20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

1. mál, fjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns svara þeirri spurningu sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín beint, en hún var svohljóðandi: Hvernig verður komið til móts við hjálparstarfið í Eþíópíu?

Það hefur orðið að samkomulagi eftir samtal mitt við formann Sjálfstfl., hv. 3. þm. Reykv. og formann þingflokks Framsfl., hv. 2. þm. Norðurl. v., að veitt verði 2.5 millj. kr. aukafjárveiting til að mæta þeirri ósk að styrkja að einhverju leyti, á veikan hátt þó, það hjálparstarf sem þar er nú hafið. Vona ég að þessar upplýsingar nægi hv. 3. þm. Reykv.

Hv. þm. hóf mál sitt um fjárlög að þessu sinni með því að segja að fjárlögin bæru einkenni þessarar ríkisstj. Mér þykir vænt um þessa viðurkenningu. Að öðru leyti ætla ég ekki að tefja þennan fund með frekari umr. um hans málflutning. En ég tek undir bæði með hv. 3. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. að skuldasöfnun erlendis er uggvænleg og við þurfum sameiginlega að vinna okkur út úr þeim vanda og það hið fyrsta. Það gerum við ekki ef við höldum í sameiningu áfram að samþykkja frv. um auknar fjárveitingar í hitt og þetta sem þegar eru orðnar meiri en heildartekjumöguleikar íslensku þjóðarinnar.

Ég tek ekki undir það að við þurfum að fresta afgreiðslu fjárlaga og búa til ný. Ég gerði það á s.l. ári. Ef fjárlagafrv. fyrir 1985 hefði ekki þurft að þola tvær, þó ekki væri nema tvær, samþykktir, aðra um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til sjávarútvegsins og hina um að fella niður tekjuskatt að hluta, þessi kosningaloforð, þá værum við að afgreiða fjárlögin í ár, þrátt fyrir alla gjaldaliði og að sjálfsögðu með þeim erlendum lántökum sem þar er gert ráð fyrir, með verulegum tekjuafgangi.

Ég vil að gefnu tilefni svara hv. 8. þm. Reykv. nokkrum orðum vegna þess að hann vitnaði í ákveðna fjarstadda menn og það fagmenn á sviði fjármála. Annar þeirra er hagfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands, ungur maður, sem er með það djarfar hugmyndir að ég er furðu lostinn að hann skuli starfa hjá öðrum. Hinn er gamalreyndur hagfræðingur og áhrifamaður í þjóðfélaginu, Jónas Haralz. Sú ræða sem hann hélt og hv. 8. þm. Reykv. vitnaði til vakti mjög mikla athygli mína, vegna þess að hann hefur verið einn áhrifamesti maður í peninga- og fjármálum í síðustu 23 áratugina hér og ráðgjafi ríkisstjórna. Ég lít á þá ræðu sem hann hélt sem sjálfsdóm. Ég veit ekki betur en sami virðulegi hagfræðingur sé bankastjóri í þeim þjóðbanka sem hefur undanfarið tekið hvað mest af erlendum lánum og þar af leiðandi tekið þátt í þeirri peningaþenslu á markaðinum hér sem hann er nú að gagnrýna. Ég vildi því svara því til að ríkissjóður lokar ekki inni neina peninga og hefur aldrei gert. Hann dreifir þeim. En það er löggjafinn sem sér um að ekkert er eftir í kassanum og til viðbótar þarf að taka erlendar lántökur sem allir gagnrýna. En bankakerfið ber að miklu leyti ábyrgð á þeirri þenslu sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið og þar með viðskiptahallanum og þar getur fjmrh. ekki haft nokkur áhrif á.

Varðandi hv. 8. þm. Reykv. vil ég segja að hann getur ekki í ræðustól komið án þess að hengja sig að einhverju leyti á mig. Ræðan sem hér var flutt áðan var alls ekki um fjmrh. Hún var úttekt á mér sem slíkum. Það er oft svo með menn sem þrá athygli, án þess að hafa nokkuð fram að færa sem gerir þá að aðdráttarafli, að þeir hengja sig aftan í aðra. Þeir sem verða fyrir því hafa sinn kross að,bera. Ég verð að lifa við það. Ég hef minn Stefán.

Virðulegi forseti. Það er nú komið að lokum 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1985 og er ástæða til að huga nokkuð að þróun íslenskra efnahagsmála og þá ekki síst í samanburði við þróun efnahagsmála í helstu viðskiptalöndum okkar. Eins og menn rekur minni til átti sér stað allverulegur samdráttur í þjóðarframleiðslu allra helstu iðnríkja heims á árunum 1980–1982. Ástand efnahagsmála var orðið þannig, að um tíma leit út fyrir að heimurinn stefndi í kreppuástand í efnahagsmálum sem líkja mætti við það sem gerðist á árunum fyrir seinna stríð. Til að vinna bug á þeim efnahagsvanda hafa flestar þjóðir þurft að færa miklar fórnir sem birtast m.a. í atvinnuleysi. Talið er að atvinnulaus séu nú um 8% af vinnufærum mönnum í helstu iðnríkjum heims. Iðnríkin sjá nú fyrir endann á efnahagsörðugleikum sínum. Spáð er að hagvöxtur aukist á árinu 1984 um 4.7% og á næsta ári um 3%. Verðbólgan í þessum ríkjum er talin verða 5% á þessu ári og lækki um 1/2% á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að viðskiptakjör iðnríkja versni á árinu 1984 um 0.5% og haldist óbreytt á árinu 1985.

