29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

197. mál, aðstöðugjald

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í umr. um það atriði sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég vil aðeins koma því að, svo að ekki verði úr því misskilningur, að það kemur ekki fram í því, sem ég las upp áðan frá ríkisskattstjóra, að stjórnvöld hefðu ekki nákvæmar upplýsingar um allan innflutning og skiptingu hans, heldur kom aðeins fram að ríkisskattstjóri segir að hann hafi ekki nákvæma hreina skiptingu milli heildverslunar og smásöluverslunar í öllum greinum. Hann telur þó að hægt sé að fá þær upplýsingar nákvæmari. En allar aðalupplýsingar eru fyrir hendi, þannig að það er ekki um að ræða að neitt sé á huldu um innflutninginn og skráningu hans að öðru leyti.