18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

9. mál, leiguaðstoð við láglaunafólk

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér á þskj. 9 að bera fram till. til þál. um opinbera leiguaðstoð við láglaunafólk. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja og leggja fyrir Alþingi frv. um leiguaðstoð við láglaunafólk. Frv. þetta verði sniðið sem hluti af lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og verði afgreiðslu þess lokið fyrir upphaf næsta fjárlagaárs. Jafnframt falli niður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna greiddrar húsaleigu hjá þeim sem frv. þetta mun ná til.“

Herra forseti. Raunvaxtastefna og lækkuð verðbólga hefur gert það deginum ljósara að það er ærið verkefni að koma yfir sig og sína mannsæmandi húsnæði. Þetta hefur verið viðurkennd staðreynd í nágrannalöndum okkar í nokkra áratugi en verðbólgan hefur hulið þessa staðreynd augum okkar hér á Íslandi. Menn hafa almennt ekki áttað sig á því að sú opinbera aðstoð, sem fram fór með hraðri verðrýrnun húsnæðislána og bankalána á verðbólguárunum, stytti þetta æviverkefni um áratugi. Enginn maður er þó svo skyni skroppinn að hann vilji taka þau vinnubrögð upp aftur.

Krafan um lengingu lánstíma húsnæðislána, þannig að afborgunarbyrðin samsvari eðlilegri húsaleigu, breytir sjálfkrafa hugmyndum manna um eðli eignarhalds á húsnæði. Vegna þess hve langan tíma tekur að eignast húsnæði verður framboð húsnæðis nánast að þjónustuþætti, svipað annarri þjónustu sem húsnæði tengist. Menn reyna að eignast sitt eigið húsnæði, en fáum dettur nú orðið í hug að verða sjálfbjarga, þ.e. að eiga sína eigin rafmagnsframleiðslu eða hitaframleiðslu, sitt holræsi eða vegi. Á þeim sviðum skiptir eignarhaldið ekki öllu máli, heldur er öryggið aðalatriðið, þ.e. að eiga þessa þjónustu vísa. Enginn dregur nú í efa rétt manna til þess að eiga þessa þjónustu, sem ég taldi upp, vísa og örugga. Aftur á móti hafa menn lagt rétt manna til þess að eiga burðarhluta hússins að jöfnu við kröfuna um sjálfstæði einstaklingsins. Þessi hugsjón Bjarts í sumarhúsum skapar Íslendingum nokkra sérstöðu meðal vestrænna lýðræðisþjóða. Meira að segja í guðs eigin landi þykir það engin skömm að leigja.

Menn verða að viðurkenna staðreyndir þessa máls. Verðgildi íslensku krónunnar var það eldsneyti sem notað var til þess að mæta kröfum Bjarts í Sumarhúsum. Án þess verðbólgubáls, sem við höfum lifað við undanfarna áratugi, hefði aldrei verið hægt að uppfylla þessa kröfu með þeim hætti sem orðið er.

Að mínu mati verður nú að tryggja öryggi manna með tvenns konar hætti: öryggi þeirra sem efni hafa á og vilja byggja er hægt að tryggja með því að lengja þau lán sem til húsnæðisbygginga fara þannig að afborgunarbyrðin samsvari eðlilegri húsaleigu.

Öðru máli gegnir um þá þjóðfélagshópa sem við það lök kjör búa að þeir eiga þess ekki kost að byggja eða kaupa húsnæði. Það er algerlega óraunhæft í dag að ætla að fólk með 20–25 þús. kr. mánaðarlaun og 1–2 börn á framfæri kaupi mannsæmandi húsnæði. Þetta fólk á þann kost einan að leigja annaðhvort hjá sveitarfélögum eða á almennum markaði.

Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins segir, með leyfi hæstv. forseta, í l. kafla 1. gr. um markmið laganna: „Markmið laganna er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Jafnframt að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum, þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika launafólks til að eignast húsnæðið.“

Í raun og veru er eina hugsunin eða hugtakið í markmiði laganna, sem hugsanlega gæti vísað til réttinda leigjenda, þar sem sagt er að markmið laganna sé að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum.

Í 33. gr. þessara laga er síðan gerð grein fyrir því á hvern hátt landsfeður ætla sér að uppfylla þetta setta verkefni. Þar kemur í ljós að þar er í raun og veru eingöngu um tvo möguleika að ræða skv. laganna hljóðan, þ.e. annars vegar lánveitingar til félagslegra íbúða á vegum sveitarfélaga og svo hins vegar á vegum ríkisins eða félagasamtaka, sem ætlað er þá til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja. Hér er í raun og veru láglaunafólki sá eini möguleiki opinn að hagnýta sér leiguhúsnæði sem byggt er á vegum sveitarfélaga. Það er sem sé hlutverk sveitarfélaganna að uppfylla þessar kröfur.

