20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

1. mál, fjárlög 1985

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Á þskj. 377 liggur fyrir brtt. sem undir hafa skrifað nm. beggja menntmn. deildanna. En þær hafa að venju komið saman á fundum til að ræða með hvaða hætti staðið skuli að heiðurslaunum listamanna skv. ákvörðun Alþingis. Á þessu ári lést einn þeirra listamanna sem notið hafa heiðurslauna, Þorvaldur Skúlason. Að vandlega yfirveguðu máli varð það niðurstaða nm. í þessum nefndum að leggja ekki til að fyllt yrði í skarðið. Ekki vegna þess að enginn verðugur listamaður fyndist, þvert á móti voru ýmis nöfn nefnd í því sambandi, heldur vegna hins að nm. þóttu heiðurslaunin varla rísa undir nafni eins og þau voru ákvörðuð í fjárlögum. Höfum við fyrir þá sök flutt þessa brtt., en efni hennar er að eftirtaldir 16 litamenn, sem allir nutu heiðurslauna á þessu ári, skuli njóta þeirra áfram: Finnur Jónsson, Guðmundur Daníelsson, Guðmundur G. Hagalín, Halldór Laxness, Hannes Pétursson, Indriði G. Þorsteinsson, Jóhann Briem, Jón Helgason, Jón Nordal, María Markan, Matthías Johannessen, Ólafur Jóhann Sigurðsson, Snorri Hjartarson, Stefán Íslandi, Svavar Guðnason og Valur Gíslason.

Við leggjum til að heiðurslaun til hvers þeirra verði 200 þús. kr., eða hækki um 100% frá s.l. ári. Til samræmis við það er þessi brtt. flutt.