Þegar litið er til þróunar þjóðarbúskapar okkar Íslendinga er nú gert ráð fyrir enn frekari samdrætti í þjóðarframleiðslu á árinu 1984, um 0.4%, en aftur á móti er spáð að hagvöxtur á árinu 1985 verði 0.6%. Verðbólgan mæld skv. framfærsluvísitölu hækkar um 29% á árinu 1984 frá árinu 1983 og spáð er hækkun á árinu 1985 um 28% á árinu í ár. Viðskiptakjör á árinu 1984 bötnuðu um 2% frá fyrra ári, en á árinu 1985 er spáð að viðskiptakjör verði óbreytt frá árinu í ár.

Þegar menn bera saman þessar upplýsingar kemur í ljós að enn vantar mikið á að við Íslendingar höfum náð tökum á efnahagsmálum okkar á sama hátt og helstu viðskiptalönd okkar hafa gert. Það er hins vegar allrar athygli vert fyrir okkur að í þeim löndum Vestur-Evrópu sem minnstum árangri hafa náð við verðbólguna hefur nánast ekki átt sér stað neinn vöxtur þjóðartekna eða þær farið lækkandi. Með þetta í huga ætti okkur að vera það enn ljósara hve mikil hætta steðjar að íslensku þjóðarbúi ef ekki tekst að vinna bug á verðbólgu. Framtíð þessa lands byggir á því að hægt sé að viðhalda eðlilegum hagvexti ef hér á að vera hægt að skapa sambærileg lífskjör og gerast meðal nágrannaþjóða.

Upphafleg tekjuáætlun frv. var sem kunnugt er í aðalatriðum reist í verðlagi og kaupgjaldi eins og það var í septembermánuði s.l. Frá því í septembermánuði hafa fjölmargar ákvarðanir verið teknar sem hafa veruleg áhrif á ýmsa þætti efnahagsmála. Gerðir hafa verið nýir launasamningar og gengi íslensku krónunnar hefur verið breytt. Að teknu tilliti til framangreindra aðgerða og með hliðsjón af innheimtu fyrstu ellefu mánuði þessa árs hafa tekjur verið hækkaðar um 3.3 milljarða kr. í frv. Beinir skattar hafa verið hækkaðir um 310 millj. kr., aðflutningsgjöld um 870 millj. kr., sölugjald hækkar um 1400 millj. kr. og aðrar tekjur um 750 millj. kr. Heildartekjur A-hluta ríkissjóðs eru nú áætlaðar á árinu 1985 25.3 milljarðar kr.

Eins og fram kom í ræðu hv. formanns fjvn. hafa útgjöld í meðförum fjvn. aðeins hækkað um tæpar 400 millj. kr., en aftur á móti hefur n. bætt við útgjaldahlið frv. að beiðni ríkisstj., sem að meginhluta er vegna breyttra verðlagsforsendna og útgjalda sem ekki verður hjá komist að greiða á árinu 1985, 3.1 milljarði kr. Þannig hafa útgjöld A-hluta ríkissjóðs hækkað frá framlögðu frv. um 3.5 milljarða kr. eða 16%.

Tekjur eru nú áætlaðar 25.3 milljarðar kr., eins og fyrr segir, og er því gert ráð fyrir 720 millj. kr. rekstrarhalla á A-hluta ríkissjóðs árið 1985 og hefur sá rekstrarhalli aukist frá framlögðu frv. um 200 millj. kr.

Eins og ég hef margsinnis tekið fram er ekkert svigrúm nú til þess að auka skattaálögur ríkisins á almenning í þessu landi og þá sérstaklega með það í huga að verulegur kaupmáttarsamdráttur hefur orðið sem almenningur hefur þurft að bera að undanförnu. Þá hef ég enn fremur látið þá skoðun í ljós að ekki yrði hægt að aðlaga útgjöld A-hluta ríkissjóðs í einu vetfangi að þeim tekjum sem hann hefur yfir að ráða. Eins og fram hefur komið hjá formanni fjvn. hafa tekjur ríkissjóðs lækkað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu um 4 milljarða kr. frá árinu 1982. Þetta ætti að sýna mönnum svo að ekki verður um villst að mikið verk hefur verið unnið við að draga úr ríkisútgjöldum á undanförnum árum og enn er ljóst að áfram verður að halda á þeirri braut. Sú leið sem menn verða að fara til þess að ná jafnvægi á rekstri A-hluta ríkissjóðs er að draga úr útgjöldum. Það hefur að sjálfsögðu ekki staðið á mér að styðja og fylgja eftir ákvörðunum og aðgerðum sem leiða til lækkunar ríkisútgjalda.