Húsnæði á vegum sveitarfélaga hefur þann ókost að með því að þjappa saman mörgum fjölskyldum á einn stað eru kjör þessa fólks undirstrikuð með þeim hætti að það hlýtur að hafa slæmar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og endanlega fyrir þjóðfélagið í heild.

Sú leið sem stungið er upp á í þessari þáltill. hefur verið farin og er farin í mörgum nágrannalöndum okkar og reyndin hefur orðið sú að hún hefur stuðlað að og örvað byggingu leiguhúsnæðis með þeim hætti að húsnæðisekla hefur horfið á mörgum stöðum, t.d víða í Þýskalandi.

Leigjendur hér á landi hafa aldrei fengið nokkurn styrk frá hinu opinbera fyrir utan frádrátt á skattaskýrslu af hálfri þeirri leigu sem samist hefur um með húseiganda að gefa mætti upp. Það er heldur engin opinber stofnun á Íslandi sem lætur sig málefni leigjenda varða. Yfirvöld geta ekki öllu lengur horft fram hjá því að leiguhúsnæði er ekki þrautalending heldur raunhæf leið til lausnar á húsnæðisvanda. Það er skylda stjórnvalda að bjóða þeim sem leigja sambærilega þjónustu og nú þegar er boðin þeim sem eiga húsnæðið.

Hugsunin að baki þessari till. er sú að leiguaðstoð við fólk með lágar heimilistekjur verði lögfest mannréttindi. Árangurinn yrði stóraukið lífsöryggi viðkomandi þjóðfélagsþegna, auk þess — og á það legg ég áherslu — veittu ráðstafanir sem þessar aukið öryggi fyrir leigusala og örvuðu þannig byggingu leiguhúsnæðis.

Leiguaðstoðin ætti aðallega að miðast við þrennt, þ.e. fjölskyldustærð, heimilistekjur og stærð húsnæðisins sem leigja á. Fjölskyldustærðin segði til um þann herbergjafjölda í íbúðarhúsnæði sem til viðmiðunar væri tekinn hverju sinni. Þar er ég að höfða til þeirrar viðmiðunar sem þegar er notuð t.d í lánveitingum Húsnæðisstofnunar ríkisins, þar sem gengið er út frá ákveðnum stærðum sem eru gjarnan kallaðar vísitöluhús eða vísitöluíbúð.

Heimilistekjurnar segðu til um hve há leiguaðstoðin yrði á móti eigin framlagi. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að ætlast til að fólk ráðstafi stórum hluta tekna sinna í húsaleigu. Maður, sem hefur 12 þús. kr. í laun á mánuði, getur varla af nokkurri krónu séð til þess að greiða í húsaleigu. Þessar 12 þús. kr. nægja honum varla til þess að tóra út mánuðinn. Því lægri sem tekjurnar væru, því hærra yrði framlagið af hálfu hins opinbera og drægi síðan úr því eftir því sem heimilistekjur ykjust. Þá kæmi náttúrlega að einhverju því marki tekna heimilisins að engrar leiguaðstoðar væri þörf eða enginn réttur væri á slíkri aðstoð.

Viðmiðunarstærð húsnæðisins mældist í tvennu, þ.e. annars vegar herbergjafjölda og hins vegar fermetrafjölda og væru ákveðnar lágmarkskröfur settar fyrir hverja fjölskyldustærð. Ef húsnæði það, sem fólki byðist eða ætlaði að taka á leigu eða jafnvel yrði að taka á leigu, væri stærra en viðmiðunarreglurnar segðu til um yrði fólk að standa sjálft straum af kostnaði við það sem umfram væri, þ.e. ef um væri að ræða fleiri herbergi eða fermetra en staðallinn eða vísitalan segði til um.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að í þessari till. felst, eins og svo oft í till. sem hér eru fluttar, ákveðin krafa eða ósk um framlög af hálfu ríkisins. Án þess að ætla að leggja mönnum lífsreglurnar í þessu máli tel ég að það sé mjög eðlilegt að menn skoði þau fordæmi sem fyrir hendi eru í nágrannalöndum okkar, að framkvæmd þessi yrði með þeim hætti að sveitarfélög tækju á móti umsóknum og sæju um úthlutun þessara styrkja. Kostnaðurinn yrði greiddur af ríki og það er sveitarfélögum vansalaust að vita nokkuð ábyggilega fyrir fram hversu háa upphæð þau þurfa að greiða til þessara mála árlega.

Aftur á móti sér hver maður það í hendi sér að sú örvun í húsnæðisbyggingum, sem þetta gæti haft í för með sér, kæmi til með að skila mjög stórum hluta þess fjár, sem til þessa væri varið, aftur í sköttum og útsvörum til ríkis og sveitarfélaga.