20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

1. mál, fjárlög 1985

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þó að fullkomin ástæða væri til þess við lokaumr. fjárlaga fyrir árið 1985 að hafa nokkuð langt mál þar um í ljósi þess að nú standa menn frammi fyrir því að hér á að afgreiða fjárlög næsta árs með yfir 700 millj. kr. halla skal ég þó ekki lengja þessa umr. neitt að ráði.

Við 2. umr. var vikið að ýmsum meginþáttum fjárlagafrv. og fjárlagaafgreiðslunnar væntanlegu þó að vissulega mætti ýmsu þar við bæta. Ég vísa til þess sem hv. þm. Geir Gunnarsson bætti við áðan varðandi það sem gerst hefur síðan við 2. umr. en vildi þó aðeins vekja enn frekar athygli á nokkrum þáttum.

Ég hygg að því sé svo farið um fleiri en hv. þm. Pálma Jónsson, formann fjvn., að þeim nánast hrjósi hugur við því að afgreiða fjárlög með þeim hætti sem nú er stefnt í. Jafn grandvar og sómakær maður hlýtur að taka nærri sér að leggja til afgreiðslu á þeim grundvelli sem hér er. Enda kom það fram í máli hans áðan að hann taldi það ekkert ánægjuefni að þurfa að kynna og afgreiða fjárlög með yfir 700 millj. kr. halla og vissulega er þetta skiljanlegt sjónarmið. Það er ekki Alþingi sæmandi að ganga frá fjárlagaafgreiðslu á þann veg sem hér stefnir í og manni sýnist augljóslega eigi að verða. Ég tek því undir, fyrir hönd Alþfl., þá skoðun sem hv. þm. Geir Gunnarsson lýsti áðan, að við þessar kringumstæður ætti að fresta afgreiðslu fjárlaga og leita annarra og farsælli leiða til lausnar þeim vanda, sem vissulega er fyrir hendi og allir viðurkenna en hér er lagt til í þessari afgreiðslu. Stjórnarandstaðan hefur lýst sig reiðubúna til að taka þátt í slíku starfi með fulltrúum meiri hl. hér á Alþingi. Ég hygg að það væri skynsamlegra og þinginu og þjóðinni til meiri farsældar en að ana þá braut sem lagt er til við þessa afgreiðslu.

Eins og fram hefur komið er ljóst að á næsta ári mun t.d. kaupmáttur kauptaxta lækka um 4.7%. Vextir á næsta ári af erlendum lánum eru taldir verða 5 milljarðar kr. og hallinn á vaxtareikningi er talinn verða um 4.5 milljarðar kr. Ég trúi því vart að menn ætli sér í alvöru, þó að allt bendi til þess, að afgreiða fjárlög á þann veg sem hér liggur fyrir, í ljósi þess hvert stefnir. Ég tek því ítrekað undir það að skynsamlegra væri af meiri hl. hér á Alþingi að fara að ráðum stjórnarandstöðunnar um að fresta afgreiðslu fjárlaga en gefa að sjálfsögðu nauðsynlegar heimildir til að þjóðarbúið geti gengið með eðlilegum hætti. Það eru fordæmi þess áður að slíkt hafi verið gert. Væri miklu skynsamlegra í alla staði að slíkt yrði gert nú og vinna í það lögð að finna farsælli leið út úr vandanum en nú virðist eiga að gera.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Pálmi Jónsson, formaður fjvn., orðaði það eitthvað á þá leið að nú væru fjárlög afgreidd á traustari fótum en oftast áður. Menn muna sjálfsagt yfirlýsingar meiri hl. hér á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 á þann veg að aldrei hefðu fjárlög verið afgreidd jafn raunhæf eins og fyrir árið í ár. Menn hafa reynsluna fyrir sér. Það þarf ekki ummæli stjórnarandstæðinga til að lýsa því. Reynslan hefur úr því skorið, því miður, að það kom flest ef ekki allt fram sem stjórnarandstaðan hélt fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár. Þau voru síður en svo, þrátt fyrir allar yfirlýsingar stjórnarliða, raunhæfari en verið hefur um árabil. En sjálfsagt þýðir ekkert um þetta að tala. Formlega afgreiðslan er eftir. Það er trúlega eigi að síður búið að ákvarða í öllum einstökum atriðum hvernig málið skuli afgreitt, þannig að vart tjáir líklega um það að tala. Ég skal ekki hafa um það öllu fleiri orð.

Ég vil aðeins í lokin með örfáum orðum víkja að brtt. sem við þm. Alþfl. fluttum hér við 2. umr. málsins en drógum síðan til baka til 3. umr. og eru nú endurfluttar. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að gera grein fyrir þeim í einstökum atriðum en meginefni þeirra er liðsinni við hæstv. ríkisstj. um tekjuöflun. Og það er undarlegt í þessari stöðu, með það frammi fyrir sér að afgreiða fjárlög með halla upp á hundruð milljóna, ef hæstv. ríkisstj. tekur ekki undir tillögur, í þessu tilfelli stjórnarandstöðunnar, Alþfl., um að afla frekari tekna til að brúa bilið.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, þakka mínu meðnefndarfólki fyrir samstarfið. Ég ítreka þakkir til formanns fjvn. fyrir ljúfmannlegt samstarf í mjög svo erfiðu hlutverki, miklum mun erfiðara og honum andstæðara en ég hygg að hann hafi viljað að yrði hans hlutskipti í þessum efnum, en eigi að síður færi ég honum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.