18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

9. mál, leiguaðstoð við láglaunafólk

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í raun og veru er litlu hér við að bæta. Greinargerðin með till. og framsaga flm. hafa sagt flest sem segja þarf.

Ég vildi aðeins leggja áherslu á að hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir láglaunafólk og þá einkum heimili sem verða að bjargast með tekjur einnar fyrirvinnu. Í þeim hópi eru einstæðir foreldrar fjölmennastir, en þeirra stærsta vandamál er einmitt húsnæðismálin.

Í júní á þessu ári kom út skýrsla nefndar, sem skipuð var til að kanna kjör og félagslega stöðu einstæðra foreldra í landinu, en einstæðir foreldrar töldust skv. þjóðskrá 6250 talsins 1. des. 1983 og konur eru þar að sjálfsögðu í miklum meiri hluta. Margt athyglisvert leiddi þessi könnun í ljós sem vonandi reynist undanfari úrbóta í málefnum einstæðra foreldra. Í þeirri till. til þál., sem við erum nú að ræða, felst einmitt mjög mikilsverð úrbót þeim til handa og lýsi ég fullum stuðningi Kvennalista við þessa till.

En þessi till. tekur raunar aðeins til hluta vandans, þess hluta sem af augljósum ástæðum er auðveldast að leysa fljótt. Hinn hluta vandans er tímafrekara og fjármagnsfrekara að leysa, en verður vitanlega að leysa engu að síður. Það er sá gífurlegi skortur á leiguhúsnæði sem er víðast hvar á landinu. Óþarfi er að tína til lífsreynslusögur fólks í þessum efnum, en þar væri sannarlega af nógu að taka.

Margir líta nú vonaraugum til húsnæðissamvinnufélaganna sem sýnast ákjósanleg úrlausn fyrir þá sem vilja njóta öryggis búseturéttar, en geta ekki fjármagnað eigin húsbyggingar, geta ekki eða kæra sig ekki um að eyða bestu árum ævinnar við botnlaust strit til þess að fullnægja kröfum einkaréttarins. Nægjanlega há lán til langs tíma eru vitanlega forsenda þess að unnt sé að koma á búseturéttarkerfinu og blæs nú ekki byrlega í þeim efnum þessa dagana. En byggingu leiguhúsnæðis þarf að stórauka, annaðhvort á vegum hins opinbera eða á vegum félagasamtaka. Fólk verður að geta í reynd valið um það hvort það býr í leiguhúsnæði, byggir sjálft eða festir kaup á öðru húsnæði.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að vitna í niðurlag skýrslu þeirrar, sem ég nefndi áðan, um könnun á kjörum og félagslegri aðstöðu einstæðra foreldra á landinu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Eins og fyrr greinir skyggja húsnæðisörðugleikar á allan annan vanda. Ætla hefði mátt að peningamál væru þessu fólki ofar í huga en flest annað og ekki er fyrir það að synja að margir setja þau í fyrsta sæti. Er þegar á heildina er litið virðist sá kvíði og óvissa, sem fylgir ótryggðu húsnæðisástandi, há einstæðum foreldrum meira í daglegu lífi þeirra en flest annað og fátt virðist mundu koma þeim betur en sameiginlegt átak á því sviði.“

Hér er kannske því við að bæta að ég skil ekki almennilega vangaveltur skýrsluhöfunda um það hvers vegna húsnæðismál eru í fyrsta sæti en ekki peningamál, eins og það er orðað. Þessi mál eru náttúrlega svo nátengd og húsnæðismálin væru frekar í lagi ef peningamálin væru í betra lagi. Húsnæðisvandi þessa fólks er einfaldlega alvarlegasta afleiðingin af peningaleysi þess og á þessum vanda verður að taka sem fyrst. Ég ítreka fullan stuðning okkar Kvennalistakvenna við þessa ágætu till.