20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

1. mál, fjárlög 1985

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú við 3. umr. um fjárlagafrv. vil ég ítreka þakklæti mitt til samverkafólks í fjvn., þakklæti fyrir samvinnu sem hefur verið með ágætum. Áreiðanlega er engum gert rangt til þótt ég nefni sérstaklega formann og varaformann nefndarinnar sem borið hafa þungann af þessu erfiða verki og sýnt mikla þolinmæði og lipurð. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að niðurstaða allrar þessarar vinnu er dæmi sem fullkomið ábyrgðarleysi er að samþykkja.

Hallinn sem við blasir er yfir 700 millj. kr. og þar eð tekjuhlið þessa frv. stendur vægast sagt völtum fótum væri réttara að reikna með halla nálægt einum milljarði kr. að óbreyttum tekjustofnum. Vissulega er það rétt að aldrei er hægt að segja svo nákvæmlega fyrir um þróun mála í svo fjölþættu reikningsdæmi sem hér er við að fást að ekki geti skeikað töluverðu þegar árið er gert upp. En hér er of langt gengið. Þetta dæmi gengur aldrei upp og væri skynsamlegast í þessari stöðu að fresta afgreiðslu fjárlagafrv. og freista þess að ná raunhæfari niðurstöðu þegar menn hafa hvílt sig og notið þeirrar hátíðar sem nú fer senn í hönd. Það er sameiginlegt álit og tillaga okkar, sem skipum minni hl. fjvn., um leið og við lýsum okkur reiðubúin til samstarfs.

Eins milljarðs halli á næsta ári er meira en þolað verður. Okkur er ekki stætt á því að leggja sífellt þyngri byrðar á herðar eftirkomendum okkar. Í endurmetinni þjóðhagsspá segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að nú virðist lokið þriggja ára samdráttarskeiði í íslenska þjóðarbúskapnum og horfur þyki á nokkrum hagvexti á ný er mikill halli á viðskiptunum við útlönd og svo verður enn á árinu 1985. Spáð er lítils háttar halla á vöruskiptajöfnuði, en að öðru leyti stafar viðskiptahallinn eingöngu af greiðslum vaxta af erlendum lánum. Vaxtagreiðslurnar eru taldar nema um 15% af útflutningstekjum árið 1984 og 1985, sem bera má saman við 4–5% árin 1970–1974 og um 7% árin 1975–1979.“

Greiðslubyrði vegna afborgana og vaxta af löngum erlendum lánum í hlutfalli af útflutningstekjum hefur farið vaxandi með hverju ári og er gert ráð fyrir að það hlutfall verði um 23% á þessu ári og næsta, en var 12.9% árið 1979 svo sem lesa má í lánsfjáráætlun. Ef hér væri um að ræða lántökur til arðbærra fjárfestinga væri þetta þolanlegt ástand. En því er ekki að heilsa og sárt til þess að vita. Enn um sinn súpum við seyðið af því að hafa rasað um ráð fram í virkjanaframkvæmdum og skipakaupum og enn leyfa stjórnvöld sér að sóa lánsfé í ótímabærar og óarðbærar framkvæmdir á borð við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Við verðum að gera stórátak í atvinnumálum til þess að yfirvinna þennan vanda og þar er brýnast stórátak í markaðsöflun og þróun þeirra atvinnugreina sem líklegastar eru til að afla okkur drjúgra tekna í framtíðinni, svo sem fiskeldi og rafeindatækni. Á miklu veltur að sá vísir að viðleitni í þessa átt sem Þróunarfélagið óneitanlega er verði nýttur á vitrænan hátt en ekki sem enn ein pólitísk skömmtunarstofnun sem of mikið er af í þessu landi. Því miður virðist sú lánsfjáráætlun sem loks leit dagsins ljós í fyrradag ekki verða til þess að bæta þá mynd sem blasir við í fjármálum ríkisins. Þar er m.a. að finna gjörsamlega óraunhæf áform um öflun innlends lánsfjár. Þar er enn reiknað með að húsbyggingarsjóðirnir geti sótt lánsfé til lífeyrissjóðanna upp á 1220 millj. þrátt fyrir reynsluna í ár þar sem aðeins tókst að fá lífeyrissjóðina til að lána um 430 millj. til húsnæðislánakerfisins. Þá er gert ráð fyrir að stórauka lánsfé með sölu spariskírteina og ríkisvíxla og hundsa þar með reynsluna af þessari fjáröflunarleið á þessu ári. Þetta eru tölur sem óneitanlega stinga í augu við fyrsta yfirlit en nánar verður fjallað um það síðar.

