20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Án þess að endurtaka það sem hæstv. utanrrh. hefur sagt vil ég taka það fram að ég tel að þetta svar Bandaríkjamanna sé fullkomlega viðunandi. Þar segir að Bandaríkjastjórn hafi ekki og muni ekki gera ráð fyrir staðsetningu kjarnorkuvopna hér á landi án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Ég leyfi mér ekki að vefengja þetta og sé ekki að það sé hægt nema menn almennt telji að Bandaríkjamenn séu þarna vísvitandi að fara með rangt mál og það leyfi ég mér ekki að gera. Ég tel þetta styrkja verulega stöðu okkar og undirstrika þá yfirlýsingu, sem hér hefur verið gefin hvað snertir annað, að svo skuli með þessi mál farið.

Varðandi þá spurningu hvort ég telji æskilegt að Alþingi samþykki að hér skuli ekki staðsett kjarnorkuvopn sýnist mér vel koma til greina að ríkisstj. í samráði við utanrmn. undirstriki eitthvað slíkt. En ég hef satt að segja mínar efasemdir um slíka ákvörðun Alþingis. Til þess að þetta eigi að hafa raunverulegt gildi þyrfti að vera um það samkomulag við kjarnorkuveldin að þau virði slíkt. Ég get sagt það að í óformlegum viðræðum forsrh. Norðurlanda um þessi mál kom þetta einmitt mjög skýrt fram og reyndar kom skýrt fram hjá forsrh. Svía í sjónvarpsviðtali að svona lagað hefði ekkert gildi nema kjarnorkuveldin samþykktu að virða það. Þetta vil ég undirstrika og þetta tel ég raunar mjög stórt atriði ef menn eru að hugleiða eitthvað í þessa átt.