Sá rekstrarhalli sem nú blasir við A-hluta ríkissjóðs á árinu 1985 eða 720 millj. kr. er nánast sama fjárhæð og leiðir af ákvörðun ríkisstj. um lækkun tekna ríkissjóðs. Lækkun tekjuskatts er áætluð um 600 millj. kr. Þá er áformað að endurgreiða söluskatt til fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu að fjárhæð 430 millj. kr., en á móti þessu kemur svo hækkun söluskatts um 0.5% sem áætlað er að gefi af sér 220 millj. kr. Þannig er nettólækkun tekna A-hluta ríkissjóðs á árinu 1985 um 800 millj. kr. eða heldur hærri fjárhæð en rekstrarhallinn er nú áætlaður, eins og ég gat hér um að framan.

Eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á er að fjárlög séu sem raunhæfust og að Alþingi sé ljóst hvað hlutirnir kosti í reynd. Ef farið er aftur til ársins 1981 og athugað hver var raunveruleg útkoma gjalda A-hluta ríkissjóðs, metin á greiðslugrunni miðað við fjárlög hvers árs, kemur í ljós að á árinu 1981 voru ríkisútgjöld 8.3% hærri en fjárlög, 1982 19.4%, 1983 25.4%, en á árinu 1984 7%. Ef miðað er við útgjaldaáætlun, sem lög nr. 43/1984 um ráðstafanir í ríkisfjármálum o. fl. gerðu ráð fyrir, er nú séð að útgjöld A-hluta ríkissjóðs verði innan þeirrar áætlunar eða um 19.6 milljarðar kr. Aukafjárveitingar á þessu ári eru innan þeirrar fjárhæðar sem gert var ráð fyrir í fyrrnefndum lögum. Ég er þeirrar skoðunar hvað varðar gjaldahlið frv. að hún hafi ekki í langan tíma verið raunhæfari og að sá rekstrarhalli sem hér er sýndur sé langt í frá að vera meiri en menn höfðu lagt upp með á árum áður. En með þessum orðum er ég ekki að segja að vegna þess eigi menn að sætta sig við þessa hluti eins og þeir eru. Þvert á móti er ég fullviss að ríkisstj. öll muni á næsta ári gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að ná því marki að svo til jöfnuður náist á ríkisfjármálum á árinu 1985.

Við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1984 hér á hv. Alþingi gat ég þess að ég mundi láta taka saman greinargerð um þróun og horfur í ríkisfjármálum innan ársins á þriggja mánaða fresti. Við þetta hefur verið staðið. Er ég ekki í nokkrum vafa um að þessi upplýsingamiðlun ásamt starfi nefndar sem ég skipaði um áramótin síðustu, en verkefni þeirrar nefndar var að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og vinna að bættri skipan eftirlits og aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum, hefur skilað umtalsverðum árangri árið 1984.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 ásamt frv. til lánsfjárlaga hefur verið lögð fram hér á hinu háa Alþingi. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar að æskilegt og nauðsynlegt sé að framlagning fyrrnefndra gagna eigi að birtast þinginu miklu fyrr þannig að alþm. geti rætt fjárlög ásamt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun samtímis. En vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað að undanförnu og óvissu um þróun efnahagsmála þjóðarinnar hafa mikilvægar forsendur verið óvissar, þannig að ekki hefur verið grundvöllur fyrr en nú að leggja fram áætlun þessa. Ég mun ekki fjalla frekar um þessi mál nú, en strax að afloknu jólaleyfi þm. mun fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 koma til umr. hér á hv. Alþingi ásamt afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir þetta ár.

Um leið og ég þakka góða fyrirgreiðslu fjárlagafrv., herra forseti, vil ég nota þetta tækifæri til að þakka fjvn. allri og þá sérstaklega formanni hennar, hv. alþm. Pálma Jónssyni, og varaformanni, Guðmundi Bjarnasyni, fyrir mikið og óeigingjarnt starf, ekki bara við fjárlagagerðina heldur líka fyrir störf þeirra í nefnd þeirri sem vinnur með mér við eftirlit og aðhald í ríkisfjármálum. Þakkarorð þessi vil ég líka yfirfæra til samstarfsmanna minna í fjmrn.

Mér er ljóst að störf alþm. í fjvn. eru vanþakklátt verk oftast nær, en mikilvægt að á því sé haldið af festu og sanngirni. Vegna mikilla breytinga á meginforsendum fjárlagafrv. um verðlag og kaupgjald hefur fjárlagavinnan verið hörð og erfið mál komið til kasta fjvn. sem hún hefur ráðið farsællega fram úr undir forustu formanns.

Þá vil ég enn fremur þakka hv. alþm. stjórnarandstöðunnar fyrir málefnalega umfjöllun um fjárlagafrv. fyrir 1985 hér í dag. Störf fjvn. nú sýna að mikils aðhalds hefur verið gætt í ákvörðunum hennar um útgjöld ríkissjóðs á næsta ári sem ég tel til mikils sóma. Ég vona að framkvæmdin takist vel og með samþykkt þessa frv. verði lagður sá grunnur að fjármálastjórn ríkisins á næsta ári sem þörf er fyrir.