast með þessu. Sérstaklega legg ég mikla áherslu á það samstarf sem nú þegar er hafið við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina. Við höfum rætt ítarlega við bæði þann sem er nú að láta þar af störfum og sömuleiðis við nýjan framkvæmdastjóra Evrópuráðs Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar sem tekur við um næstu áramót. Ég bind miklar vonir við gott samstarf við hann einnig ekki síður en við þann sem er að fara, dr. Kaprio.