29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

197. mál, aðstöðugjald

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt við fsp. minni á þskj. 221. Skv. þeim upplýsingum liggur nú fyrir að velta þessara atvinnugreina á árinu 1983 er 32 milljarðar kr. Á árinu 1985 er sennilega um að ræða tölu sem er á bilinu 40–45 milljarðar kr. Þjóðartekjurnar á þessu ári eru taldar vera í kringum 80 milljarðar kr. Þessir aðilar, sem hér er um að ræða, smásöluverslun, heildverslun og skipafélög, hafa nú algert „frelsi“ um gjaldtöku sína af íbúum þessa lands. Þessi þáttur þjóðarbúskaparins, sem veltir í kringum 40–50 milljörðum á þessu ári, er gersamlega eftirlitslaus skv. þeirri stefnu sem núv. ríkisstj. rekur. Það er ekki verið að fara í saumana á hlutunum þarna.

Það kom greinilega fram í svari hæstv. félmrh. að opinberir aðilar hafa takmarkaðar upplýsingar um rekstur þessara þátta í þjóðfélaginu, enda þótt þeir séu jafnstórir og raun ber vitni um. Skyldi þá ekki í þessu svari felast skýringin á því hvernig það getur verið að eitt fyrirtæki flytur á fáeinum árum inn nauðsynjavöru fyrir 16 millj. dollara sem kostar í raun 10.5 millj. dollara? Mismunurinn, 5.5 millj. dollara, 220 millj. kr., hverfur eins og dögg fyrir sólu eða er ráðstafað með félagslegum hætti skv. yfirlýsingum forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. 220 millj. kr. hjá þessu eina fyrirtæki jafngildir öllum tekjum allra íbúa Þorlákshafnar á árinu 1984, svo að ég nefni dæmi.

Þetta lið fær að dansa laust. Það er ekki tilraun gerð til þess að stjórna því af hálfu núv. ríkisstj. Upplýsingar hæstv. félmrh. sýna mjög glöggt að þarna eru fjármunirnir í þjóðfélaginu, þarna eru þeir til í stórum stíl. En auðvitað hefur núv. ríkisstj. engan áhuga á að sækja þessa fjármuni vegna þess að þarna fara fyrir velunnarar hennar. Þarna eru uppsprettur þess valds sem ríkisstj. hefur. Þessir milljarðar fá að vera í friði meðan hinn almenni launamaður er hundeltur af stjórnvöldum.