20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

1. mál, fjárlög 1985

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um þau erindi sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum, svo sem á Faxaflóa, Breiðafirði, Ísafjarðardjúpi, til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð til Grímseyjar og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Enn fremur hefur nefndin fjallað um erindi er borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera skv. snjómokstursreglum Vegagerðarinnar. Þrátt fyrir að reglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs fjárframlög til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.

Nefndinni bárust umsóknir að þessu sinni frá 63 aðilum. Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri í samgrn. og Guðmundur Einarsson forstjóri Skipaútgerðar ríkisins mættu á fundum nefndarinnar, endurskoðuðu reikninga allra flóabátanna og veittu nefndinni margvíslegar upplýsingar sem komu henni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir þeirra störf.

Skal nú gerð grein fyrir einstökum þáttum, sérstaklega að því er hin stærri verkefni varðar, þ.e. flutninga á sjó. Hvort tveggja er að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns sem nefndin úthlutar og svo hitt að um allt það sem lýtur að sjóflutningum hefur nefndin fyllri upplýsingar þó ýmsir aðrir aðilar, er styrks til landflutninga njóta, hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina varðar, og er það veruleg breyting til bóta miðað við það sem áður var.

Í mörgum þessum umsóknum kemur glöggt fram hvað aðstöðumunurinn er mikill hvað kostnað við allar samgöngur varðar og er nefndinni fullkomlega ljóst að ástæða væri til að hafa þessa styrki verulega hærri. En á hitt er einnig að líta að margir munu þeir vera sem ekki eru mikið betur settir, en hafa enga umsókn sent.

Þá mun ég koma inn á nokkur atriði í sambandi við flóabátana.

Í ár er styrkur til Akraborgar 6 millj. kr. og rann hann að fullu til greiðslu á lánum hjá Ríkisábyrgðasjóði skv. sérstöku samkomulagi við hann. Á árinu 1983 var halli á rekstri fyrirtækisins annað árið í röð og nam hann um 9 millj. kr. skv. efnahagsreikningi. Í árslok var eigið fé orðið neikvætt um rúmlega 30 millj. kr. og á árinu versnaði veltufjárstaða fyrirtækisins um 11.7 millj. kr. eða helmingi meira í krónum talið en árið áður. Skammtímaskuldir námu 31.5 millj. kr. um áramótin 1983–1984 og höfðu þær aukist um 10.7 millj. kr. á árinu.

Skv. rekstrar- og efnahagsreikningi fyrir tímabilið janúar-júní 1984 er rekstrarhallinn orðinn 4.6 millj. kr. Skammtímaskuldir halda áfram að aukast og voru á miðju þessu ári orðnar 38.6 millj. kr., en veltufjármunir aðeins 5 millj. kr. Á sama tíma námu tekjur fyrirtækisins 21.5 millj. kr.

Í bréfi til samvn. samgn., dags. 19. okt., eru nefndar nokkrar ástæður fyrir versnandi afkomu fyrirtækisins. M.a. er þar nefnt að nauðsynlegt þótti að setja í skipið nýja hliðarskrúfu vegna erfiðra hafnaraðstæðna. Kostnaður við þessa framkvæmd var 4.5 millj. kr. og stöðvaðist skipið við þessa framkvæmd um sex vikna tíma. Slæm veðrátta til ferðalaga hafði óhagstæð áhrif á rekstur fyrirtækisins þar sem flutninganýtingin var léleg að sögn rekstraraðila.

Í júlí s.l. var gamla Akraborg seld fyrir 10 millj. kr., en andvirði sölunnar rann beint til greiðslu upp í 20 millj. kr. skuld við Ríkisábyrgðasjóð. Skv. upplýsingum frá Ríkisábyrgðasjóði eru skuldir fyrirtækisins við hann sem hér segir:

Áætluð heildarskuld um næstu áramót 101.3 millj., vanskil nú 19 millj., áætlaðar afborganir og vextir á næsta ári 18.8 millj. kr.