Gjaldahlið þessa fjárlagafrv. hefur nú tekið miklum breytingum frá því það var lagt fram í upphafi þings. Margar þeirra hafa kostað tímafrekar umr. í fjvn. og við aðila utan hennar, en það er ekki ætlun mín, enda ekki við hæfi, að skýra frá átökum um einstök mál, sem auðvitað hafa farið á ýmsan veg eins og gengur, því áherslur eru að sjálfsögðu misjafnar bæði eftir manneskjum og þingflokkum. Ég hlýt enn einu sinni að lýsa sérstökum vonbrigðum Kvennalistans með dagvistunarmálin, en meðferðin á þeim málaflokki er vitanlega fyrir neðan allar hellur eins og sífellt fleiri viðurkenna.

Við 2. umr. bar Kvennalistinn fram brtt. til hækkunar á þeim 30 millj. sem frv. ætlaði til byggingar dagvistarheimila á næsta ári, en sú upphæð hækkaði óverulega í meðferð fjvn. Við drógum till. okkar til baka en endurflytjum hana nú á þskj. 363. Sú till. hljóðar upp á að þessi liður hækki í 70 millj. 588 þús. kr. Sú upphæð er nákvæmlega sú krónutala sem ríkissjóði bæri að leggja fram til þess að standa við sinn hluta af þeim framkvæmdum sem hin ýmsu sveitarfélög hafa þegar lokið við eða standa í um þessar mundir auk umsókna um nýjar framkvæmdir. Þess ber þó að gæta að umsóknir sveitarfélaganna næmu sennilega nær helmingi hærri upphæð ef ríkisvaldið hefði ekki haldið niðri framkvæmdum í þessum málaflokki á undanförnum árum, einkum þó á þessu ári, með því að hafna umsóknum þeirra um mótframlag ríkissjóðs. Þessi afstaða ríkisvaldsins er í hróplegu ósamræmi við þá staðreynd að aukning þjóðarframleiðslunnar á undanförnum árum byggist ekki síst á aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Slík afstaða fæst með því einu að loka augunum fyrir gjörbreyttum þjóðfélagsháttum og gjörbreyttum aðstæðum meiri hluta fjölskyldna í landinu. Þessi afstaða getur auðvitað ekki gengið lengur.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir las upp ályktanir frá ASÍ-þingi, frá Samtökum kvenna á vinnumarkaði og frá borgarstjórn Reykjavíkur þegar hún mælti fyrir till. Kvennalistans við 2. umr. Þær ályktanir voru allar á einn veg, harðorð mótmæli gegn fjandsamlegri afstöðu stjórnvalda til þessa málaflokks. Þau mótmæli og önnur slík, sem uppi hafa verið, hafa ekki enn megnað að breyta afstöðu stjórnvalda, en það er von mín að sú fyrirstaða bresti fyrr en síðar svo víðtæk sem óánægjan er að verða í þjóðfélaginu. Vil ég nú enn minna á frv. Kvennalistans um þetta mál sem er til athugunar í n. í Ed. en hefur litla eða nánast enga umfjöllun hlotið í fjölmiðlum. Ég vil beina þeim tilmælum til hv. þm. að þeir kynni sér það frv. vel og meðfylgjandi grg. sem er upplýsandi um það hvernig málin standa.