Baldur. Skv. áætlun um rekstur bátsins út þetta ár er gert ráð fyrir 450 þús. kr. halla sem er nokkru verri útkoma en á síðasta ári, en þá var hallinn 248 þús. Hlutfall ríkisstyrks af heildargjöldum verður þá 54%.

Nefnd sú sem samgrh. skipaði 28. júlí 1983 til þess að annast framkvæmd og umsjón með smíði nýs flóabáts fyrir Breiðafjarðarsvæði skilaði áfangaskýrslu 3. febr. 1984. Niðurstaða nefndarinnar er að leggja til að smíðað verði 200 smálesta skip sem getur flutt 15–17 bifreiðir af venjulegri stærð á þilfari, en einnig verði hægt að flytja vöruflutningabifreiðar og stórar fólksflutningabifreiðar. Í aðalfarþega- og veitingasal, sem yrði niðri í skipinu, er gert ráð fyrir sætum fyrir 130 farþega. Skv. áætlun nefndarinnar frá því í febr. s.l. er smíðakostnaður ferjunnar 60 millj. kr.

Niðurlagsorð nefndarinnar eru þau að með tilvísun til framanritaðs telur nefndin að ekki sé rétt að svo stöddu að halda áfram frekari undirbúningsframkvæmdum með tilliti til útboðs fyrr en fyrir liggi endanleg ákvörðun stjórnvalda um smíði ferjunnar skv. þeim teikningum sem fyrir liggja.

Í rekstraráætlun bátsins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að tekjur hækki um 18% að meðaltali og ríkissjóðsstyrkurinn hækki úr 5.2 millj. í 6.6 millj. kr. Áætlað er að gjöld skipsins hækki um 17% að meðaltali og launakostnaður hækki um 23% milli ára. Þessi áætlun er miðuð við óbreytta þjónustu bátsins, en reiknað er með auknum vöruflutningum er leiðir af endurbótum sem gerðar voru á bátnum á s.l. vori. Það verður að teljast mjög brýnt verkefni að fá nýjan bát á Breiðafjarðarsvæðinu.

Fagranesið. Eins og fyrr fylgir umsókn rekstraraðila bátsins greinargott yfirlit um rekstur hans út þetta ár. Í bréfi framkvæmdastjóra bátsins, dags. 25. nóv., er frá því greint að þegar rekstraráætlun var gerð fyrir yfirstandandi ár var tekið mið af spá stjórnvalda um verðlagsþróun þessa árs, en hún gerði ráð fyrir 22% meðaltalshækkun rekstrar- og tekjuliða. Þó voru útgjöld aðeins hækkuð um14.7% í áætluninni.

Tekjur fyrirtækisins út þetta ár eru áætlaðar 7.9 millj. kr. eða um 11% umfram það sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun sem lögð var fyrir samvn. samgm. fyrir ári. Framlag ríkissjóðs til rekstrar nemur á þessu ári 4.9 millj. kr. eða sem svarar um 62% heildartekna. Auk þess fékk báturinn 400 þús. kr. í stofnstyrk.

Hér er að vísu um nokkuð betri rekstrarniðurstöðu að ræða en var á síðasta ári, enda telur framkvæmdastjóri bátsins að rekja megi ástæður þess til aukinna tekna af aukaferðum á síðasta sumri.

Áætlun fyrirtækisins er í hefðbundnum stíl. Framkvæmdastjóri hafði við gerð hennar hliðsjón af upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, en hún gerir ráð fyrir 26% meðaltalshækkun rekstrar- og tekjuliða á næsta ári. Skv. því verða útgjöld fyrirtækisins 9.3 millj. kr. og tekjur aðeins 3.2 millj. Nauðsynlegt ríkisframlag er því a.m.k. 6.1 millj. sem er um 66% af heildarútgjöldum. Hér er um 24% hækkun ríkisframlags að ræða til reksturs á yfirstandandi ári.

Drangur. Til loka okt. s.l. hafði Drangur flutt um 12 300 tonn af vörum. Allt árið í fyrra flutti skipið 11 500 tonn. Ástæðu fyrir auknum flutningi má rekja til tveggja þátta. Í fyrsta lagi til samnings við Kaupfélag Eyfirðinga um alla flutninga til Hríseyjar, Ólafsfjarðar, Siglufjarðar og Grímseyjar, en samningur þessi gildir frá 1. apríl 1984 til 1. jan. 1986. Vegna þessa samnings þótti nauðsynlegt að kaupa flutningabifreið til þess að annast þessar ferðir yfir sumarmánuðina og þegar fært er um veturinn nema þegar Drangur siglir til Grímseyjar sem er hálfsmánaðarlega. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins greinir nánar frá þessu í greinargerð. Í öðru lagi hefur aukaferðum skipsins fjölgað verulega á árinu sem nú er að líða, einkum vegna þungaflutninga. Sem dæmi má nefna flutning á 2500 tonnum af möl til Grímseyjar í haust til vegagerðar og sundlaugarbyggingar ásamt tækjum.

Í lok okt. s.l. var hagnaður af eiginlegum rekstri fyrirtækisins, þ.e. fyrir fjármagnsgjöld, um 1.9 millj. kr., en eftir að tekið hefur verið tillit til fjármagnsgjalda var hallinn orðið 1.9 millj. Sambærilegar tölur fyrir árið 1983 eru 2.2 millj. kr. halli og 4.2 millj. kr. eftir fjármagnsgjöld.

Gert er ráð fyrir að báturinn veiti áfram sömu þjónustu á áætlunarsvæði sínu. Farið er í aukaferðir þegar þær bjóðast og hagkvæmt þykir.

Í jan. n.k. verða teknar upp viðræður við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um framhaldsferðir með flutninga fyrir útgerðina einu sinni í viku frá Akureyri til Siglufjarðar og Kópaskers. Fyrst um sinn verða þessar ferðir farnar í tilraunaskyni 3–4 mánuði og ráðgert er að þær hefjist í lok janúar 1985.

Skv. áætlun Útvegsbanka Íslands um greiðslur á lánum vegna kaupa Drangs þarf stofnframlag að verða 11.9 millj. kr. á næsta ári. Þar sem síðasta greiðsla ársins að upphæð 2.6 millj. kr. fellur í lok ársins er hægt að komast af með 9.3 millj. kr. í stofnstyrk.

Hríseyjarferjan. Í ár er styrkur ríkissjóðs til rekstrar Hríseyjarferjunnar 1 millj. 50 þús. kr. En nú er sótt um 1 millj. 500 þús. kr. Farið er fram á fjármagn til breytinga á lúgu, brú og farþegaaðstöðu. Breyting á lúgu er gerð til þess að auka flutningsgetu ferjunnar, einkum afköst við fisk- og vöruflutninga. Um þennan þátt segir í bréfi oddvita til samvn. samgm.:

„Minnka á lestarlúgu um nálega 3/4 til að auka dekkpláss. Eins og lestarlúgan er nú tekur hún yfir mjög stóran hluta dekksins og er gerð þannig í upphafi til þess að gera notkun lestarinnar sem aðgengilegasta. Reynslan hefur hins vegar sýnt að lestin er alls ekki notuð við vöruflutninga og þaðan af síður til fiskflutninga, helst viðkvæman varning í smáum stíl. Kostnaðaráætlun hefur verið gerð og er hún upp á 192 þús. kr. og er sótt um stofnstyrk til framkvæmdarinnar sem þessari upphæð nemur.“

Skv. upplýsingum Framkvæmdasjóðs Íslands verða greiðslur vegna Hríseyjarferju 445 þús. kr. á næsta ári. Til viðbótar munu vanskil nú um áramótin vera 37 500 kr. Alls gerir þetta 482 þús. kr.