Annar er sá liður fjárlaga sem Kvennalistinn hefur borið mjög fyrir brjósti og það er Lánasjóður ísl. námsmanna sem töluvert hefur verið rætt um nú við þessa umr. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs gerði Kvennalistinn ítrekaðar tilraunir til að fá framlag ríkisins til Lánasjóðsins hækkað. Einnig tókum við málefni sjóðsins fyrir í umr. oftar en einu sinni á síðasta þingi, bæði í fsp.-tíma, við afgreiðslu lánsfjárlaga og við umr. og afgreiðslu um hallann sem varð lýðum ljós um miðjan vetur. Sannast sagna fannst mér lítill áhugi, furðu lítill áhugi á málefnum Lánasjóðsins hér á síðasta þingi og hafði verulegar áhyggjur af því að þm. hefðu tapað sjónum á hlutverki hans. Ég ræddi einnig vanda Lánasjóðsins við 1. og 2. umr. um fjárlagafrv. nú og gat þess við 2. umr. að Kvennalistinn mundi flytja brtt. við 3. umr. ef vandi sjóðsins yrði ekki leystur í meðförum fjvn. Svo ánægjulega brá við að tveir þingflokkar lögðu fram brtt. við 2. umr. um aukið framlag til sjóðsins og nú hefur fjvn. gert till. um umtalsverða hækkun framlags ríkisins til Lánasjóðsins, hækkun sem ásamt hækkaðri lántökuheimild felur í sér ráðstöfunarfé upp á rúmlega milljarð kr. Með þessari hækkun er að okkar mati komið verulega til móts við óskir og réttmætar kröfur varðandi Lánasjóðinn. Okkar mat er að vísu að fjárþörf sjóðsins verði meiri á næsta ári, en það er að sönnu matsatriði og í trausti þess að brugðist verði við með aukafjárveitingu ef nauðsyn ber til, eins og raunin varð nú í haust, flytjum við ekki brtt. við þennan lið nú. En um leið og ég fagna auknum skilningi stjórnvalda og þings á hlutverki Lánasjóðs ísl. námsmanna og nauðsyn þess að standa við skuldbindingar gagnvart honum vil ég minna á þann vanda sem fyrsta árs nemar voru settir í nú í haust og gera kröfur til þess að þeir verði ekki settir í slíkan vanda á næsta ári. Ég mótmælti við 1. umr. og mótmæli aftur nú þeim orðum í ræðu hæstv. fjmrh. að sú ráðstöfun að beina lánaumsóknum fyrsta árs nema til bankanna hafi gefið góða raun. Það eru hrein öfugmæli. Af viðskiptum námsmanna við bankana nú í haust mætti segja margar sögur. Það ætla ég þó ekki að gera. Ég hygg að þm. hafi flestir heyrt slíkar sögur, þó óvíst sé að þeirra eigin börn hafi lent í vandræðum í þeim slætti, því að þar gagnaðist best að eiga vel stæða foreldra eins og þm. eru nú flestir. En við verðum fyrir alla muni að sjá út fyrir eigin hóp og það er bláköld staðreynd að nokkrir tugir námsmanna urðu að hætta við fyrirætlanir sínar um að hefja nám nú í vetur vegna þessara ráðstafana sem áttu að vera til sparnaðar. Slíkt er ekki sparnaður að mati Kvennalistans. Ójöfnuður er rétta orðið.

Kvennalistinn mun halda áfram að fylgjast náið með málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna og minna á skyldur stjórnvalda við hann. Hlutverk hans er að stuðla að jöfnum rétti allra til náms óháð efnahag námsmanna sjálfra eða aðstandenda þeirra og skylda stjórnvalda er að sjá til þess að hann geti gegnt því hlutverki.

Herra forseti. Ég mun ekki fjalla sérstaklega um fleiri liði þessa frv., enda búin að tjá mig allítarlega um megindrætti þess í 1. og 2. umr. Ég vil aðeins að lokum láta þá frómu ósk í ljós að tekist verði af fullri alvöru og raunsæi á við þann vanda sem blasir við í fjármálum ríkisins. Það er ljóst að stjórnvöldum hefur ekki tekist að ná þeim markmiðum sem þau settu sér í stjórnun fjármála. Verðbólgan fer vaxandi aftur, gengið fellur, atvinnuleysi fer vaxandi og uppbygging atvinnulífsins er ómarkviss. Mín skoðun er að alvarlegasta villan í útreikningi ríkisstj. sé sú hversu hart hefur verið gengið að almenningi, hversu ósanngjarnar kröfur hafa verið gerðar til almenns launafólks án þess að sýnilegar tilraunir væru gerðar til aðhalds í ríkisrekstrinum né til uppbyggingar í atvinnulífinu. Við slíkar aðstæður er þess ekki að vænta að ríkisstj. fái frið til starfa. Öll teikn benda nú til þess að sá sé einnig skilningur fjölmargra stjórnarliða.