Mjóafjarðarbátur. Nýr bátur var keyptur árið 1978 og er mikill hluti kaupverðs enn ógreiddur. Skv. rekstraráætlun fyrir árið 1985 er sótt um ríkisstyrk að upphæð 1 millj. 188 þús. kr. Aðstæður við Mjóafjörð eru þannig að þessi bátur er eina samgöngutækið við Mjóafjörð mestan hluta ársins og búseta í firðinum útilokuð án ferða hans.

Herjólfur. Heildarútgjöld ársins urðu 54.3 millj. kr. og rekstrartekjur 35.4 millj. Halli varð því á starfsemi fyrirtækisins er nam 18.9 millj. kr. og var það um 85% verri útkoma en árið 1982. Upp í þennan halla fékk fyrirtækið ríkisstyrk að fjárhæð 7.9 millj., þannig að tap fyrir fjármagnsliði var 10.9 millj. kr. Að teknu tilliti til fjármagnshreyfinga skilaði reksturinn um 375 þús. kr. afgangi. Hreint veltufé í árslok var neikvætt um 1.2 millj. kr. og er það helmingi betri staða en um áramótin 1982-1983.

Í 6. gr. fjárlaga þessa árs er heimild til þess að semja við Herjólf hf. um uppgjöf vanskilaskulda fyrirtækisins við Ríkisábyrgðasjóð, m.a. með niðurfellingu vaxta og dráttarvaxta. Sams konar heimild var á fjárlögum ársins 1982 og þá samþykkti fjmrh. niðurfellingu vaxta að fjárhæð 59.2 millj. kr. Um síðustu mánaðamót var gengið frá skuldabréfi þar sem Herjólfur hf. skuldbindur sig til að greiða vanskilaskuld við sjóðinn að fjárhæð 25.7 millj. kr. á árunum 1985–1993, tvisvar á ári, 1. maí og 1. nóv. Skuldin ber 4% vexti og verða afborgunargreiðslur lánsins verðtryggðar.

Eftirtalin ákvæði eru sett inn í skuldabréfið til tryggingar endurgreiðslu láns þessa: skuldareiganda er framseldur fjórðungur þeirra stofn- og rekstrarstyrkja sem félagið kann að fá á fjárlögum vegna útgerðar skips þessa er það rekur. Mun félagið hlutast til um að sú greiðsla komi til útborgunar í febrúar ár hvert.

Skv. þeim upplýsingum sem fram komu hjá stjórnarformanni Herjólfs voru vextir og dráttarvextir af skuldinni við Ríkisábyrgðasjóð, sem voru felldir niður nú, um 100 millj. kr.

Málefni annarra báta verða ekki rakin hér, enda smáar upphæðir sem til þeirra fara, en það eru Dýrafjarðarbátur, Langeyjarnesbátur og Mýrabátur. Ekki verða heldur tilgreindar einstakar umsóknir um fjárveitingar til vetrarflutninga á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.

Skv. till. nefndarinnar leggur samvn. samgm. til að á fjárl. 1985 verði veittar samtals 56 millj. 364 þús. til flóabáta og vöruflutninga sem ég mun nú skýra frá.

Á þskj. 371 er sundurliðun á þeim tillögum sem nefndin flytur og hljóðar þannig:

Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi og Neshreppi utan Ennis 55 þús. kr. Til vetrarflutninga á norðanverðu Snæfellsnesi 55 þús. Til vetrarflutninga í Dalahéraði 110 þús. Snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu 30 þús. Til mjólkurflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 120 þús. Til vetrarsamgangna í Rauðasandshreppi 55 þús. Til vetrarsamgangna í Ketildalahreppi 42 þús. Til vetrarflutninga í Bíldudal 42 þús. Til vetrarsamgangna í Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu 50 þús. Til vetrarsamgangna við Ingjaldssand 85 þús. Snjóbifreið í Önundarfirði 90 þús. Snjóbifreið um Botnsheiði 65 þús. og stofnstyrkur 85 þús. Til mjólkurflutninga í Önundarfirði, Dýrafirði, Súgandafirði og Djúpi 285 þús. Til vetrarflutninga í Álftafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu 50 þús. Til vetrarflutninga í Ögurhreppi 30 þús., í Reykjarfjarðarhreppi 30 þús., í Nauteyrarhreppi 30 þús. og Snæfjallahreppi 30 þús. Til vöruflutninga í Árneshreppi 200 þús. Til vetrarsamgangna í Árneshreppi 100 þús. og stofnstyrkur 450 þús. Til vetrarsamgangna í Kaldrananeshreppi 30 þús. Snjóbifreið á Hólmavík 35 þús. Snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu 30 þús. og skefilsstaðahreppi 50 þús. Snjóbifreið í Skagafirði 33 þús. Til vetrarflutninga í Haganes- og Holtshreppum 50 þús. Til vetrarsamgangna, Siglufjörður-Sauðárkrókur 200 þús. Grímsey, vegna vetrarsamgangna og flugs 300 þús. Til vetrarflutninga í Ólafsfirði 50 þús., stofnstyrkur 40 þús. Snjóbifreið í Dalvíkurlæknishéraði 20 þús. Til vetrarsamgangna í Svarfaðardal 55 þús. Snjóbifreiðar á Akureyri 40 þús. Snjóbifreið í Grýtubakkahreppi 30 þús. Snjóbifreið í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 33 þús. Norðausturleið, Vopnafjörður-Húsavík 450 þús. Til vetrarsamgangna í Fjallahreppi 85 þús. Snjóbifreið Öxarfjörður-Kópasker 50 þús. Snjóbifreið á Þórshöfn 42 þús., stofnstyrkur 90 þús. Til vetrarflutninga á Bakkafirði 85 þús. Til vetrarflutninga á Vopnafirði 85 þús. Til vetrarsamgangna í Borgarfirði eystra 95 þús. Til vetrarsamgangna í Hjaltastaðahreppi 32 þús. Til póst- og vöruflutninga á Jökuldal 30 þús. Til vetrarsamgangna á Jökuldal 50 þús. og stofnstyrkur 130 þús. Til vetrarflutninga í Möðrudal 60 þús. og stofnstyrkur 90 þús. Snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 32 þús. Snjóbifreið á Fjarðarheiði 340 þús. Snjóbifreið á Oddsskarði og Fagradal 400 þús., stofnstyrkur 350 þús. Snjóbifreið Stöðvarfjörður-Egilsstaðaflugvöllur 60 þús. Til vetrarflutninga á Breiðdalsvík 85 þús. Til vetrarflutninga Djúpivogur-Hornafjörður 120 þús. og stofnstyrkur 150 þús. Svínafell í Nesjum 33 þús. Til vöruflutninga á Suðurlandi 310 þús. — Þessir liðir gera 6 millj. 339 þús.

Þá eru það flóabátarnir. Nefndin leggur til að styrkir til þeirra verði sem hér segir:

Akraborgin 7 millj. og 500 þús. Baldur 6 millj. 550 þús., stofnstyrkur 1200 þús. Langeyjarnesbátur 42 þús. Mýrabátur 6 þús. Fagranesið 6 millj. 500 þús. Dýrafjarðarbátur 50 þús. og stofnstyrkur 42 þús. Hríseyjarferja 1.5 millj., stofnstyrkur 675 þús. Drangur 3 millj., stofnstyrkur 9.3 millj. Mjóafjarðarbátur 1 millj. 160 þús. Herjólfur 12 millj. 500 þús.

Þetta eru eins og áður segir 56 millj. 364 þús. og er það rúmlega 27% hækkun frá fjárlögum þessa árs.